c

Pistlar:

2. júní 2019 kl. 11:30

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Frumsýningarpartí í Café Flóru - Lambið og miðin - Heilgrillað lamb með steiktu grænmeti, hvítlaukssósu, kraftmikilli tómatsósu og salati, borið fram á tortillu fyrir góða gesti

 

Til að fagna sýningu þáttanna Lambið og miðin buðum við framleiðendurnir, undirritaður og Kristján Kristjánsson, til veislu í Grasagarðinum - nánar tiltekið í Café Flóru sem skartar sýnu fegursta þessa daganna. Gróðurinn að springa út og ilmurinn í kaffihúsinu eftir því. Okkur fannst þetta alveg tilvalinn staður til þess að sýna þættina okkar enda leikur náttúran svo stórt hlutverk í þáttunum. 

 

Það var virkilega gaman að halda þessa veislu. Auðvitað ekki einungis vegna þess að uppáhalds trúbadorinn minn og vinur, Svavar Knútur, kom og söng fyrir okkur. Og auðvitað ekki bara vegna þess að svona stórtæk eldamennska er í sérstöku uppáhaldi hjá mér - heldur sérstaklega vegna þess að ég veit fátt skemmtilegra en að gefa fólki að borða. Sérstaklega vinum og vandamönnum. 

 

Ég þarf sennilega ekki að segja mikið um þættina mína - ég hef nú látið valin orð falla á síðunni minni, Facebook, Insta og svo í fjölmiðlum en mér þykir ekkert leiðinlegt að endurtaka það! Við Kristján erum óskaplega stoltir af þessum þáttum. Við lögðum okkur fram við að reyna að gera eins fallega matreiðsluþætti sem við gátum þar sem við værum að beina allri athygli að al-íslensku hráefni með lamb og sjávarfang í aðalhlutverki og auðvitað líka fullt af íslensku grænmeti og kryddjurtum. Við getum sannarlega verið stolt af þessu hráefni. Og það er eiginlega auðvelt að láta mat líta vel út þegar maður eldar hann úti í íslenskri náttúru. En það sakar ekki að maturinn heppnaðist líka einstaklega vel og var allur borðaður upp til agna. 

 

 

En það voru ekki bara Kiddi og ég sem gerðum þessa þætti - okkur við hlið voru tökumennirnir, Árni Þór og Elvar Örn og svo hjálpaði bróðir minn, Kjartan, með að stilla upp, stílisera auk þess að vera vera alltmúligmaður á setti. En við fimm, lögðum land undir fót, og elduðum og tókum upp í fjölbreyttu landslagi og stundum í krefjandi veðráttu. Og svei mér þá, ef það heppnaðist ekki bara. 

 

Ég held alltént að þetta séu fallegustu matreiðsluþættir sem gerðir hafa verið á Íslandi (en ég er auðvitað ekki alveg hlutlaus - þið dæmið það auðvitað) 

 

Frumsýningarpartí í Café Flóru - Lambið og miðin - Heilgrillað lamb með steiktu grænmeti, hvítlaukssósu, kraftmikilli tómatsósu og ljúffengu fersku tómatsalati, borið fram á tortillu fyrir góða gesti

 

Einhver myndi kannski halda að það að heilgrilla lambaskrokk sé vesen - þá er það ekki. Það er í raun frekar auðvelt, eigi maður til þess tæki og tól. 

 

Hráefnalisti fyrir 50

 

Lambið

 

1 lambaskrokkur (15-16 kg) 

stór poki af kryddblöndunni minni - Yfir holt og heiðar

750 ml jómfrúarolía

salt og pipar

 

Fyrir grænmetið

 

50 sveppir

20 papríkur

10 rauðlaukar

handfylli döðlur (án steins)

salt og pipar

olía og smjör til steikingar

 

Fyrir tómatsalat

 

1/2 kassi tómatar skornir í ferninga

4 rauðlaukar

8 hvítlauksrif

5 basil

5 steinseljuplöntur

250 ml jómfrúarolía

safi í 3 sítrónum

salt og pipar

 

Fyrir kraftmikla tómatsósu

 

5 dósir af niðursoðnum tómtötum

2 hvítir laukar

6 hvítlauksrif

4 rauðir chili

2 dósir tómatmauk

4 msk sirachasósa

handfylli basil og steinselja

jómfrúarolía til steikingar

 

Fyrir kalda sósu

 

1,5 kg sýrður rjómi

500 g majónes

2 hvítlaukar

4 msk Yfir holt og heiðar kryddblanda

safi úr fjórum sítrónum

börkur af tveimur sítrónum, smátt skorinn

5 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

Bar einnig fram dásamlegt íslenskt klettasalat og svo fullt af Heiðmerkurblöndu.

 

 

 

Jæja, byrjum á þessu. Fyrst er að nudda lambið vel og rækilega upp úr kryddblöndunni sem ég hafði vætt upp úr jómfrúarolíu. Saltaði og pipraði rækilega. Svo er bara að skipa Tomma Hermannsyni, útgefanda, að henda öðrum áformum út um gluggann og koma og standa við grillið. Hann gengur fyrir bjór og er heldur ódýr á fóðrum. Hann er líka reynslumikill skrokkagrillari og hefur grillað skrokka með bræðrum sínum í áratugi.

Á meðan Tommi grillaði skar ég niður allt grænmetið og steikti upp úr olíu á stórri paellu pönnu sem ég hef átt um langt skeið og kemur sér afar vel á fjölmennum mannamótum. Bragðbætti með döðrum og ferskum kryddjurtum. 

 

Berglind Guðmundsdóttir, matarbloggari, mætti fyrst og fékk því það verkefni að standa við paellupönnuna á meðan ég fór í eldhúsið og kláraði næstu skref. Átti því miður ekki mynd af henni við pönnuna. En Berglind stóð sig með eindæmum vel. 

 

 

Þegar í eldhúsið var komið var að undirbúa tómatsósuna. Skar niður lauk, hvítlauk og chili og steikti upp úr olíu. Saltaði og pipraði. Bætti svo niðursoðnum tómtötum, tómatmauki, sirachasósu og fersku kryddi saman við. Lét þetta krauma um stund og sjóða niður aðeins og þétta sig.

Svo skar ég niður fullt af dásamlega sætum kirsuberjatómötum og blandaði saman við rauðlauk, jómfrúarolíu og meira af kryddjurtum. Saltaði vel og pipraði.

Svo fóru gestirnir að týnast inn. Svavar Knútur kom og tók lagið en hann á bróðurpartinn af tónlistinni í þáttunum okkar. Snædís kom í tæka tíð og hjálpaði mér í eldhúsinu. Það borgar sig að vera vel giftur.

Vinir mínir, Bryndís Pétursdóttir, Sverrir Jan Norðfjörð, Trausti Óskarsson og sonur hans Elí og Snædís veltu vöngum um hvenær maturinn yrði borinn fram.

Svavar vætti kverkarnar með Kristal ásamt Magnúsi Hjaltalín sem var á vaktinni í Klíníkinni.

Sigríður Valtýsdóttir yfirlæknirinn minn, Svanhildur Sigurjónsdóttir, Anna Guðný, Sævar og Anna Karen og Valdís hlustuðu á mig halda smá tölu.

Svavar Knútur var allt í öllu og opnaði dyrnar fyrir dóttur minni, Valdísi Eik, syninum Vilhjálmi Bjarka og Sindra.

Það þurfti að sjálfsögðu að væta kverkarnar. Við buðum upp á Bola, Kristal, Barone Montalto hvítvín og Rosemount rauðvín. Ekki slæmt það!

Svavar Knútur gladdi okkur öll með dásamlegum söng. 

Svo mátti segja "gjörðu svo vel". Villi Bjarki var ekki lengi að næla sér í vefju og gos. 

Það er ekki hægt að segja annað en að stemmingin á Café Flóru sé einstök. Aðeins tvö börn duttu ofan í tjörnina!

 

Ég gat ekki betur séð en að gestirnir tækju vel til matar síns - enda orðnir svangir á biðinni. 

 

Gerður Gröndal, Heimir, Helena Gunnarsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir virtust vera spennt fyrir matnum.  

 

Það var ekki annað hægt en að skála fyrir þessu dásamlega fólki og þakka því fyrir að vera með mér á þessum frábæra degi.

Takk fyrir mig!