c

Pistlar:

17. maí 2019 kl. 10:18

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Boðhátturinn er dottinn úr móð!

Það að flytja er mikill streituvaldur og það er kannski þess vegna sem fólk reynir að vera ekki endalaust að færa eigur sínar á milli húsa, ef það hefur val. Á dögunum fluttum við maðurinn minn á einn stað eftir að hafa rekið tvö heimili í tæplega fjögur ár eða frá því við hnutum hvort um annað á björtu ágústkvöldi. Á þessum fjórum árum hefur sú hugmynd oft kviknað að við ættum kannski að fara að búa, en alltaf hafa hindranir orðið á vegi okkar þangað til nú í byrjun árs.

Ég veit að grasið vex ekki hraðar þótt það sé togað í það en það er bara svo auðvelt að gleyma því í öllum lífsasanum. Ef fólk vill eiga farsælt líf þarf það að lesa umhverfið og læra að hlusta. Ekki bara æða áfram og ætlast til þess að allt reddist einhvern veginn og gleyma því á sama tíma að taka tillit til þeirra sem standa okkur næst.

Fólk setur nefnilega ekki fjögur börn, sem eiga sitt settið hvert af foreldrum og búa viku og viku á hvorum stað, undir sama þak og ætlast til þess að allt verði bara eins og í rómantískri skáldsögu. Raunveruleikinn er bara ekki þannig. Það þurfa allir að hafa rými og rétt á því að á þá sé hlustað.

Það er mjög auðvelt að djöflast áfram í lífinu og hugsa bara, hvernig er best fyrir mig að allt sé. En ef við gerum það þegar kemur að stjúpbörnum og nýjum maka, þá misheppnast það yfirleitt. Ein manneskja getur nefnilega ekki verið eins og einræðisherra sem talar við sambúðarfólk sitt í boðhætti og skilur svo ekkert í því að það sé vond stemning.

Þegar sú hugmynd kviknaði að fara að búa gerðum við þarfagreiningu á hópnum. Tvær dásamlegar unglingsstúlkur þurfa allt öðruvísi húsnæði en tveir drengir undir 13 ára aldri. Og það skiptir máli að allir fái það sem þeir þrá og helst eitthvað örlítið betra en allir höfðu áður.

Þegar rétta húsnæðið fannst var eitt atriði sem seldi mér þá hugmynd að við ættum að fjárfesta í því en ekki einhverju öðru. Það var að inn af hjónaherberginu er baðherbergi. Ég hugsaði með mér, ef þau þarna fimm sem ég bý með munu gera út af við mig þá get ég alltaf lokað mig af, borið á mig andlitsmaska, litað á mér hárið í friði og fengið pásu frá lífinu.

Enn sem komið er hefur þetta augnablik ekki runnið upp því hingað til hefur bara enginn á heimilinu hagað sér þannig að ég hafi þurft að loka mig af með andlitsmaska.

En það kom þó upp eitt atriði þar sem mér fannst þau smá ósanngjörn. Þannig var mál með vexti að ég stakk upp á því að við myndum bara nota gamalt ljós í minni eigu sem borðstofuljós. Maðurinn minn sló þessa hugmynd strax út af borðinu og sagði að heimilið yrði eins og eitthvert greni ef ljósið yrði hengt upp.

Ég gleymdi því um stund að það að tala við fólk í boðhætti skilar yfirleitt litlum árangri og ákvað að spyrja krakkana okkar hvað þeim fyndist. Ég var alveg viss um að þau myndu segja að þetta væri mjög glæsilegt og því yrðum við fimm á móti einum og ég myndi vinna þessa baráttu. En svo gerðist hið óvænta. Börnunum finnst þetta ljós alveg hryllilegt og því stóð ég ein með ljósið í fanginu – algerlega búin að tapa.

En af því að ég er að reyna að læra eitthvað af lífinu þá bara tók ég þessu án þess að vera með vesen. Og nú er ekkert ljós fyrir ofan borðstofuborðið. Og er það ekki bara allt í lagi? Framundan eru nefnilega bjartar sumarnætur og þá nennir enginn að hanga inni og sperra sig yfir dauðum hlutum. Þegar öllu er á botninn hvolft í lífinu þá skiptir eitt ljós til eða frá engu máli – ekki þannig!