c

Pistlar:

20. júní 2016 kl. 15:07

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

TREYJAN ER UPPSELD!!!

anna siggaManni líður svolítið eins og eina Íslendingnum á Íslandi þessa dagana. Allir og amma þeirra sleikja sólina þessa stundina í 100% pólýester-treyju, með andlitsmálningu og neglur í fánalitunum, EM strípur í hárinu og auðvitað er enginn edrú. Það þarf bjór til að kæla niður innri og ytri æsing (og mikið af honum). Þessi lýsing hljómar náttúrlega svolítið eins og hluti af þjóðinni sé kominn í forgarð himnaríkis. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Og hvar er smáhesturinn á meðan á þessum ósköpum stendur? Jú, hann stendur vaktina í Hádegismóum 2, drekkur vatn, fer snemma að sofa, kælir sig í sjónum á Álftanesi, segir Palla, sem var líka einn í heiminum, brandara og reynir að komast í gegnum dag 13 í sykurleysi.

Samkvæmt skilgreiningunni um gott líf þá ætti hann að vera búinn að finna sér farveg til að enda þetta á einhvern snyrtilegan hátt. Þess á milli hefur hann reynt að selja sjálfum sér þá hugmynd að allt hér að ofantöldu séu gerviþarfir.

Það sem er frétt er að þetta er alveg ný staða. Smáhesturinn hefur einhvern veginn alveg verið laus við áhuga á fótbolta og hafði til dæmis aldrei horft á fótbolta í sjónvarpinu þegar Ísland spilaði á móti Portúgal.

Þar sem smáhesturinn býr með miklum fótboltaáhugamönnum hefur hann einhvern veginn sogast inn í stemninguna gegn vilja sínum. Hann var til dæmis með mikinn dólg á þriðjudaginn og var staddur í World Class á Seltjarnarnesi þegar leikurinn byrjaði. Þegar smáhesturinn var búinn að gera allar æfingarnar sínar var hann orðinn úrvinda af öllum lóðalyftingunum og þar að auki var hann farinn að finna til svengdar. Hann neyddist því til að fara heim.

Þegar hann keyrði bílinn inn í innkeyrsluna heyrði hann ópin í sínu fólki út á götu. Ekki skánaði ástandið þegar inn var komið. Þar var vægast sagt allt á útopnu. Það eina sem vantaði var andlitsmálning, bláspreyjað hár og bjór.

Einhverra hluta vegna var smáhesturinn allt í einu sestur í sófann og farinn að fá öran hjartslátt af spenningi (alveg óvart). Á einhverjum tímapunkti runnu næstum því niður tár á milli þess sem hann kipptist til í sófanum. Þegar hann horfði yfir stúkuna skildi hann skyndilega hvers vegna allir þarna og amma þeirra hefðu keypt sér landsliðstreyju fyrir leikinn. Eins ógurlega ólukkuleg og þessi 100% pólýester-flík er þá kemur hún ágætlega út í fjarlægð. Í réttri lýsingu og stemningu getur nefnilega allt virkað í sjónvarpi. Sniðið sést ekki á skjánum.

Það að smáhesturinn hafi fattað þetta er pínu gott á hann. Hans stórbrotna hönnunarhjarta tók nefnilega aukakipp af hryllingi þegar treyjan var kynnt til leiks. Náði einhvern veginn að yfirtaka ljótasta lit í heimi, Pantone 448C. Og svo er heldur ekki hægt að segja að það sé gott í þessu – polýester hreinlega framleiðir líkamslykt. Þegar fólk er búið að drekka 10 bjóra í sól og sumaryl magnast líkamslyktin upp. Sumum finnst hún reyndar góð – en það er önnur saga.

Nema hvað. Smáhesturinn getur náttúrlega ekkert farið til Frakklands til að taka þátt í gleðinni því ... haldið ykkur nú. TREYJAN ER UPPSELD! Og það er náttúrlega ekki hægt að láta sjá sig í borgaralegum klæðnaði í forgarði himnaríkis.