c

Pistlar:

9. nóvember 2015 kl. 9:31

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Heitasta jólagjöfin 2015

Smáhesturinn getur víst ekki verið maður með mönnum nema að vera pæla pínulítið í jólunum og svona. Hann datt náttúrlega í snemmbúið jólaskap þegar IKEA geitin brann í 20. skipti á dögunum. Það minnti smáhestinn á að mögulega mætti aðeins fara að huga að jólagjöfum (eða grafa þær upp sem hann var nú þegar búinn að kaupa).

Hættan er nefnilega alltaf fyrir hendi að jólagjafirnar fari fram úr fjárlögum ef þær eru keyptar á síðustu stundu. Hver hefur ekki lent í því að vera með öran hjartslátt af stressi á Þorláksmessu með allt niðrum sig í jólagjafakaupunum? Og í því ástandi hefur öll skynsemi fokið út í veður og vind. „Fokk it – þetta reddast“ frasinn er örugglega vinsæll í desember – en vill maður vera þræll hans allt sitt líf?

Eftir því sem myrkrið verður meira og jólaljósunum fjölgar er eins og þjóðin (ekki bara smáhestar) missi það... Allt of margir sjá enga leið út úr þessu ástandi nema hella vel í sig af jólabjór, jólaglöggi og ofstöffa sig svo með reyktu kjöti (enn aðrir gera eitthvað miklu villtara sem ekki verður rætt hér). Það verður náttúrlega allt skárra þegar lífsblómið er vökvað með einhverju öðru en vatni. Vondu fréttirnar eru hinsvegar að innst inni vita þeir sem eru í þessum pakka alveg af því að þetta gerir raunverulega ekki neitt fyrir neinn nema framkalla glundroðakennda hugsun.

Smáhesturinn elskar jólagjafakaup og þess vegna skilur hann ekki hvers vegna fólk kýs að geyma þau fram á síðustu stundu. Honum verður klárlega lógað ef hann segir frá því að hann hafi byrjað að fylla á jólagjafatankinn í júlí. Á milli garðverka í sumarfríinu skaust hann í eina og eina búð og keypt eitt og annað fyrir þá sem honum þykir vænt um. Það að halda hátíð ljóss og friðar á að vera í þeim anda – jólin eiga ekki að vera stress og glundroði. Nóg er nú af því stöffi í hinu daglega lífi þótt gleðihátíð sé ekki í sömu hjólförum og hversdagsleikinn.

Þegar fólk er komið á aldur smáhestsins vantar það nákvæmlega ekki neitt nema kannski meiri tíma til að liggja í láréttri stöðu uppi í sófa og slappa af. Þess vegna varð smáhesturinn upprifinn þegar hann heyrði af sniðugustu jólagjöf allra tíma. Hugmyndin kom frá hagsýnustu vinkonu smáhestsins sem hefur ekki verið í fastri vinnu í nokkur ár en samt náð að framkvæma flest sem hugurinn girnist. Með því að nota á sér hausinn hefur þessi vinkona látið drauma sína rætast án þess að vera með einhverja góðærisstæla og yfirdráttinn í botni.

Hún sem sagt stakk upp á því að fólk gæfi smábarnaforeldrum næturpössun fyrir börnin sín í jólagjöf. Þetta er náttúrlega mesta snilldarhugmynd sem fengist hefur. Veitir mun meiri ánægju, ef hægt er að mæla hamingjustuðul dagsins á einhverju formi, en að fá skrautmuni eða enn eitt viskastykkið í eldhúsið.

Þetta er líka svo óendanlega mikil „win-win-jólagjöf“. Hver elskar ekki að fá lítil frændsystkini í heimsókn og dekra við þau yfir nótt og hvaða smábarnaforeldrar elska ekki að fá samfelldan nætursvefn og gera það sem fullorðnir gera þegar þeir eru einir heima.

Smáhesturinn er viss um að hjónaskilnuðum myndi fækka heilmikið ef smábarnaforeldrar fengju hagnýtari jólagjafir – ekki bara endalaust af smartheitavösum, jólaóróum og einhverjum bráðnauðsynlegum óþarfa sem aldrei er notaður og er bara geymdur í skúffunni. Amen.