c

Pistlar:

22. febrúar 2017 kl. 13:18

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Ótrúleg ostaveisla par excellence með höfðingja í fílódeigi og innbökuðum gullosti

Þetta eru ljúfir dagar fullir tilhlökkunar. Við erum hægt og bítandi að hita upp fyrir árlegt skíðafrí í Ölpunum. Við fórum um helgina og keyptum skíðafatnað á Röggu Láru og Villa en þau virðast upptekin af því að vaxa upp úr því sem til er. Sem er nú í besta lagi. Nú eru bara nokkrir dagar þangað til við tökum á loft frá Keflavíkurflugvelli og leggjum leið okkar til uppáhaldsstaðar okkar í Austurrísku Ölpunum - Skihotel Speiereck - þar sem vinir okkar Doddi og Þurí hafa tekið vel á móti okkur síðasta áratuginn. 

 

Síðustu átta ár höfum við farið akandi til Alpanna frá heimili okkar í Svíþjóð. Uppáhaldshluti þess ferðalags er án efa þegar maður keyrir inn í Austurríki á leiðinni frá Munchen. Skömmu eftir að komið er yfir landamærin er tekin skörp beygja til suðurs framhjá Salzburg og þá blasa við tindarnir í Ölpunum allt í kring. Síðasti klukkutíminn frá Salzburg til St. Michael í Lungau er án efa sá hluti ferðarinnar sem ég nýt hvað mest - að aka á hraðbraut meðfram og í gegnum fjöllin sem umlykja alla þessa fallegu smábæi. Ég hef margoft bloggað um ævintýri mín í Ölpunum og þeim innblæstri sem ég hef sótt í þá matarmenningu sem blómstrar þar innan um há fjöll og djúpa dali. 

 

Þó að maturinn í þessari færslu eigi ekki rætur sínar að rekja til Alpanna þá er þetta matur sem myndi sóma sér ákaflega vel í því umhverfi, feitur og ríkulegur, ljúffengur og verðlaunandi. Ostur er þannig - hann hjúpar mann að innan og vermir - miklu meira en annar matur! 

 

Ótrúleg ostaveisla par excellence með höfðingja í fílódeigi og innbökuðum gullosti

 

Og þessi réttur er eins einfaldur og hugsast getur. Í raun var það eina sem var krefjandi var að finna smjördeig á sunnudegi í Reykjavík. Ég þurfti að fara í þrjár verslanir til að finna frosið smjördeig! Hvaða rugl er það eiginlega? 

 

Fyrir tíu manns 

 

700 g höfðingi

1000 g gullostur

1 pk fílódeig

1 pk smjördeig

2 msk dijon sinnep

1 msk sænskt sinnep

100 g serranó skinka

3 msk góð sulta

1 egg

1 tsk vatn

salt

 

 

Ætli fyrsta verkið hafi ekki verið að dást að þessum fallega osti. 

 

 

Það er eitthvað bæði fallegt og unaðslegt við að handleika svona stóra osta.

 

Höfðinginn fékk að fara í fílódeigið. - Hann var smurður með örþunnu lagi af sultu. 

Hann var vafinn inn í sex lög af deigi - en eftir á að hyggja þá hefðu þrjú líklega verið feikinóg.

Auðvitað er hægt að gera sitt eigið smjördeig. Sennilega hefði það verið fljótlegra en að aka á milli þriggja verslana.

Eftir að ég hafði smurt með dijonsinnepinu þá var þess krafist að hafa eitthvað sem væri ögn sætara. Ég notaði því þetta sælkerasinnep sem ég hafði fengið gefins frá henni Svövu fyrir jólin.

 

Ég vafði gulostinn með serranoskinku og lagði hann ofan á sinnepið.

 

 

Gullostarbakan var svo pensluð að utan. 

 

 

Amma Lilja hjálpaði mér að búa til blómið sem skreytti ostatertuna. 

 

 

Við gerðum lítil lauf. 

 

Mamma sá um að gera miðjuna af blóminu.

Svo unnum við saman að því að raða þessu saman.

 

 

 

 

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks ástralska rauðvín sem hefur verið í uppáhaldi hjá móður minni um nokkura ára skeið. Peter Lehmann Futures Shiraz frá því 2013 er ekkert síðra en fyrri árgangar. Það er kraftmikið, kirsuberjadumbrautt vín. Með góðri ávaxtaríkri fyllingu, góðu jafnvægi - fínir eikartónar og jafnvel kryddað á tungunni.

 

 

 

Ég reyndi að útbúa einshverslags blóm á fílódeigið.

 

Stráði salti yfir báðar bökurnar. Smjördeigsbakan var bökuð við 200 gráður í 30 mínútur og fílódeigsbakan við 180 gráður í 20 mínútur.

 

 

 

Kemur gullin og falleg úr úr ofninum.

 

Osturinn vellur út. Borin fram með góðu súrdeigsbrauði, sultu, pestó, balsamic marineruðum perlulauk og góðu salati. 

 

Smjördeigsbakan kom gullfallega út.

 

 

 

Svo er bara að njóta.

Þetta var alger veisla.