c

Pistlar:

4. desember 2016 kl. 13:15

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Back to the future: Tvennskonar ostafondú með dásamlegu súrdeigsbrauði, kartföflum og súrum gúrkum

Þann níunda desember næstkomandi verða kominn tíu ár frá því að ég byrjaði að blogga. Heil tíu ár! Það er óneitanlega langur tími sama hvernig á það er litið. Og ég gerði mér engan veginn grein fyrir því að þegar ég sló á lyklaborðið í fyrsta skipti á vef moggabloggsins hvaða vegferð ég var að leggja upp í - ekki eina einustu hugmynd. Að það myndi leiða til þess að tíu árum síðar væri ég ennþá að blogga um mat og matargerð. Að ég hefði tekið þátt í að búa til sjónvarpsseríu eða hvað þá að ég hefði skrifað þrjár matreiðslubækur.

Ég er eins og flestir vita sem lesa bloggið mitt, læknir fyrst og fremst. Og ég myndi aldrei vilja gera neitt annað. En það er líka gaman að eiga eitthvert annað líf utan vinnunnar. Það eiga margir áhugamál sem eiga hug þeirra allan. Hvort sem það eru fluguhnýtingar, skíðamennska, skák, lestur, hlaup, sjósnd eða fjallgöngur; eitthvert annað áhugamál sem nær að fanga hugann svo maður gleymi amstri hversdagsins.

Þannig er eldamennskan fyrir mér. Ég var spurður nýverið í viðtali hvað það væri sem ég kynni best við eldamennskuna. Og svarið er einfalt. Það er í raun að sjá hvernig aðrir bregðast við matnum sem ég er að elda.

Ekkert er meira gefandi en að heyra fólk njóta þess sem maður hefur útbúið. Og hvað er betra en að gefa vinum sínum og vandamönnum gott að borða.

Ég veit alltént ekkert betra! 

Myndirnar hér að ofan eru af dóttur minni Ragnhildi Láru, sem varð fjögurra ára núna í ágúst, skömmu eftir að við fluttum heim til Íslands. Myndin til vinstri og sú sem er í miðjunni notaði ég í fyrstu bækurnar mínar, Tíma til að njóta og svo Veisluna endalausu. Myndin til hægri var tekin fyrir nokkrum dögum síðan. Potturinn er 18 L soðpottur sem hún er hægt og bítandi að vaxa upp úr!

Back to the future: Tvennskonar ostafondú með dásamlegu súrdeigsbrauði, kartföflum og súrum gúrkum


Ostafondú voru geysivinsæl fyrir þremur áratugum síðan - jafnvel er lengra síðan - en það þýðir bara að það er löngu tímabært að þau fái endurnýjun lífdaga. Ég meina - ostur er svo góður - og bræddur ostur er bara dásamlega ljúffengur. Og á köldu vetrarkvöldi meikar ostafondú bara sens! 

Ég gerði tvennskonar ostafondú. Annars vegar með Stóra Dímon og svo með Gullosti (sem er uppáhalds osturinn minn).

Hráefnalisti

250 ml hvítvín

1 hvítlauksrif

2 msk hveiti

250 g Ísbúi (eða annar ostur sem bráðnar vel) 

1 gullostur eða stóri dímon

pipar

negull 

hlynsíróp (eða hunang) 

Meðlæti

dásamlegt súrdeigsbrauð frá Brauð&Co

Soðnar kartöflur

Súrar gúrkur

Sulta (eigið val)

 

Það þurfti ekki að biðja hann son minn tvisvar um að hjálpa til í eldhúsinu, en hann er að verða einkar liðtækur! 

 

Þeir gera alveg lygilega góð súrdeigsbrauð í þessu bakaríi! Hvet alla til að prófa! 

 

Margir segja að íslenskir ostar séu ekki á pari við það sem maður fær erlendis. Ég held að það eigi ekki við rök að styðjast. Alltént ekki þegar maður bragðar Stóra Dímon og Gullost. 

 

Stóri Dímon heitir eftir fjalli á Suðurlandi sem er á mörkum Austur Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur Eyjafjalla. Þetta er ljúffengur hvít- og blámygluostur.  

 

Gullostur er eins og ég sagði að ofan, minn uppáhaldsostur. Hann er bragðgóður og bragðmikill hvítmygluostur. Hann er bestur þegar hann hefur fengið að standa við herbergishita í um klukkustund. 

 

Ég notaði Ísbúa sem grunn í sósuna. Fyrirmyndin er sóttt til Danmerkur - Danbo osturinn. Þetta er ostur sem bráðnar auðveldlega. 

 

Ég raspaði ostinn niður og blandaði hveitinu vandlega samanvið. 

 

Setjið hvítvínið í pott, ásamt mörðu hvítlauksrifi. Hitið að suðu og sjóðið upp áfengið. 

Blandið svo Ísbúanum samanvið og hrærið þangað til að hann leysist upp. Í annan pottinn setti ég gullostinn.

 

Það var eins gert með Stóra Dímon. Hann var skorinn í bita og bætt rólega saman við hvítvínið og Ísbúann. 

 

Kartöflurnar voru flysjaðar og soðnar í söltuðu vatni. Gúrkurnar voru skolaðar undir köldu vatni.

 

Ég veit ekki um ykkur en mér finnst bráðinn ostur vera fallegur. 

 

Ljúffengt súrdeigsbrauð og rjúkandi ostur. 

 

Kartafla og rjúkandi ostur. Blómkál og brokkál hefði líka sómað sér afar vel. 

 

Súr gúrkan kom á óvart. Seltan og feitur osturinn passaði vel saman. 

 

Þetta er bara til að kveikja á bragðlaukunum. 

Það er bæði skemmtilegt og ljúffengt að prófa ostafondú. Ég hvet ykkur til að prófa. 

 

Bon appetit!