c

Pistlar:

6. september 2014 kl. 9:48

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Leynibrúðkaup ársins ...

Hrós vikunnar fá Angelina Jolie og Brad Pitt fyrir að gifta sig nánast í leyni, bjóða bara 22 gestum og sjá til þess að fréttin um brúðkaupið kvisaðist ekki út fyrr en fimm dögum eftir það. Fjölmiðlar standa á gati og vita ekkert nema að brúðkaupið fór fram í lítilli kapellu í Château Mira-val í Frakklandi og að börn hjónanna tóku virkan þátt í athöfninni.

Vitað er að Angelina Jolie klæddist hvítum kjól en ekki er á hreinu frá hvaða hönnuði hann var. Líklegt þykir að hann hafi verið frá Valentino, Atelier Versace eða Elie Saab. Auk þess hefur tískuhúsið Saint-Laurent verið nefnt í þessu samhengi.

Síðan parið hnaut hvort um annað árið 2005 hafa fjölmiðlarnir ekki þreyst á að skrifa fréttir um brúðkaupið, hvar það yrði haldið, í hverju hún myndi vera og ekki síst hverjum ætti að bjóða í þessa tímamótaveislu. Þetta var stundum sett þannig fram að hugsanlega væri sambandið ekki nægilega sterkt fyrst þau væru ekki búin að innsigla það með risabrúðkaupi.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig stemningin er í Hollywood núna. Vinir Jolie og Pitt eru pottþétt að drepast úr skúffelsi yfir því að hafa ekki getað klætt sig upp í sitt fínasta, farið í hár og förðun og Instagrammað svo allt í drasl meðan á veislunni stæði með #Brangelina #wedding #geðveiktstud.

Ég hef ekki tölu á því hvað ég er búin að lesa margar fréttir um þetta brúðkaupsmál og fyrstu árin eftir að Pitt og Jolie byrjuðu saman var hans fyrrverandi, Jennifer Aniston, reglulega blandað inn í þennan fréttaflutning. Að þau Pitt væru mögulega að fara að byrja aftur saman og hvað það væri mikil kergja á milli Aniston og Jolie.

Þeir sem hafa átt í ástarsamböndum vita að það er yfirleitt einhver ástæða fyrir því hvers vegna ástarsambönd komast á endastöð. Auðvitað hefði Pitt bara verið áfram með Aniston ef það hefði verið nægilegt kemistrí. Það er ágætt að hafa það bak við eyrað að þetta virkar ekkert öðruvísi í Hollywood en í Kópavogi eða Breiðholti.

Eins dásamlegt og mér finnst að fara í brúðkaup, upplifa alsæluna sem fylgir því þegar tveir einstaklingar játast og fagna ástinni ærlega með veglegri brúðkaupsveislu, þá er þetta nokkuð sem mig myndi aldrei langa til að gera sjálf. Ég hef til dæmis aldrei svo mikið sem mátað brúðarkjól og aldrei séð mig fyrir mér í hlutverki „brúðarinnar“. Þrátt fyrir að eiga eitt hjónaband að baki hef ég ennþá tröllatrú á hjónabandi og tel að allir sem ætla að deila lífinu eigi að gera með sér slíkan samning.

Það er bara eitt sem vonbiðill þarf að vita og það er að hringurinn skiptir tæknilega séð öllu máli og hann þarf að vera með stórum demanti. Ekki er nauðsynlegt að hann kosti jafnmikið og hringur Jolie en kvenpeningurinn myndi þó ekki fúlsa við slíkum grip...