c

Pistlar:

12. mars 2016 kl. 21:35

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Candy Crush

Nánasti aðstandandi smáhestsins er farinn að hafa töluverðar áhyggjur af honum. Hann hefur nefnilega verið að sýna hegðunarmunstur síðustu daga sem þykja kannski ekki alveg nógu vönduð – allavega miðað við aldur og fyrri störf.

Þetta byrjaði allt í síðustu viku þegar smáhesturinn lærði að spila tölvuleik um borð í flugvél.

Þegar ferðafélagi smáhestsins dró upp símann sinn og fór að raða saman þremur og helst fjórum litríkum gotterísmolum varð hann afar áhugasamur og forvitinn um þetta tölvugotterí.

Fyrir flesta er þetta örugglega eðlilegasti hlutur í heimi – annar hver maður spilar tölvuleiki í símanum sínum. En smáhesturinn er frekar íhaldssamur og gamaldags þegar kemur að þessum málum. Hann hefur til dæmis aldrei sett peninga í spilakassa og aldrei orðið húkkt á tölvuleikjum. Smáhesturinn sagði líka þvert nei þegar börnin óskuðu eftir að fá að kaupa sér leikjatölvu (fyrir sína eigin peninga) og gaf út þau skýru skilaboð að inn á heimilið myndi slíkur gripur aldrei koma. Þegar smáhesturinn sagði vinkonu sinni frá þessu var henni tjáð að það myndi enginn nenna að leika við börnin hennar ef það væri ekki leikjatölva á heimilinu. Smáhesturinn er enn að þrjóskast við og passar sig á því að baka pönnukökur ofan í krakkaormana til að bæta upp tölvuleikjaskortinn. Hingað til hefur það virkað ógurlega vel.

Þetta byrjaði allt mjög sakleysislega. Smáhesturinn hlóð leikjaappinu niður í símann sinn fljótlega eftir að vélin lenti til að prófa sjálfur að raða saman litríkum gotterísmolum. Næstu daga stalst hann til að spila smá og smá þegar það kom augnabliks dauð stund í lífi hans (eða réttara sagt, fór frekar í einn leik en að setja í þvottavél og þar fram eftir götunum). Um síðustu helgi fóru leikar að æsast, smáhesturinn komst upp um þónokkur borð og varð svona líka spenntur að aðfaranótt sunnudags var hann farinn að grátbiðja gamla skólafélaga um líf (sem er náttúrlega hræðilega sjoppulegt). Þegar hann loksins leit á klukkuna áttaði smáhesturinn sig á því að hann hafði ekki vakað svona lengi síðan hann hætti að taka seinni vaktina á skemmtistöðum borgarinnar einhvern tímann á síðustu öld.

Hann fann hvernig augnlokin þyngdust og hann átti erfitt með að halda þeim opnum – en hann gat bara ekki hætt. Einn leik í viðbót ...

Móðursystir smáhestsins sá ástæðu til að hringja í hann til að athuga hvort hann væri kominn með vírus í tölvuna. Hún trúði því ekki að smáhesturinn hefði í alvörunni beðið um líf í Candy Crush.

Hingað til hafa svo sem verið nægileg tækifæri til að vera andlega fjarverandi og það er kannski ekki það sem er efst á óskalistanum. Samt er það þannig að það er ósköp notalegt að eiga skjól þar sem ekki eru gerðar neinar kröfur og hugurinn getur slakað á meðan hann parar saman litríka gotterísmola.

Vondu fréttirnar eru að smáhesturinn er náttúrlega ekki í neinu ástandi til að baka pönnukökur ofan í krakkaormana sína og vini þeirra ef hann er alltaf fastur í Candy Crush öllum stundum. Spurning um að reyna að finna sér gott núvitundarnámskeið til að reyna að samræma vinnu, barnauppeldi, einkalíf og Candy Crush-iðkun þannig að allir aðilar sem eiga í hlut fái að njóta sín og engum líði eins og hann sé útundan.