Pistlar:

13. júlí 2015 kl. 21:30

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þarna fór hún með okkur

middleton2Katrín, hertogaynja af Cambridge, lét okkur hinar tveggja barna spariguggu-mæðurnar fá nett hland fyrir hjartað þegar myndirnar úr skírn Karlottu birtust í fjölmiðlum. Sú stutta var skírð formlega síðasta sunnudag og móðirin var eins og kvikmyndastjarna eða kannski bara drottning. Þarna var hún glæsilegri en nokkru sinni fyrr í beinhvítum kápukjól, vel útsofin með hatt. Við kápukjólinn var hún með nett demantshálsmen og í beinhvítum flugfreyjuskóm með rúnnaðri tá. Ekki nóg með það heldur var ekki annað að sjá en að hún væri alveg búin að ná sér eftir meðgöngu, fæðingu og sængurlegu og meira að segja með smá lit í kinnunum. Tók innan við tvo mánuði („vel gert“ myndu karlarnir með stóra bjórinn og stóru hjólhýsin segja).

Það er ekki mjög langt síðan yngri sonur minn, sem ber þess óþægilega oft merki að vera barn númer tvö, spurði mig ítarlega út í sína eigin skírn. Þessi fríðleikspiltur verður sex ára á mánudaginn og vill hafa góða yfirsýn yfir líf sitt. Hann tekur sitt pláss í tilverunni og myndi aldrei sætta sig við að vera „second class“. Því miður virðist vera sem sá aumi raunveruleiki sé að renna upp fyrir honum að metnaðurinn sem frumbyrjan móðir hans bjó yfir þegar eldri bróðir hans kom í heiminn hafi dalað ískyggilega með árunum. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum „gleymdist“ hitt og þetta þegar þessi 6 ára var að alast upp sem var algerlega upp á tíu hjá þeim eldri.

Þegar hann krafðist svara um sína eigin skírnarveislu versnaði í því. Hann vildi fá að vita hverjir hefðu mætt í skírnarveisluna, hvaða gjafir hann hefði fengið og hvaða veitingar hefðu verið í boði. Það hvarflaði að móðurinni eitt augnablik að hagræða aðeins sannleikanum og þykjast hafa haldið stórkostlegustu veislu allra tíma honum til heiðurs og fór að velta fyrir sér hvernig hún ætti að lýsa draumkenndum skreytingum í smáatriðum. Það er nefnilega hálfaumt að þurfa að útskýra fyrir næstum því 6 ára „first class“ barni að veislan hafi verið engin og hann hafi verið skírður á hálfgerðum hlaupum í kapellu þegar presturinn hafði laust korter. Þetta þurfti að drífa af því við foreldrarnir þurftum að skjótast í viðskiptaferð og gátum ekki skilið hann eftir óskírðan í pössun í tvær vikur.middleton

Svona eftir á að hyggja hefði án efa verið hægt að leggja meiri metnað í þetta verkefni og halda smá skírn heima með þeim allra nánustu. Vandamálið er bara að lífið er ekki eins og í glanstímariti og stundum er bara ekki hægt að standa undir væntingum samfélagsins vegna ofþreytu og leiðinda. Stundum eru verkefni hversdagsins bara svo yfirgripsmikil og þung í vöfum að það verður eitthvað undan að láta.

Við venjulegu spariguggu-mömmurnar erum nefnilega ekki með her í kringum okkur sem þjónustar okkur; passar fyrir okkur börnin svo við fáum nægan nætursvefn, velur á okkur fötin, greiðir okkur og gætir þess að við séum óaðfinnanlegar líkt og hertogaynjan af Cambridge. Enda væri lífið hálftilgangslaust ef maður þyrfti ekki að berjast af öllu afli til að halda öllu á floti. Svo hefur frasinn „fake it till you make it“ fleytt mörgum langt og svo má alltaf feika hamingjuna og gleðina á Instagram ef allt þrýtur. 

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira