Pistlar:

4. maí 2014 kl. 22:25

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Kynverunni hleypt út ...

Mitt einfalda og viðburðasnauða líf heldur áfram að rúlla eins og enginn sé morgundagurinn. Það var líklega þess vegna sem ég sagði já þegar ein afar skemmtileg stelpa hafði samband við mig og bauð mér að koma með sér og vinkonum sínum á Beyoncé Knowles-dansnámskeið.
 

Það þurfti ekki að suða mikið í mér að koma, jafnvel þótt vinkonur mínar segi að ég sé versti dansari á Íslandi. Ég vissi líka að þetta væri aðeins til gamans gert – ég gæti gleymt því að minn næsti karríer yrði á dansgólfinu og ég vissi líka að ég væri ekkert á leiðinni á dansmót. Hin meðvitaða ég hafði vitneskju um það að þótt ég myndi jafnvel aldrei geta lært sporin, þá fengi ég allavega hjartað til að slá hraðar og blóðið til að frussast um æðarnar. Bara það tvennt væri þess virði að drífa sig út á þriðjudagskvöldum og hrista á sér skrokkinn.

Fyrsti tíminn byrjaði frekar rólega þannig séð en svo magnaðist tryllingurinn upp. Áður en ég vissi af var búið að taka ákvörðun um að hópurinn myndi mæta í háhæluðum skóm í næsta tíma. Ekki nóg með það heldur var einnig mælt með því að við dansarnir ógurlegu mættum í sundbol við háhæluðu skóna. Til þess að ná upp sömu þokkafullu hreyfingum og Knowles státar af þyrftum við að vera í réttum búnaði. Þetta væri sko tækifærið til að hleypa kynverunni út... eða eitthvað!

Á þessu augnabliki var hjartslátturinn kominn yfir hættumörk því tilhugsunin um sokkabuxurnar, hælaskóna og sundbolinn varð mér nánast ofviða. Hvernig ætti stelpa, sem er helst aldrei með bera handleggi, að geta „púllað“ þennan búning og það fyrir framan fullan sal af konum.

Sem afar meðvituð 37 ára stelpa veit ég að ég mun aldrei komast upp á næsta þrep í lífinu nema að leggja eitthvað á mig. Þess vegna ákvað ég að láta slag standa og takast á við óttann.

Því var skundað í miðbæinn og keyptar extra stífar Wolford-sokkabuxur sem myndu hafa kontról á lærunum í öllum hristingnum. Þegar heim var komið tróð ég mér í þetta allt saman og auðvitað brosti ég hringinn. Ég meina, hversu fyndið er það að vera ein heima hjá sér að máta sokkabuxur undir sundbolinn og velja sér háhælaða skó við sem hægt er að dansa Beyoncé-dansa í?

Svo rann danstíminn upp og stelpurnar mættu flestar í Beyoncé-klæðum eins og ekkert væri eðlilegra. Það að mæta í þessum búningi gerði danstímann náttúrlega helmingi skemmtilegri. Eina vandamálið var að ég var alltaf pínu hrædd um að brjóstin myndu poppa upp úr sundbolnum. Það er því spurning hvort ég þurfi ekki að taka þetta alla leið og fjárfesta í alvöru dansbol sem ég get verið í við sokkabuxurnar og hælaskóna og þannig dansað áhyggjulaus.

Lærdómurinn af þessu er án efa að nýta hvert tækifæri sem gefst til að gera eitthvað sem maður myndi aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum. Svona klikkaðar aðstæður gera lífið svo fyndið og skemmtilegt og í hinum venjulega hversdegi þá veitir bara stundum ekkert af því...


Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira