c

Pistlar:

30. nóvember 2014 kl. 13:39

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Úttaugaðar í jólastressinu ...

Á þessum árstíma, þar sem yfirsnúningurinn á það til að fara yfir hættumörk, er ágætt að gefa sér tíu mínútur eða korter og spyrja sig nokkurra spurninga. Ágætt er að vera með blað og penna við höndina, svo maður gleymi ekki aðalatriðunum í mesta glundroðanum, og skrifa svarið samviskusamlega niður á blað. Spurningin er eitthvað á þá leið hvað desember og jólaundirbúningurinn geri raunverulega fyrir okkur og svo má spyrja sig hvort jólastússið geri okkur hamingjusamari.

Hjá mestu jólabörnunum eru hæg heimatökin en hjá þeim sem hafa „engan tíma“ getur desember breyst í lifandi helvíti. Og afsakanir eins og fólk þurfi að forgangsraða og gefa sér tíma eiga sér bara því miður enga stoð í raunveruleikanum. Ég veit ekki um neinn sem getur labbað út úr vinnunni á miðjum degi til að fara heim til sín að baka smákökur og föndra með börnunum eða fara í Smáralind að kaupa jólagjafir.

Desember er svolítið skrautlegur mánuður því innst inni viljum við held ég allar hafa allt ógurlega fínt og lekkert í kringum okkur, að börnin upplifi eitthvað stórkostlegt og jólaskapið hreinlega drjúpi af okkur. Og innri friður, ekki gleyma honum, hann þarf að vera í hámarki.

Þegar lífið er þannig í grunninn að það leyfir engin meiriháttar frávik getur þessi blessaði jólaundirbúningur farið með okkur kvenpeninginn. Ég segi kvenpeninginn því ég veit ekki um marga karla sem taka jólaundirbúninginn með eins miklu trompi og við konurnar. Það eru mömmurnar sem jóla og búa til stemningu. Þetta er að hluta til okkur að kenna því við ölum börnin okkar þannig upp að hitt og þetta sé ómissandi og heilaþvoum þau um að mamma geri allt best.

Úttaugaðar mætum við svo í jólaföndrið eða á danssýningar eftir vinnu því ekki getum við skrópað – þá yrðum við stimplaðar vanhæfar. Svo þarf að sýna foreldrum afrakstur lífeyrissjóðsins á hinum ýmsu sviðum og ekki gleyma vinnustaðagleðinni, jólahlaðborðunum, vinkonukvöldunum og svo skaltu hafa það bak við eyrað að þú kemst á dauðalistann ef þú skrópar í fjölskylduboðum.

Í yfirkeyrslunni sem tilheyrir jólaundirbúningnum þyrftu mömmurnar yfirleitt miklu meira á því að halda að fá að sofa út eða vera heima hjá sér á sloppnum og slaka á í stað þess að taka jólaundirbúninginn með trompi.

Nú eru mögulega einhverjir farnir að blóta þessari djö... sjálfselsku í mér. En álag á konur á vinnumarkaði er dauðans alvara. Þar sem heilbrigðiskerfið er líklega ekki að fara að grípa okkur þegar við klárum batteríin þurfum við að vera meðvitaðar sjálfar og setja sjálfar mörk. Það gerir það enginn fyrir okkur – nema náttúrlega við séum í þeim mun betri ástarsamböndum.

Svona rétt í lokin má líka velta fyrir sér hvers vegna áfengisdrykkja eykst í desember. Er það vegna þess að okkur finnst vín svona ógurlega gott eða er það kannski vegna þess að álagið er svo mikið að við komumst hreinlega ekki edrú í gegnum þetta? Þá má aftur spyrja sig hvort það sé ekki eitthvað pínulítið að í samfélaginu ef það telst eðlilegt að við þurfum deyfingu í vökvaformi til að geta dregið andann án þess að snappa...