c

Pistlar:

24. september 2016 kl. 13:18

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Skál fyrir Angelinu Jolie

Angelina Jolie og Brad Pitt eru að skilja. Hún óskaði eftir skilnaði á mánudaginn og síðan þessar fréttir bárust hefur heimsbyggðin logað. Hjónin hafa verið stöðugt í sviðsljósinu síðan þau hnutu um hvort annað 2004. Þá var hann kvæntur Jennifer Aniston en var til í að fórna því hjónabandi fyrir dökkhærðu þokkadísina með húðflúrin. Síðan þau kynntust hefur barnalánið leikið við þau en saman eiga þau þrjú börn og svo ættleiddu þau þrjú í viðbót. Þessi sex manna hópur hefur vaxið og dafnað og eru börnin nú á aldrinum 8-15 ára.

Hjónin hafa aldrei lifað eðlilegu fjölskyldulífi. Þau hafa þurft að hafa margt starfsfólk til að sjá um heimili og börn á meðan þau hafa slegið í gegn hvort á sínu sviði í Hollywood. Sagt var frá því í vikunni að þau séu með eina barnfóstru á hvert barn. Það þýðir að ef börnin eru öll heima eru tólf manns í húsinu nema náttúrlega að þau séu sjálf heima þá eru 14 heima. Meðan á hjónabandi þeirra stóð bjuggu þau vel og stöðugt fékk lýðurinn fréttir af því að þau hefðu stækkað við sig, keypt fleirir hallir því allt þurfti stöðugt að vera stærra, flottara og betra.

Lífsstíllinn hefur kostað mikla vinnu og mikla peninga. Líklega er þetta hin endalausa leit að hamingjunni. Það er þekkt að fólk kaupi og kaupi varning þegar lífsfylling er ekki næg. Það þarf þó ekki endilega að vera rétt í þessu tilfelli. Hvað veit ég?

Síðustu vikuna hef ég heyrt þeirri spurningu fleygt fram í sífellu: „Hver skilur við Brad Pitt?“ Hann er táknmynd fyrir karlmennsku og einhvers konar fegurð. Þykir alveg löðrandi í kynþokka (hvað sem það þýðir nákvæmlega). Það er erfitt að vita nákvæmlega hvaða mann sjálfur Brad Pitt hefur að geyma því hann er alltaf að leika hlutverk þegar við sjáum hann í bíó eða í sjónvarpinu. Með sminki og réttri lýsingu er hægt að láta alla líta vel út.

Ég er alls ekki að segja að hann sé eitthvað óheppinn með útlitið greyið en hver vill vera í ástarsambandi með manni sem þarf að deyfa sig með kannabisefnum og tekur regluleg bræðisköst?

Fegurð eða útlit býr nefnilega ekki til kemestrí og ef fólk á að haldast saman sama hvað á dynur þá þarf kemestríið að vera til staðar og það í miklu magni. Kemestrí er eitthvað sem verður til á milli tveggja einstaklinga og erfitt er að útskýra. Flestir þrá kemestríið og ef það væri hægt að kaupa það í töfluformi myndu allir hætta að taka inn vítamín og vera bara á þessu einu og sér. Það er nefnilega ekkert sem toppar tilveruna þegar kemestrí nær hámarki. Kemestrí breytir gráum hversdagsleika í ævintýraland, flytur fjöll og virkar eins og stærsta gleðisprauta sem fólk getur fengið.

Ef Angelina Jolie var orðin þreytt á sínum gegnreykta eiginmanni þá tek ég ofan fyrir henni að hafa haft kjark til að taka þetta skref – að losa sig við kauða. Það er nefnilega hægara sagt en gert að segja skilið við aðra mannsekju hvort sem hún heitir Brad Pitt eða Jón Jónsson. Það er flókið að skipta eigum sínum og peningum á sanngjarnan hátt og koma tilfinningum á réttan stað við slíka breytingu. Það má heldur ekki gleyma því að fólk skilur yfirleitt ekki nema það sé komið í öngstræti með lífið. Því segi ég bara til hamingju, Angelina Jolie. Lífið er allt of stutt fyrir leiðinlega menn og eitthvert vesen.