c

Pistlar:

10. júní 2014 kl. 13:44

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Kosningasjónvarpið

Þeir sem horfðu á kosningasjónvarpið á RÚV tóku væntanlega eftir því að lítið fór fyrir störfum stílista þegar kom að klæðaburði þáttastjórnenda í útsendingunni. Ég veit að ég er ekki eina manneskjan á plánetunni jörð sem tók eftir þessu þótt „umburðarlynda fólkið“ (takk Bergur Ebbi) vilji ekki ræða þetta.

Þar sem ég lá eins og hakkabuff uppi í sófa, gjörsamlega buguð af þreytu og eurovisionlögum að reyna að fylgjast með nýjustu tölum, með tölvuna í fanginu, voru þónokkrir vinir mínir á samfélagsmiðlunum sem voru afar hissa á útganginum.

Þess vegna hringdi ég í Láru Ómarsdóttur, sem er nota bene afbragðsfréttakona, og spurði hana út í klæðaburðinn og hvort þau hefðu fengið einhverja faglega hjálp. Í fréttinni sem ég birti á mínum vandaða og lekkera vef sagði Lára:

„Mér finnst skondið að fólk sé að hugsa út í þetta. Ég var bara í mínum eigin fötum og reyndi að vera snyrtilega til fara. RÚV er ekkert með stílista og ég vil endilega taka það fram að mér finnst innihaldið skipta meira máli,“ segir Lára Ómarsdóttir fréttamaður og bætti við: „Það hefur aldrei neinn spurt mig út í þetta enda erum við bara blankir fréttamenn,“ segir hún.

Ég er sammála Láru, innihaldið þarf að vera gott og auðvitað eiga fréttamenn að einbeita sér að því að vera vel inni í málum svo þeir geti spurt réttu spurninganna. En er ekki óeðlilegt að stofnun eins og RÚV skuli ekki vera með fagmanneskju á sínum snærum sem gætir þess að útgangurinn á fréttamönnunum sé jafn vandaður og fréttaflutningurinn sjálfur.

Í öllum hraðanum á fréttastofunni er náttúrlega enginn tími til að spá í eitthvað svona en heildarmynd skiptir engu að síður mjög miklu máli. Sjónvarp er þess eðlis að það þarf að lúkka vel – jafnvel þótt hér hafi orðið hrun.

Við Egill Helgason venjum komur okkar á sama morgunkaffihúsið og í vikunni spurði ég hann auðvitað hvort hann hefði einhvern tímann verið stíliseraður. Hann fór nú bara að hlæja þegar ég nefndi þetta og sagði að Ragna Fossberg, förðunarmeistari stofnunarinnar, sæi til þess að fólk mætti ekki blettótt í útsendingu.

Fólk hefur mismikinn áhuga á klæðaburði enda er ég ekki að mæla með því að allir starfsmenn RÚV verði settir í „Extreme Makeover“. Ég geri samt sem áður þá kröfu að yfirbragðið sé vandað – ekki eins og fólk hafi sofnað í partíi og mætt beint í beina útsendingu.

Út frá faglegu sjónarhorni ætti stofnun eins og RÚV að leggja sig fram við að hafa áhöfnina á móðurskipinu prýðilega til fara og það ætti að vera jafn sjálfsagt að hafa stílista, fagfólk í tónlistinni, sviðsmyndinni og málfarsráðunaut.

Nú ef það er ekki stemning fyrir stílistanum og fólki finnst við vera að synda í of grunnri tjörn með þessa umræðu þá má velta fyrir sér hvort förðunarmeisturum stofununarinnar sé ekki ofaukið. Og hárgreiðslumeisturunum? Bara hafa þetta allt 100% náttúrulegt...