c

Pistlar:

2. október 2020 kl. 12:37

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Hver hendir svona?

Eftir að hafa verið andlega fjarverandi á Facebook í um það bil 12 ár er ég smátt og smátt að missa þolinmæðina fyrir því sem er leiðinlegt á þeim vettvangi. Ég nenni til dæmis ekki að fylgjast með fólki níða skóinn af öðru fólki eða tala niður allt sem gerist í þessu samfélagi. Kórónuveiran hefur líka haft sitt að segja og þegar fólk er að rembast við að draga andann og vera til þá þarf það að velja hverju það veitir athygli. Því eins og andlegir leiðtogar þessa heims benda á þá vex það og dafnar sem við veitum athygli og því betra að beina henni á jákvæðar brautir. Ég hef því reynt að fylgjast bara með því sem er sniðugt og fyndið og blokka rest.120280896_10223207830239462_4719560625595100316_o

Það var einmitt þess vegna sem ég bað um að gerast meðlimur hópsins á Facebook, Hver hendir svona? Þar ráða miklir snillingar ríkjum sem hafa næmt auga fyrir ljótu dóti. Ég er mikill safnari í eðli mínu og til þess að vinna á skorthegðun minni hef ég þurft að ala sjálfa mig upp og endurstilla því annars væri ég líklega daglegur gestur í Góða hirðinum að bjarga dóti sem enginn vill eiga.

Það kom því vel á vondan þegar bróðir minn, sem býr í Bandaríkjunum, sendi mér skilaboð og spurði mig hvað þetta væri eiginlega og sendi link af síðunni, Hver hendir svona? Til þess að gera langa sögu stutta þá var þetta mynd af barnaskóm úr postulíni með nöfnum okkar systkinanna og skírnardögunum okkar. Það sem var fyndið við þetta, fyrir utan náttúrlega hvað þessir skór eru eitthvað mikið barn síns tíma, er að ég hafði aldrei séð þessa skó.

Ég fór yfir ættartréð til að reyna að finna hinn seka en datt enginn í hug. Þess vegna sendi ég póst á systkini mín til að fá úr því skorið hvað væri að frétta af þessum postulínsskóm. Ég kom að sjálfsögðu ekki að tómum kofunum þar.

Þau voru með þetta allt á hreinu. Stjúpmóðir mín (og móðir þeirra) hafði sem sagt farið á postulínsmálunarnámskeið einhvern tímann í fyrndinni og málað þessa skó. Hún málaði reyndar jólasveina á sparistellið í leiðinni sem er mjög vel heppnað og hátíðlegt. En hvers vegna þessir postulínsskór voru ekki á besta stað í stofu veit ég ekki. Þegar hún tók hressilega til á dögunum fengu þessir postulínsskór nýtt lögheimili – í Sorpu.

Til að gera langa sögu stutta er ég búin að hlæja svo mikið að þessum postulínsskóm að ég er íhuga að fara í Góða hirðinn og kaupa þá og stilla þeim öllum upp í hillu! Ég veit reyndar ekki hvað maðurinn minn og börnin okkar myndu gera en eitt er víst að ég fengi örugglega hláturskast í hvert skipti sem ég horfði á skóna. Margir myndu segja að það væri þess virði!