Pistlar:

28. febrúar 2015 kl. 10:55

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Börn eru ekki fylgihlutir

Kim Kardashian átti ekki sjö dagana sæla þegar hún mætti með 19 mánaða dóttur sína, North West, á tískuvikuna í New York. Mæðgurnar voru í sínu fínasta pússi á fremsta bekk þegar pabbinn, hann Kayne West, sýndi línu sem hann hannaði fyrir Adidas. Við hlið þeirra mæðgna sat ein valdamesta kona tískuheimsins, Anna Wintour, ritstjóri bandaríska Vogue.

Það sem gerðist næst var að þessi 19 mánaða var alveg á röngunni alla sýninguna, grét krókódílatárum og var mjög ósátt við að þurfa að sitja kyrr í fangi móður sinnar meðan á sýningunni stóð. Á endanum þurfti móðirin að fara með dóttur sína fram því það var einfaldlega ekki hægt að þagga niður í henni.

Þegar ég sá þetta litla 19 mánaða krútt þarna á fremsta bekk fann ég til með þeim báðum. Fann til með mömmunni sem langaði eflaust til að sýna sig og sjá aðra með það verðmætasta sem hún á í fanginu. Og svo fann ég líka til með þeirri 19 mánaða sem vildi vera allt annars staðar en í kastljósinu innan um allt fína fólkið.

Fyrir rúmlega níu árum eignaðist ég frumburð minn og áður en þessi fríðleikspiltur kom í heiminn hélt ég pínulítið (og þið megið ekki dæma mig) að börn væru fylgihlutir, ekki litlar manneskjur með sínar eigin þarfir og langanir. Ég hélt að ég gæti klætt börnin mín upp í sitt fínasta púss og sportað mig með þau í bænum. Ég hélt að það væri hlutverk foreldranna að ala upp litla menningarvita með því að fara með þá á fullorðinssamkomur eins og á myndlistaropnanir eða í lekker síðdegisboð. En nei, þetta er því miður ekki alveg svona. Börn hafa engan áhuga á fínum boðum og hvað þá að þurfa að haga sér eftir fyrirfram ákveðnum reglum.

Það kannast örugglega allar mæður við þessa tilfinningu og allar höfum við örugglega lent í því að vera með börnin okkar í einhverjum aðstæðum sem þau vilja alls ekki vera í. Eftir að hafa farið í gegnum þann öldugang sem móðurhlutverkinu fylgir veit ég það að börn eru alltaf til vandræða í þau fáu skipti sem maður óskar þess að þau séu prúð. Eins vandræðalega og það hljómar þá hagar hann yngri sonur minn, sem er fimm að verða sex ára, sér yfirleitt eins og trúður þegar kærastinn minn er innan seilingar. Í hvert skipti sem þetta gerist signi ég mig og vona að barnið sýni hvað það sé ógurlega vel uppalið... Því miður bregst þetta alltaf! Ef við förum í búðina seinni partinn hendir hann sér í gólfið ef hann fær ekki nammið sem er við kassann og ef ég neita honum um eitthvað verður hann hræðilega móðgaður út í mig.

Og svo er þetta með klæðaburðinn sem er alveg að fara með mig í gröfina. Það var nú aldeilis glatt á hjalla þegar ég gat ráðið hverju litlu ljósálfarnir mínir klæddust eða áður en þeir tóku upp smákrimmalúkkið sem gengur út á hettupeysur, íþróttabuxur með hvítum röndum og hvíta strigaskó.

Meðan á þessu ógæfutímabili stendur reynir móðirin bara að anda inn... og anda út og nýtur þess að vera í eltingaleik um húsið með geislasverð á meðan vinir hennar keyra upp stemninguna í öllum heimsins partíum.

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira