c

Pistlar:

26. desember 2018 kl. 13:28

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Jólaísinn að hætti Vilhjálms Bjarka - með súkkulaðikurli og heimagerðri jarðaberjasultu

 

Ég vaknaði upp á aðfangadagsmorgun og áttaði mig á því að ég hafði gleymt að gera ísinn fyrir aðfangadagsmáltíðina. Það er auðvitað engin sérstök katastrófa, það er alltaf hægt að kaupa ís út í búð og redda sér fyrir horn. Og allt stefndi í slíka lausn. Sem eru pínu vonbrigði, ég hef jú lagt dálítinn metnað undanfarin ár, í að prófa mig áfram í ísgerðinni. En eftir smá skraf og ráðagerðir var lagt í að reyna - þó að það stæði á tæpasta vaði að ná þessu. Vilhjálmur Bjarki, sonur minn og miðjubarn, var kominn með uppskrift sem hann langaði að prófa. 

 

Og það vantaði ekki metnaðinn, súkkulaðikurl og svo heimagerð jarðaberjasulta. Það var því lítið annað að gera en að bretta upp ermar. 

 

Jólaísinn að hætti Vilhjálms Bjarka - með súkkulaðikurli og heimagerðri jarbaberjasultu

 

Að gera ís er í raun sáraeinfalt. Bara að fylgja þessum einföldu skrefum. 

 

Fyrir ísinn 

 

4 egg

100 g sykur

1 vanillustöng

500 g rjómi 

 

Fyrir sultuna

 

250 g jarðaber

75 g sykur

safi úr hálfri sítrónu

 

Kurlið:

1 plata af rjómasúkkulaði

 

 

Fyrsta skrefið er að aðskilja eggjarauðurnar frá eggjahvítunum. 

 

Næst er að þeyta eggjarauðurnar saman við sykurinn. 

 

Svo er eggjablandan bragðbætt með vanillufræjum. Næst er að þeyta eggjahvíturnar og blanda varlega saman við þeyttan rjóma. Væri ferlið stöðvað þarna væri maður kominn með dásamlegan vanilluís. En Villi vildi sko halda áfram. 

 

 

 

Næst var að huga að jarðaberjunum. Villi sneiddi þau niður í fjórðunga. 

Svo setti hann berin í pott, ásamt sykri og smá vatnsskvettu og sítrónusafa og sauð upp. Blandan fékk að sjóða niður við lágan hita í 10-15 mínútur, þar til jarðaberin voru orðin flauelsmjúk.

 

Svo var að hakka niður súkkulaðið.

Það vantar sko ekki einbeitingarsvipinn á þennan unga myndarmann. Svo blandaði hann súkkulaðikurlinu saman við vanilluísinn. 

Svo var ísblöndunni komið fyrir í kaldri Kitchenaid ísgerðarskál. Þetta skref er í raun ekki nauðsynlegt en gerir það að verkum að ísinn frosnar í minni kristöllum og áferðin verður mýkri heldur en hann fær þegar hann er settur beint í frystinn.

 

Þegar berin voru orðin mjúk stappaði hann þau niður í fallega og ljúffenga sultu og gæddi sér á jarðaberjum samtímis.

 

 

Svo setti hann helminginn af ísnum í botninn á formi og setti svo sultu nokkuð jafnt yfir og svo annað lag af ís yfir. 

 

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var stoltur! Og hann var líka nokkuð sáttur við verkið. 

 

Og þetta hafðist. Um kvöldið hafði ísinn náð að frjósa og var ótrúlega ljúffengur. 

 

 

Og með heimagerðri súkkulaðisósu. Þetta var sko punkturinn yfir i-ið! 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa