c

Pistlar:

25. ágúst 2016 kl. 13:23

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Pása frá lífinu

Smáhesturinn tók sér pásu frá lífinu og dvaldi hluta af sumrinu á heimaslóðum Kardashian- og Jenner-systranna í hinni sólríku Kaliforníu. Megnið af tímanum gerði smáhesturinn einungis það sem hann hefur aldrei tíma til að gera í sínu raunverulega lífi – hann hangsaði.

Einu sinni eða tvisvar brá hann undir sig betri fætinum (lesist hellti í sig áfengi sem gerist allt of sjaldan) og endaði í bæði skiptin uppi á sviði að syngja í karókí. Mögulega er það ástæðan fyrir því að tappinn er yfirleitt í flöskunni. Það kæmist náttúrlega aldrei neinn að í Ölveri ef smáhesturinn væri í dagdrykkjunni. Í fyrra skiptið ætlaði smáhesturinn aldrei að komast inn því hann var ekki með skilríki. Dyravörðurinn átti bágt með að trúa því að hann væri eldri en 21 árs (sem er mögulega mesta hrós sem 39 ára gömul móðir í úthvefi getur fengið). Í hitt skiptið var Cuba Gooding Jr. á karókíbarnum. Hann ku vera svaka frægur leikari. Smáhesturinn vissi þó ekkert hver þetta væri, varð bara pirraður að þessi Jr. væri einhverjum forgangi upp á svið. Ég meina veit enginn hver smáhesturinn er þarna í Bandaríkjunum? Á meðan Jr. var að ryðjast framfyrir lenti smáhesturinn á trúnó við transkonu sem hafði ýmsa fjöruna sopið.

Það góða við að dvelja í heimi hinna frægu og ríku er að það er illa hægt að átta sig á því hver sé eitthvað og hver ekki eða þið vitið. Þeir sem eru raunverulega frægir og ríkir klæða sig nefnilega ekki upp á sínum heimaslóðum. Yfir daginn eru allir í stuttermabolum og stuttbuxum, með derhúfur og sólgleraugu. Þar þykir nefnilega í flestum tilfellum mest kúl að falla í hópinn. Þetta á náttúrlega ekki við um alla en langflesta, sem kemur töluvert á óvart.

Ástmaður smáhestsins var fljótur að greina umhverfið í Santa Monica, þar sem þau dvöldu, og eftir nokkra morgungöngutúra sagði hann að bærinn væri sérsniðinn fyrir konur. Konur sem leiddist. Smáhesturinn varð hálfmóðgaður við þessa greiningu því honum leið eins og hann væri kominn með annan fótinn í himnaríki. Ástmaðurinn benti á að börn væru sjaldséð og gerviþarfir væru í forgrunni. Máli sínu til stuðnings benti hann á allar hand- og fótsnyrtistofurnar, rándýru skartgripaverslanir, fyrirtæki sem passa hunda og verslanir með snekkjuföt.

Eftir þessi ummæli ákvað smáhesturinn að viðra ástina og fór með hann inn til West Hollywood þar sem gellurnar halda sig – ekki bara eldri konur sem hafa minna fyrir stafni. Stefnan var tekin á DASH, verslun Kardashian-systranna. Í leiðinni var farið í House of London, sem er ein af uppáhaldsverslunum Kim Kardashian.

Ástmaður smáhestsins kallar ekki allt ömmu sína en honum var brugðið í DASH. Hann benti á að fötin væru alveg á mörkunum að vera bönnuð innan 16 ára. Smáhesturinn hélt fyrirlestur um ríkjandi tískustrauma og að bert á milli væri inn. Smáhesturinn játar samt að það þarf ákveðna rýmisgreind til að komast í flíkurnar í búðinni án þess að holdið velli út á vitlausum stöðum. Eitt er líka víst að þeir sem hanna fötin þarna höfðu þessa 39 ára móður þarna í úthverfinu ekki huga þegar fötin lágu á teikniborðinu. Auk þess er illa hægt að vera í nærklæðum undir kjólunum og samfestingunum sem þarna fást. Konur sem eru að vinna með að halda holdinu inni – ekki láta það spýtast út á vitlausum stöðum hafa náttúrlega lítið erindi í DASH.

En smáhesturinn er ekkert að kvarta. Hann heldur bara áfram að vakúmpakka sér inn í spandex og 80 den sokkabuxur og mun taka á móti haustinu með hefðbundnum hætti. Það besta við að fá pásu frá lífinu er að koma aftur heim, fara í gömlu fötin sín og halda áfram að vera bara nákvæmlega eins og smáhestur er. Loðinn og mjúkur.