c

Pistlar:

27. október 2017 kl. 10:03

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Óþægilegur október

Vinur minn heldur óþægilegan október hátíðlegan hvert ár. Eins og nafnið gefur til kynna setur hann óþægindin í forgrunn og reynir að vera eins óþægilegur í garð annarra og hann getur. Og það í heilan mánuð. Óþægilegur október er svolítið eins og heimilislíf Láka jarðálfs og foreldra hans nema hann er ekki vondur, bara óþægilegur.

Vinur minn gerir ekki öðrum illt, hann tekur bara einn mánuð í að vera heiðarlegur og óþarflega hreinskilinn. Í október segir hann ýmislegt sem hann myndi annars þegja yfir. Flest fólk er með einhverskonar fílter sem gerir það að verkum að það segir ekki alltaf allt sem það hugsar.

Ef allir segðu það sem þeir hugsuðu myndi lífið án efa verða einfaldara en um leið miklu óþægilegra. Það er nefnilega oft ansi óþægilegt að heyra sannleikann þótt hann sé sagna bestur.

Á dögunum var vinur minn staddur í langri röð á kaffihúsi þegar hann sá að fólk var að sýna á sér farasnið á borði einu þar sem gjörsamlega var slegist um borðin. Hann laumaði sér úr röðinni eftir kaffibollanum og settist við borðið, nokkrum augnablikum áður en fólkið sem sat á borðinu pakkaði vandræðalega saman.

Nokkru síðar þar sem vinur minn sat í makindum einn við fjögurra manna borð kom fólk aðvífandi og óskaði eftir því að þau skiptu við hann um borð. Hann var einn á fjögurra manna borði og eina borðið sem var laust var tveggja manna.

Ef það hefði ekki verið óþægilegur október hefði vinur minn líklega bara staðið upp og býttað við fólkið og verið kurteis. En í stað þess sagðist hann ekki vilja gera það, bauð þeim að setjast hjá sér en hann hefði ekki í hyggju að færa sig. Fólkið þáði ekki boðið og vinur minn lét eins og hann skynjaði ekki óþægilegu stemninguna sem myndaðist. Það er jú óþægilegur október hjá honum.

Mér varð hugsað til vinar míns þegar ég hallaði aftur sætinu um borð í flugvél á dögunum. Miðaldra kona sem sat fyrir aftan mig byrjaði að berja í sætið sem ég hafði hallað aftur. Í smá tíma lét ég eins og ég tæki ekki eftir þessu og reyndi að sofna. Það var alveg lífsins ómögulegt því það var eins og þyrluspaði væri fastur fyrir aftan sætið mitt.

Ég áttaði mig ekki á því hvaða líkamspartar lömdu í sætið, hvort það voru fótleggir eða handleggir. Eftir stutta stund gafst ég upp og dró sætið til baka. Og það var eins og við manninn mælt, höggin hættu samstundis.

Ef það hefði verið óþægilegur október hjá mér þá hefði ég snúið mér við og hellt mér yfir konuna og sagt henni að ég ætti sama rétt og hún og mætti stilla sætið að vild. En af því að ég hef ekki tekið óþægilegan október með trompi þagði ég og reyndi að senda fallegar hugsanir í sætaröðina fyrir aftan mig.

Fyrr í mánuðnum var ég líka beðin um að vera fyrirsæta og sýna á tískusýningu. Ég hoppaði svoleiðis af kæti þangað til ég áttaði mig á því að þessi tískusýning var fyrir konur í yfirstærð eða í númerum 42-50. Ég nota ekki föt í stærð 50 heldur 38.

Ef það hefði verið óþægilegur október hjá mér þá hefði ég náttúrlega ekki þakkað kurteisislega fyrir gott boð heldur sagt konunni að það væri langt síðan ég hef móðgast svona mikið. Svo hefði ég líklega skellt á!