c

Pistlar:

14. apríl 2016 kl. 21:34

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Grillveislan hefst: Lambarifjur með myntu og hvítlauk, með blómkálstabbouleah, haloumi og appelsínusalati og klassískri raitu

 

Það var sko ástæða til að fanga. Þriðja bókin mín fór í prentun nú í vikunni. Það vildi svo skemmtilega til að útgefendur mínir, Tómas og Anna Margrét, voru stödd í Englandi á bókamessu í London. Þau skelltu sér í lestina og brugðu sér suður til Brighton. Og það var virkilega fallegur dagur. Svona dagur þar sem maður er viss um að það sé komið vor og sumarið er handan hornsins. Dagur þegar maður sér trén laufgast og ilmurinn í loftinu verður eins og nýr og ferskur og það léttir yfir öllu. 

 

Og þegar að sólin skín á vorin hugsa ég bara um eitt - að grilla. Og sem betur fer var ég undirbúinn, ég hafði haft rænu á því að panta fullt af kolum, nýjan kolastartara og bursta frá Weber þannig að ég var til í tuskið. Snædís hafði skellt sér til vina okkar hjá Bramptons Butcher niðri á St. George stræti og sótt lambakótilettur, rétt snyrtar, svo að beinið var skafið og minnti á sleikipinna - lambasleikjó - ekki slæmt það! 

 

 

Grillveislan hefst: Lambarifjur með myntu og hvítlauk, með blómkálstabbouleh, haloumi og appelsínusalati og klassískri raitu

 

Hráefnalisti

 

Fyrir 10

 

Lambið

2,3-2,5 kg lambakótilettur

4 msk jómfrúarolía

6 hvítlauksrif

handfylli mynta

salt og pipar

 

Blómkálstabbouleh

1 blómkálshöfuð

1 rauðlaukur

1 papríka

1 kúrbítur

2 tómatar

150 g fetaostur

handfylli steinselja 

handfylli kórínader

5 msk jómfrúarolía

safi úr heilli sítrónu

1 tsk broddkúmen

1 tsk kóríanderfræ

salt og pipar

 

Haloumi og appelsínusalat

100 g blandað salat

300 g haloumiostur (hefur fengist í Melabúðinni)

2 gulrætur

1 rauðlaukur

2 msk gulur maís

1 appelsína

1/2 rauður chili

jómfrúarolía

salt og pipar

 

Klassísk raita

250 ml grísk jógúrt

1/2 agúrka

handfylli fersk mynta

1 hvítlauksrif

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk síróp

salt og pipar

 

 

 

Það er fátt betra en að geta eldað úti í sólinni. 

 

Allt lítur betur út í sólarljósi! Falleg fersk mynta!

 

Penslið lambarifjurnar með olíu og nuddið maukuðum hvítlauk, myntu, salti og pipar í kjötið.

 

Blússhitið grillið.

 

Svo er bara að skella lambarifjunum á grillið. Það er mikill hiti á grillinu þannig að það þarf ekki langan tíma til að brúna lambið að utan. Ég sneri því reglulega til að það myndi ekki brenna. Þegar það voru komna fallega rendur á kjötið var það sett til hliðar og látið eldast á óbeinum hita í nokkrar mínútur.

 

 

Lambið var svo sett á bretti og skreytt með meira af ferskri myntu og smáræði af smátt skornum rauðum chili.

Raita er ofur einföld jógúrtsósa; Setjið jógúrt í skál og blandið saman við maukuðu hvítlauksrifi, smátt skorinni myntu, saxaðri kjarnhreinsaðri gúrku, sírópi, salti og pipar. Smakkað til!

 

Og þá er það blómkálstabbuleah. Rífið blómkálið í matvinnsluvél þannig að það minni á hrísgrjón og setjið á disk. Skerið allt grænmetið niður í smáa bita og raðið ofan á. Skreytið með kryddjurtum og myljið ostinn yfir. Dreifið olíunni og sítrónusafanum. Saltið og piprið. Ristið kóríanderfræin og broddkúmenið á þurri pönnu, malið í mortéli og dreifið yfir. Blandið öllu lauslega saman. 

 

 

Og loks salatið. Setjið grænu laufin á disk. Rífið gulræturnar með skrælara og leggið ofan á. Sneiðið haloumiostinn og grillið í skotstund þannig að þið fáið fallegar rendur og raðið ofan á. Flysjið appelsínuna og skerið í bita og raðið ofan á ásamt gulu baununum og chilipiparnum. Sáldrið smáræði af jómfrúarolíu yfir. Saltið og pipar 

 

 

Þar sem verið var að fagna drukkum við þennan dásemdarsopa. Baron de Ley Siete Vinas Reserva frá því 2007. Þetta vín er frá Spáni og er frábrugðið að því leyti að það er blanda úr sjö mismunandi þrúgutegundum. Og eftir því sem ég komst næst þá er það blandað bæði ú rauðvíns- og hvítvínsþrúgum. Bragðið verður því dáldið margslungið en á sama tíma ljúffengt með tannínum, dökkum berjum og kryddi og góðu eftirbragði.

Bon appetit!

Grillveislan er að hefjast.