c

Pistlar:

3. febrúar 2014 kl. 12:48

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ekki breyta þorrablótinu í danskeppni

Þótt það sé ekki sérlega sumarlegt um að litast þá eru allar alvöru tískupæjur farnar að pródúsera hvernig þær ætla að taka á móti vorinu – og það með stæl. Til þess að undirbúa sig er ágætt að fara að setja sumarfötin aðeins framar í fataskápinn, strauja það sem þarf að strauja og stagla í það sem þarf að stagla...kannski ekki alveg stagla í en samt (hér varð náttúrlega hrun – við skulum alls ekki gleyma því).

Eins og með öll alvöruverkefni sem við tökum okkur fyrir hendur skiptir máli að vera alveg tilbúnar þegar þetta brestur á. Ég var til dæmis næstum því viss um að þetta væri komið þegar ég hjólaði í gegnum miðbæinn og út á Seltjarnarnes fyrr í vikunni seinni part dags – úti var ennþá bjart og vor í lofti. Daginn eftir fokkaðist þetta aðeins upp þegar það byrjaði að snjóa af fullum krafti...

Það er akkúrat á þessum árstíma sem við þráum liti, léttari efni og það að geta verið berfættar í skónum. Það má pródúsera þessi þrjú atriði heima hjá sér enda er ekkert sem bannar okkur að vera berfættar í skóm innandyra. Það er þó eitt sem verður sérstaklega áberandi í vor- og sumartískunni og það eru samfestingar og smekkbuxur.

Þú þarft ekkert að óttast að þú verðir eins og fullorðið barn í samfestingnum. Þetta snýst um að velja rétta skó, vera með hárið blásið og slegið og í rétta jakkanum yfir. Samfestingar geta nefnilega verið ferlega klæðilegir því þeir klippa okkur ekki í sundur – eins og buxur og skyrta gera. Þegar stykkið er í sama lit og einni heild þá virkum við hávaxnari (sumar þurfa meira á því að halda en aðrar).

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta samfestinga-mál er ekki fyrir allar. Ég mæli þó með því að þið gefið samfestingnum séns og prófið að máta næst þegar þið farið í búð. Auðvitað fylgja fjöldaframleiddum samfestingum ótalmörg vandamál og getur verið flókið að finna samfesting sem passar bæði að ofan og neðan. Við erum nefnilega fæstar eins og dúkkur í laginu og stundum virðistgenalotteríið eitthvað vera að stríða okkur...

Það framkallar dálitla ónotatilfinningu að klæðast samfestingi sem smellpassar að ofan en er dálítið of þröngur að neðan. Það getur verið oggulítið heftandi að geta ekki sest niður – en í kokkteilboðumþarf það ekki að vera vandamál.

Nú ef samfestingurinn passar að neðan en er aðeins of þröngur að ofan má alltaf sleppa því að renna honum upp og fara í jakka yfir. En þú skalt ekki nota þetta trix þegar þú hittir hressu vini þína sem gætu tekið upp á því að breyta þorrablótinu í danskeppni. Þegar þú færir að rifja upp gömlu taktana úrfreestyle-keppninni í Tónabæ er hætt við að þér færi að hitna of mikið sem gerði það að verkum að þú yrðir að fara úr jakkanum.

Þótt samfestingar séu töff varð mér ljóst á dögunum að það voru ekki bara íslenskir bankamenn sem voru í ruglinu 2007. Fatalína Madonnu fyrir sænska móðurskipið H&M það herrans ár gefur til kynna að ruglið hafi verið alþjóðlegt. Ykkar ástkæra á einmitt samfesting úr fyrrnefndri línu og er ekki eini íslendingurinn því Sóley Tómasdóttir átti eins samfesting. Ef mig misminnir ekki komst hún inn í borgarstjórn í honum 2007.