c

Pistlar:

17. apríl 2019 kl. 15:10

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Er sálin eins og geisladiskahrúga í eftirpartíi?

Hver elskar ekki páskana? Eina væntingalausa stórhátíðin þar sem hver og einn getur dansað eftir sínu nefi. Það er engin krafa um að klæða sig á ákveðinn hátt eða haga sér eins og heimsborgari, kaupa gjafir handa fólkinu í kringum sig eða vera búin/n að skipuleggja þrjár veislumáltíðir með forrétt, aðalrétt og desert. Heldur máttu bara vera bolurinn sem þú ert, í friði. Þú getur legið uppi í sófa meðvitundarlaus af súkkulaðivímu og ef ég man rétt þá gilda engar reglur um ráðlagðan dagskammt af páskaeggjaáti.

Þú getur því bara hakkað þau í þig þangað til þú þarft að hlaupa á salernið, en það verður ekki farið nánar út í það hér. Svo geturðu horft á sjónvarpið á daginn eða bara allan sólarhringinn ef þig langar það. Þá þarftu væntanlega ekki að hitta annað fólk frekar en þú vilt, heldur getur verið einn heima í þínum helli og notið þess að vera í friði fyrir öllum fávitunum í kringum þig.

Þar sem páskarnir snúast um upprisu Jesú er ágætt að minna sig á að það eru margar leiðir til guðs og þess vegna getur hver og einn átt sína draumapáska ef vilji er fyrir hendi.

Sumir nota páskana til að taka til í lífi sínu en það er hægt að gera það á ótal marga vegu. Þú getur fengið hreingerningaræði og tekið til í öllum skápum og skúffum, tekið til í fataskápnum þínum og haldið bílskúrssölu. Nú eða látið fötin gossa beint í Rauðakrossgámana. En það nægir oft ekki að þrífa bara upp ryk, fólk þarf reglulega að taka til í höfðinu á sér. Tala nú ekki um ef hausinn er eins og geisladiskahrúga sem liggur á gólfinu eftir gott eftirpartí. Þá er ágætt að taka hvern disk fyrir sig, þurrka af honum, setja í hulstur og svo á sinn stað. Á meðan þú ert að taka til í höfðinu á þér geturðu annaðhvort legið fyrir eða labbað úti í náttúrunni og ef þessi tiltekt á að skila árangri er ágætt að fá frið fyrir öðru fólki.

Það er nefnilega ekki oft sem fólk fær fimm daga frí upp úr þurru sem hægt er að ráðstafa eins og manni sýnist.

Ásdís Ósk Valsdóttir, sem prýðir forsíðu þessa blaðs, fékk til dæmis uppljómun við bóklestur og ákvað að breyta lífi sínu. Hún var orðin þreytt á að vera feit og pirruð eins og hún orðar það sjálf. Hennar eigin gremja gerði það að verkum að það smitaði út í allt í lífi hennar og til þess að verðlauna sig fyrir hvað allir voru leiðinlegir í kringum hana keypti hún sér sælgæti og gúffaði því í sig fyrir framan sjónvarpið. Eftir að hafa tekið til í lífi sínu eru ekki bara 22 kíló fokin heldur líður henni miklu betur. Hún er hætt að vera gröm út í samferðafólk sitt, sem er lykilsigur.

Það að losna við gremjuna er að mínu viti mun meira virði en 22 kg af fitu. Það verður nefnilega svo glatað að vera til þegar allir eru fífl og fávitar í kringum okkur. En eitt er víst að ef við erum komin á þann stað þurfum við að taka til í geisladiskahrúgu eftirpartísins. Það er engin undankomuleið.

Gleðilega páska.