c

Pistlar:

25. febrúar 2018 kl. 11:34

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Læknirinn á Ítalíu: Andaragú með heimagerðu bigoli með Raffaele Boscaini - Masi Campofiorin 50 ára

Síðastliðið vor bauðst mér að heimsækja nokkra vínframleiðendur á Ítalíu. Með mér í för var mín íðilfagra eiginkona, Snædís Eva og svo Kristján Kristjánsson, leikstjóri extraordiner, og eiginkona hans Anna Guðný. Við Kristján eigum það sameiginlegt að hafa gifst langt upp fyrir okkur og ég held að séum báðir ákaflega þakklátir fyrir hlutskipti okkar. En þetta var ekki bara nautnaferð - við vorum líka að reyna að skrásetja ferðina eins vel og við gátum. Fararstjóri okkar, Egill Sigurðsson, sá um að ferja okkur á milli staða og stóð sig með einstakri prýði.

Afrakstur þessarar ferðar má nú sjá á Sjónvarpi Símans - Premium. Við gerðum tvo þætti. Fyrri þátturinn er tekinn upp í Valpollicella þar sem við hófum ferðalagið. Við lentum í Veróna - þar sem við ókum sem leið lá í hótel sem er rétt fyrir utan bæinn - Serego Alighieri - sem í raun er kjarni vínekru sem ber sama nafn. Þar gistum við í boði greifynjunnar - Massima de Serego Aligheri sem við hittum svo síðar.

Seinna fengum við svo að njóta samvista við Sandro Boscaini sem er eigandi og forstjóri Masi - vínframleiðenda sem margir þekkja. Hann er einnig formaður samtaka vínræktenda, Federvini, á Ítalíu og er afar virtur víngerðarmaður - oft kallaður herra Amarone. Líklega er það vegna þess að hann ber mesta ábyrgð á því að koma Amarone víninu á kortið á heimsvísu.

Við fengum einnig að hitta son hans, Raffaele Boscaini, sem starfar hjá Masi og elda með honum á Tenuta Canova sem er við Garda vatnið - en þar er einnig safn um vínið þeirra og hvernig það er framleitt.

Læknirinn á Ítalíu: Andaragú með heimagerðu bigoli með Raffaele Boscaini - Masi Campofiorin 50 ára

 

Þó að sósan hafi verið heldur einföld og aðgengileg þá var pastagerðin erfið. Held að fólk verði að horfa á þáttinn og sjá hvernig ég gerði mig eiginlega að fífli - þetta var heldur snúið.

Fyrir fjóra

500 g andakjöt (af bringu eða legg)

1 gulrót

1 sellerístöng

1 lítill gulur laukur

2 hvítlauksrif

2 msk kartöflumjöl

2 msk tómatpúré

2 lárviðarlauf

1 rósmaríngrein

1/2 glas Masi Campofiorin

250 ml grænmetissoð

salt og pipar

Fyrir bigoli pasta

700 g hveiti

6 egg

4 msk jómfrúarolía

50 ml vatn

salt

Svo þarf bigoli vél, kostar bara 420 evrur, sjá hér.

Byrjið á því að útbúa pastað. Hellið hveitinu í stóra skál og brjótið eggin saman við. Með gaffli hrærið þið hveitið saman við eggin. Þegar deigið fer að koma saman bætið þið við vatni, olíu og smá salti.

Hnoðið þangað til að deigið er alveg komið saman. Látið pastað standa í kæli í 30 mínútur. 

Setjið það svo í gegnum pastavél. Veltið upp úr smá hveiti svo að pastað klístrist ekki saman. Sjóðið svo í ríkulega söltuðu vatni.

 

Byrjið á kjötsósunni. Setjið olíu á pönnu og mýkið grænmetið. Saltið og piprið.

Veltið andakjötinu upp úr kartöflumjöli. Þegar grænmetið er gegnumsteikt og mjúkt á pönnunni er öndinni bætt saman við. Brúnið kjötið að utan.

 

Setjið kryddjurtirnar saman við, svo vínið - látið áfengið sjóða upp. Bætið svo tómatpúré saman við, grænmetissoði, saltið og piprið og látið krauma í þrjú korter eða svo. 

Á meðan kássan sýður varlega - er um að gera að fræðast um vín og matargerð.

 

Svo er bara að setjast niður og njóta.

 

 Skál!

Endilega kíkið á Sjónvarp Símans - Premium: Læknirinn á Ítalíu.