c

Pistlar:

4. júní 2018 kl. 9:22

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Lifi litabyltingin

Það er svo gaman að sjá hvað Íslendingar leggja mikinn metnað í heimili sín og það að gera fallegt í kringum sig. Þróunin í innanhússhönnun er líka áhugaverð og skemmtileg. Við fórum úr því að hafa allt hvítt og svart og stílhreint yfir í meira dót og meiri liti. Og auðvitað miklu meira stuð!

Fyrir hrun voru það hvítar innréttingar og svart granít, hvítmálaðir veggir og helst bara ein stálskál til skrauts með nokkrum sítrónum í ef við vorum mjög flippuð.

Smekkur fólks er auðvitað misjafn en ef það má tala um einhverja breytingu sem orðið hefur inni á íslenskum heimilum þá er það litabyltingin.

LifidILit_preview

Fyrstu skrefin í litabyltingunni voru stigin þegar fólk málaði einn vegg í lit, jafnvel svolítið skærum lit. Svo fór þetta út í að mála einn vegg í mildari lit yfir í að mála fleiri veggi í lit í sama rými. Nú er fólk að ganga mörgum skrefum lengra og farið að heilmála heimili sín í mjúkum og fallegum litum. Það er að segja mála bæði loft og veggi í sömu litum.

Fyrst um sinn voru það gráir tónar sem fólk þorði að heilmála í en núna er þetta að breytast hratt. Fólk er farið að heilmála í bláum, grágrænum og jafnvel laxableikum tónum. Ég sæki minn innblástur mikið til Svíþjóðar en uppáhaldsinnréttingabloggararnir mínir þar eru mikið í því að lakka gamlar innréttingar í ljósgráum möttum tónum og setja laxableikan lit á veggina. Þetta finnst mér vera mjög ferskt og flott og passar vel við skandínavísk húsgögn.

Ég hef að sjálfsögðu tekið þátt í litabyltingunni. Hún hófst reyndar daginn sem ég flutti að heiman og er ég búin að gera svo margar tilraunir að mínir nánustu verða hálflúnir þegar þetta ber á góma. Fólkið mitt skilur bara ekki þessa þörf til að vera endalaust að þvæla húsgögnum til og frá.

Þessa dagana er ég að dunda mér við að mála loftið í húsinu mínu antík-blátt eins og veggina. Og þótt þetta sé ekki alveg tilbúið þá er þetta bara allt annað heimili. Miklu hlýlegra og notalegra án þess að vera of dökkt og yfirþyrmandi. Ég tala af reynslu því sama loft var einu sinni koxgrátt í stíl við veggina og það var ógurlega næs yfir hásumarið en svo kom vetur og þá leið húsmóðurinni á heimilinu svolítið eins og skessunni í hellinum. Nú er ég handviss um að ég sé búin að finna rétta tóninn og taktinn, en ef ekki þá má dunda sér við að mála þetta aftur.

Það er nefnilega varla til betri hugleiðsla en að mála. Á meðan maður strýkur penslinum eða rúllunni yfir svæði, passar sig á því að gusa málningu ekki út um allt er hægt að ná furðulegri sálarró. Og hvað er betra en að vera einn í friði að dunda sér? Og ef manni leiðist má alltaf hlusta á fræðandi Podköst sem opna nýja sýn á tilveruna.

Á dögunum fór ég á námskeið hjá Höllu Báru Gestsdóttur innanhússhönnuði sem er með vefinn Home and Delicius. Halla Bára hefur ákveðnar skoðanir þegar kemur að heimilinu og hún er alls ekki fylgjandi því að það þurfi alltaf að henda öllu út og byggja upp á nýtt heldur vill hún að fólk noti dótið sitt og vinni út frá því. Hún vill líka að fólk leyfi sínum persónulega stíl að njóta sín og sé ekki að kópera næsta mann. Við fórum þrjár vinkonur saman á þetta námskeið og fengum allar svo mikinn innblástur að ég er handviss um að eitthvað stórkostlegt eigi eftir að gerast. Það er bara spurning hvað það verður.

Vinkona mín flutti á dögunum sem er ekki frásögur færandi nema hvað að viðurinn í íbúðinni var mikið til kirsuberjaviður sem var mjög vinsæll fyrir um 15-20 árum. Allt of margir hafa losað sig við þessar innréttingar eða farið í það það lakka þær hvítar eða svartar. Vinkona mín fór aðra leið. Hún fann grágrænan lit sem passaði við kirsuberjaviðinn og heilmálaði íbúðina í þeim lit. Um leið og íbúðin var komin í þennan litatón gjörbreyttist stemningin og kirsuberjaviðurinn hætti að vera yfirþyrmandi heldur fær hann raunverulega að njóta sín og er hlýlegur og fallegur.

Ef þið eruð að flytja eða íhuga breytingar mæli ég með því að þið lesið bókina Lífið í lit sem kom út fyrir síðustu jól og lesið ykkur til um litapallettur og áhrif lita. Litir gera nefnilega svo miklu meira en að vera bara fallegir. Réttir litir geta dregið fram allt annað andrúmsloft og kallað fram vellíðan og gleði.