c

Pistlar:

28. september 2014 kl. 10:37

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Konan í sloppnum ...

Eitt af því sem mikilvægt er að eiga þegar hausta tekur eru notaleg heimaföt. Þá erum við ekki að tala um eitthvað sérhannað og dýrt heldur fatnað sem hægt er að letihaugast í fyrir allan peninginn. Haustið er tími athafna og framkvæmda og þegar við fáum frið fyrir vinnunni og tómstundunum skiptir máli að vera þannig klæddur að ekkert þrengi að þannig að líkaminn fái raunverulega hvíld.

Á mínu heimili gerist það einhvern veginn bara bláspari að ég liggi meðvitundarlaus í sófanum og horfi á sjónvarpið. Þess vegna legg ég mikið upp úr því að vera rétt búin þegar þessi helgiathöfn fer fram. Helsta vandamálið er þó að ég legg svo mikið í þægindin á þessum augnablikum að yfirleitt hefur Óli lokbrá náð algerum tökum á mér áður en ég næ að kveikja á sjónvarpinu, en það er önnur saga.

Ég geri heldur enga kröfu um að heimafötin séu smart og svo hef ég aldrei skilið þá hugsun að svona föt þurfi að vera sérstaklega sexí. Í mínum huga hafa föt almennt eitthvert allt annað hlutverk en að keyra upp kynþokka. Þetta eru mögulega hinar verstu fréttir fyrir kaupmenn en ég hef bara aldrei heyrt neina lifandi manneskja láta það út úr sér að hún hafi hrifist að annarri manneskju því hún var svo smart í tauinu. Fín föt geta ýtt undir vellíðan og sjálfstraust en það er hæpið að þau geti búið til kynþokka sem ekki er til staðar nú þegar. Rannsóknir benda einnig til þess að hrifning okkar á öðrum hafi aðallega með lyktarskynið að gera – alls ekki fatastíl.

Í dagsins önn finnst mér háhælaðir skór, kjólar og aðhaldssokkabuxur veita skjól og öryggi. Að vera í fötum sem okkur líður vel í dags daglega gerir það að verkum að við komum meiru í verk og okkur líður almennt betur í athöfnum dagsins. Eins vel og mér líður í slíkum fötum er það samt alltaf mitt fyrsta verk að hendast úr þeim þegar ég kem heim. Það er bara alls ekki hægt að hugsa almennilega um börn í háhæluðum skóm og kjól.

Þess vegna get ég seint þakkað þeim meistara sem fann upp sloppinn. Og þá er ég ekki að tala um efnislitla gegnsæja Barbie-dúkkusloppa eins og sjást á hvíta tjaldinu (eða í erótískum myndum) heldur heiðarlega frottesloppa, asíska silkisloppa og venjulega bómullarsloppa sem koma þreyttum húsmæðrum til bjargar á haustkvöldum. Ég veit bara ekki um neitt sem ekki er hægt að gera í slopp og þess vegna flokka ég sloppinn sem hina fullkomnu heimaflík.

Það eru reyndar ekki alveg allir í kringum mig sammála mér um ágæti sloppsins og ekki allir með þessa flík í jafn miklu hásæti og ég sjálf. Þess vegna vinn ég hörðum höndum að því að reyna að sloppavæða helstu leikarana í lífi mínu og er komin með karlmannsslopp í stærð M inn á bað. Hvort í sloppinn verður farið eða ekki liggur ekki ljóst fyrir á þessari stundu en einhvern veginn set ég slopp og íþróttagalla í sama flokk þannig að þetta ætti að verða auðsótt...eða hvað?