c

Pistlar:

8. mars 2019 kl. 10:12

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Allt sem þú biður um skaltu fá

Það er um fátt rætt meira þessa dagana en að ungt fólk geti ekki keypt sér þak yfir höfuðið. Þeir sem ná að safna peningum og kaupa íbúð segja að fólk verði bara að leggja meira á sig en þeir sem ekki ná þessu takmarki segja að það sé allt kerfinu að kenna.

Auðvitað er engin ein töfralausn en það þýðir ekki að þræta um það að í dag eru kröfur ungmenna – að líta vel út, skoða heiminn og eiga alltaf allt það nýjasta – að kaffæra sparnað og fjárfestingar. Meðalungmenni sem er í námi getur ekki menntað sig, safnað fyrir íbúð og lifað eins og erlendar raunveruleikastjörnur á námslánum. Og ef námsmaðurinn á framfæri LÍN ákveður að auka tekjurnar með aukavinnu skerðast greiðslurnar.

Jóakimar þessa lands byrja flestir að safna fyrir íbúð snemma á lífsleiðinni en svo eru hinir sem treysta bara á að allt reddist. Fólk sem fer út á leigumarkað á því miður til að festast þar því fæstir sem borga um 250 þúsund á mánuði geta lagt fyrir því það er ekki til meiri peningur.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að ná forskoti og það gerum við með því að safna fyrir útborgun. Til þess að kaupa íbúð á um 30 milljónir þarf fólk að eiga allavega fimm milljónir. Þeir sem hafa safnað fimm milljónum eða meira vita að það tekur venjulegt fólk langan tíma.

Öll höfum við heyrt sögur af fólki sem hefur það markmið að finna sér eldri og ríkari maka til þess eins að fá þak yfir höfuðið. Oft gengur þetta plan upp og fólk lifir hamingjusamt til æviloka en þetta á það til að klikka.

Sá sem á húsnæðið og borgar af því heldur því ef upp úr sambandi slitnar. Þeir sem eiga eitthvað undir sér gæta þess vel að ganga ekki í hjónaband og ef þeir ganga í hjónaband gera þeir kaupmála til að tryggja sinn hag.

Svo hafa heyrst sögur af fólki þar sem eignalausi aðilinn hreinlega leigir af makanum og er jafnvel með þinglýstan leigusamning. Allt er þetta vondur díll og um leið og upp úr ástarsambandi slitnar stendur verr setti aðilinn uppi heimilislaus og þarf að byrja upp á nýtt.

Það er áhugavert að skoða hugmyndir Halldórs Kiljans Laxness um frelsi. Í Atómstöðinni, sem kom út 1948, er þjónustustúlkan og orgelnemandinn Ugla í aðalhlutverki ásamt þingmanninum og heildsalanum Búa Árland. Auðvitað vildi hann unga og fallega kærustu og sagði við hana: „Allt sem þú biður um skaltu fá.“

Það vildi hún ekki því hún vildi vera frjáls. Manneskja sem býr inni á annarri manneskju er aldrei frjáls.