c

Pistlar:

29. janúar 2021 kl. 9:28

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þegar áföllin banka upp á

Það gengur ýmislegt á í lífi fólks og hingað til hef ég ekki hitt neina lifandi manneskju sem hefur siglt lygnan sjó og ekki upplifað sorgir og áföll. Áföll fólks eru misstór og einhvern tímann heyrði ég sérfræðing halda því fram að það skipti ekki höfuðmáli hvert áfallið væri heldur hvernig fólk ynni sig út úr þeim. Það fylgdi líka sögunni að ef fólk tækist ekki á við áföllin jafnóðum myndu afleiðingar þeirra banka upp á síðar á lífsleiðinni. Ég veit ekki hvort það er rétt en ég trúi þó að það sé eitthvað til í því.

Þegar fólk verður fyrir áföllum deyfir líkaminn sig upp til að byrja með. Svo hverfur doðinn og þá þarf fólk sjálft að ákveða hvernig það ætlar að takast á við breyttan veruleika. Hvað fólk gerir er auðvitað misjafnt og eru aðferðirnar líklega jafnmargar og mannkyn heimsins.

Ég fer þó ekki ofan af þeirri skoðun að það sé nauðsynlegt að fá aðstoð fagfólks þegar aðstæður í lífinu breytast. Að fá leiðsögn um hvað séu eðlileg viðbrögð og hvað séu óeðlileg getur verið mjög hjálplegt. Fólk gerir skrýtna hluti þegar það er undir álagi og þarfirnar breytast. Mér er líka sagt að bataferli fólks í sorg hefjist ekki þegar það kemst ekki fram úr rúminu. Á meðan fólk liggur í rúminu og treystir sér ekki á fætur er fólk í kyrrstöðu. Til þess að fólk komist sem fyrst á þann stað að geta lifað eðlilegu lífi þarf rútínan að vera heilbrigð. Fólk þarf að reyna að halda áfram að gera það sem það gerði áður. Á heimili þarf að elda mat, sofa, hreyfa sig, setja í þvottavél, ryksuga og sortera sokka.

Ef það er eitthvað sem ég get mælt með þegar sorgin yfirtekur lífið þá er það að labba. Þetta ráð virkar kannski heimskulegt en ég hef upplifað það á eigin skinni hvað göngutúrar geta hjálpað mikið þegar lífið er eiginlega óbærilegt. Að labba með þeim sem manni þykir vænt um getur lyft andanum og aukið bjartsýni til muna. Svo eru það sérleg lífsgæði að komast í sund og þá er ég ekki að tala um að fólk þurfi að synda kílómetra heldur bara hanga í pottinum, spjalla og fara í gufu. Þeir sem hafa vanið sig á að fara í kalda potta ættu endilega ekki að hætta því enda gerist eitthvað í líkamanum þegar hann hitnar og kólnar til skiptis. Fólk hressist.

Einu sinni fór fólk í ræktina ef það var orðið of þykkt en í dag finnst mér fólk almennt fara í leikfimi til þess að láta sér líða betur. Það var því ansi hressandi þegar líkamsræktarstöðvar voru opnaðar aftur á dögunum og fólk gat farið að fara í sína uppáhaldstíma og eiga stund fyrir sig.

Í öllum öldugangi lífsins með sorgum og sigrum, áföllum og kórónuveiru hefur aldrei verið mikilvægara að hugsa vel um sig. Ef allir hugsuðu um sig eins og þeir væru ungbörn væri líklega minna vesen í heiminum. Það myndu nefnilega fáir gefa ungbarni vodkaskot og franskar.