c

Pistlar:

9. mars 2015 kl. 16:23

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Fatastíll óþekkra kvenna

underwood.jpgClaire Underwood birtist aftur á skjánum á mánudagskvöldið á RÚV þegar þriðja serían af House of Cards fór í loftið. Stíllinn á frúnni er eitthvað svo áreynslulaus en á sama tíma elegant og vandaður. Fyrirferðarmiklir skartgripir eru ekki að þvælast fyrir, ekkert skraut og lítið um pallíettur. Eini skartgripurinn er oft bara dökku gleraugun eða kannski úr, en svona dagsdaglega er bara unnið með vönduð ullarefni og silki – mínimalískt hefðarkattarlúkk með miklum krafti.

Það sem einkennir fataskáp frú Underwood eru án efa klassískir og vandaðir hnésíðir kjólar. Þeir eru vel sniðnir, ekki of þröngir yfir mjaðmirnar og ekki víðir yfir magann... og kiprast ekki á óheppilegum stöðum. Íslenskar konur mættu taka frú Underwood til fyrirmyndar og klæðast oftar kjólum í hennar stíl. Að eiga tvo kjóla sinn í hvorum litnum getur aldeilis gert mikið fyrir heildarmyndina. Það að vera í kjól undir jakka er mun klæðilegra en að vera í pilsi og bol undir jakka. Með því að vera í kjól erum við ekkert að kötta líkamann niður með óþarfa skiptingum. Allir smáhestar ættu að vera meðvitaðir um þetta. Með því að vera í einu stykki undir jakka sýnumst við örlítið hávaxnari... (sumar þurfa einfaldlega á því að halda).

Í allri víðu tískunni sem er að gera allt bandvitlaust þetta misserið, eins og víðar kápur og stór og mikil ponsjó yfir axlirnar, er svo gott að eiga einfalda kjóla í anda Underwood í fataskápnum og nota þá sem grunn. Þannig getum við algerlega náð fram því besta í eigin fari, verið með puttana á tískupúlsinum en samt ekki eins og einhver tískufórnarlömb. Þroskaðar konur gera nefnilega ekki slík byrjendamistök að vera þrælar tískunnar. Nú svo er það þetta þverröndótta sem verður svo ógurlega mikið málið í sumar. Þverröndótt er reyndar alltaf inn hjá ákveðnum hópi sem kýs að fara siglandi á milli staða. En nú er það málið þvert yfir, hjá ungum og öldnum. Þverröndótt er pínulítið Underwood, eða allavega þegar afslappaða týpan af henni er í forgrunni. Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri að það er ekki bara „heilarmyndin“ á frú Underwood og allur hennar lekkeri fataskápur sem heillar. Krafturinn sem fylgir þessum karakter er einstakur og þegar við erum eitthvað litlar í okkur eða á röngunni og finnst heimurinn eitthvað ósanngjarn ættum við að bæta smá Underwood í lífið.

Konur þurfa að taka hana sér til fyrirmyndar. Þær eiga að hugsa stórt og ekki láta neitt stoppa sig. Það er nefnilega allt í lagi að vera svolítið eins og hún; með vandað yfirbragð en samt smádólgur undir niðri. Sagan sýnir það nefnilega að of prúðar konur hafa sjaldnast náð langt í lífinu...