Pistlar:

2. júlí 2016 kl. 14:58

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Borðar enginn slátur lengur?

Þegar tískuspekúlantar pældu í sumartískunni var gert ráð fyrir að bomber-jakkar, leðurjakkar með biker-sniði og hvítar gallabuxur yrðu hittarar sumarsins. Bomber-jakkar kölluðust reyndar hyskisjakkar þegar ég var að alast upp í Árbæ City á tíunda áratugnum. Þeir allra óþekkustu gengu náttúrlega ekki í öðru, en í þá daga þóttu jakkarnir passa best við rauðan Winston og landabrúsa (og eflaust einhver sterkari efni). Auk þess fylgdi það jakkanum að nærast helst bara í Skalla í Hraunbæ eða allavega hanga fyrir utan sjoppuna í frístundum. Þeir sem keðjureyktu ekki og helltu sjaldan í sig notuðu jakkann meira spari.

Eigendur hyskisjakka hlustuðu ekki á neitt annað en þungarokk og söfnuðu hári sem var bara þvegið í neyð. CK One kom eins og himnasending inn í líf hyskisjakkaeigendanna því þá gátu þeir nánast hætt að þrífa sig – úðuðu bara CK One og málið var dautt. Hyskisjakkaeigendurnir höfðu þó prinsipp. Þeir hefðu aldrei látið sjá sig dauða í blárri íþróttapeysu.

Það gerði sér enginn grein fyrir því að blá stuttermapeysa úr 100% gerviefni og prentuðum íslenskum fána myndi slá bomber-jakkana út. Miðað við viðbrögðin sem treyjan fékk þegar hún var fyrst kynnt var hún ekki líkleg til vinsælda en svo gerðist kraftaverkið. Þegar svölustu menn landsins sjást ekki í öðru en þessari treyju er náttúrlega ekki við öðru að búast. Bráðum verða allir pabbar og afar landsins líka komnir með ermi, mikið skegg og sítt hár (og hárband).

Það er náttúrlega ekki hægt að horfa á leik nema vera merktur og það í fánalitunum. Mestu spariguggurnar eru búnar að finna út hvernig hægt er að klæða sig við treyjuna án þess að líta út eins og kjáni. Rifnar gallabuxur í ljósu gallaefni virðast vera að trenda mest þarna í Frakklandi núna. Nú, eða rifnar gallastuttbuxur (fyrir þær sem hafa leggina í það). Hvítar buxur þykja líka töff.

Þetta minnir svolítið á þjóðrembuna sem varð til eftir hrun. Samstaða okkar í öllum blankheitunum var þjóðfáninn og lopinn – það er vonandi enginn búinn að gleyma því.

Á þeim tíma var eiginlega alveg sama hvaða vara kom á markað eða hvaða nýjung var í boði – alls staðar var þjóðfáninn innan seilingar eða allavega blár, hvítur og rauður litur. Þjóðfáninn kallaði fram þetta seiga sem í okkur er, við hérna víkingarnir gefumst ekki upp þótt á móti blási og við kunnum svo sannarlega að fagna að víkingasið þegar vel gengur. Á þeim tíma sameinaðist þjóðin líka í hagsýni og sniðugheitum sem var kærkomin tilbreyting frá góðærisstælum gullætanna. Munið þið hvernig slátur bragðast?

Þegar þjóð er jafn lítil og við þarf svo lítið til að eitthvað trendi og þetta getur náttúrlega farið í allar áttir. Nægjusemin hjálpaði okkur eftir hrun og kom okkur aftur á réttan kjöl en ég er svolítið óttaslegin yfir öllum Frakklandsferðunum. Bjórinn í Frakklandi kostar 2.100. Ég veit ekki um neinn sem drekkur bara einn bjór á dag.

Bjarta hliðin er að við virðumst vera hætt að skammast okkar fyrir fjárútlát. Við erum hætt að læðast meðfram veggjum ef við kaupum eitthvað eða látum eitthvað eftir okkur. Ef fólk á peninga er bara gott að þeir skili sér aftur út í hagkerfið. Það hefði bara verið betra að fá þá inn í íslenskt hagkerfi – ekki franskt. martamaria@mbl.is

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira