c

Pistlar:

19. júlí 2015 kl. 22:44

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Sparigugga sparar ...

Það getur ekki verið annað en hollt fyrir hverja manneskju að flytja reglulega. Það að bera kassa á milli húsa er góð líkamsrækt og svo reyna flutningar á vinstra heilahvelið. Það er nefnilega bara fólk með virkt vinstra heilahvel sem getur raðað í sendiferðabíla án þess að allt fari í fokk.

Auk þess hafa allir gott af því að fara í gegnum veraldlegar eigur sínar og spyrja sig óþægilegra spurninga eins og hvers vegna maður sé ekki löngu búinn að losa sig við bókina Ástin og stjörnumerkin eða megrunarbók Opruh Winfrey. Augljóst er að ef þessar tvær bækur virkuðu væru allir sjúklega slank og happy og gengju um á bleiku skýi ástarinnar, alltaf, alls staðar.

oprahÞað mætti margt betur fara á heimili litlu frúarinnar. Þar er ekki bara að finna undarlegasta bókasafn allra tíma heldur fataskáp sem gæti klætt heilt ríki.

Ofan á allt þetta hefur litla frúin verið þvottavélarlaus í tvo og hálfan mánuð vegna framkvæmda. Hún neitar því ekki, þvotturinn hefur svo sem safnast upp og akkúrat í morgun var nærbuxnaskúffan tóm (nærbuxnalaus lífsstíll gæti alveg vanist). En svona fyrir utan þetta smáatriði sér ekki högg á vatni. Tölfræðilega gæti litla frúin verið þvottavélarlaus út árið ef því væri að skipta.

Síðhærði og skeggjaði kærastinn hennar hefur reyndar reynst betur en enginn og þvegið nokkrar vélar á sínu einkaheimili en það hafa nú aðallega verið föt af börnunum. Litla frúin hefur reyndar handþvegið undirföt tvisvar eða þrisvar af mikilli nákvæmni. En svona til þess að koma í veg fyrir nærbuxnalausan lífsstíl verður þvottavélin tengd um helgina og þá verður nú djammað í þvottahúsinu. Nýja þvottahúsið verður innréttað eftir þörfum nútímakonunnar og verður einfaldleikinn í fyrirrúmi.

Það vekur samt ansi óþægilegar spurningar að 38 ára gömul sparigugga geti lifað án þvottavélar í allan þennan tíma án þess að vera án gríns bara á nærbuxunum.

Fyrir um það bil ári áttaði þessi 38 ára sig á því að það væri kannski kominn tími á að halda þéttar um platínukortið og kaupa ekki neitt nema það hefði raunverulegt notagildi eða að það væri sannað að hluturinn margfaldaði lífshamingjuna svo um munaði. Í kjölfarið vöknuðu auðvitað líka óþægilegar spurningar. Er hjartastöðin eins og gatasigti þegar það þarf stöðugt að fylla upp í götin með fatakaupum?

Allt hugsandi fólk veit að það er náttúrlega eitthvað að. Sálfræðingar myndu án efa greina þennan djöful með kaupfíkn eða með ríkulega skorthegðun.

Eftir að hafa farið kerfisbundið í gegnum þetta, skrifað niður hverja færslu sem fór út af kortinu áttaði litla frúin sig á því að það væri mjög auðvelt að spara án þess að það kæmi niður á gleðinni eða lífshamingjunni. Vandamálið er samt að fólk þarf að ákveða þetta sjálft. Það getur enginn annar sett mörk og skipað fólki að tussast til að spara.

Í vikunni birti Smartland Mörtu Maríu sparnaðarráð frá milljarðamæringum og þar kom enn eitt áfallið. Samkvæmt þessum sparnaðarráðum er best að klippa sig sjálfur, eiga látlaust heimili og hjóla í stað þess að reka bíl. Þegar kaupóði djöfullinn las þetta missti hann lífsviljann og velti fyrir sér hvort það væri þess virði að draga andann ef hann kæmist ekki í klippingu og það væri ljótt heima hjá honum. Auk þess myndi hann líklega enda uppi atvinnulaus því þessi kaupóði djöfull fær alltaf bestu hugmyndirnar þegar hann þeysist upp Ártúnsbrekkuna á sínum viljuga bíl ...