c

Pistlar:

19. júlí 2020 kl. 17:33

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki

 

 

"Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið" - Loksins er komið að því! Langþráð sumarleyfi hefst eftir nokkuð annasaman vetur. Ég held að ég hafi aldrei þurft á fríi að halda eins og nákvæmlega núna. Og mikið hlakka ég til. Ætla að nota leyfið til að leika við fjölskylduna mína, ditta að garðinum og eins og margir aðrir - ferðast um fallega landið okkar.  

 

Þessa uppskrift gerði ég í gærkvöldi, tja, ef uppskrift má kalla. Það verður ekki öllu einfaldari eldamennska en þetta. Grilla kjöt, baka kartöflur, bræða ost! Þetta er eiginlega öll uppskriftin, svona næstum. 

 

En aðalástæðan fyrir þessu bloggi er eiginlega þessi sósa - hún er ljúffengur einfaldleikinn uppmálaður. 

 

Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki

 

Þegar eldamennskan er svona einföld, skipta hráefnin ennþá meira máli. 

 

Fyrir 8

 

1,2 kg nautasteikur - ég var með þunnt skorna sirloin

1,5 gullostur

8 bökunarkartöflur

góð jómfrúarolía

salt og pipar

graslaukur til skreytingar

 

Sósa fyrir bökuðu kartöflurnar

 

2 msk grísk jógúrt

2 msk sýrður rjómi

2 tsk hlynsíróp

1 hvítlaukrif

handfylli graslaukur

salt og pipar

 

Salat ala Villi

 

Fullt af grænum laufum

haloumi ostur

íslenskir tómatar

rauð papríka

góð jómfrúarolía

salt og pipar

 

 

Ætli það að hræra saman í þessa sósu myndi ekki geta kallast eldamennska?

Setja jógúrt og 18% sýrðan rjóma í skál og hræra saman með hökkuðu hvítlauksrifi, graslauk, sírópi og salti og pipar. Láta standa í 30 mínútur eða svo. 

 

 

Ég hvet ykkur til að prófa þetta. Það má líka alveg bæta við smá rjóma til að auka við magnið án þess að það komi niður á bragðinu að neinu ráði. 

Takið ostinn úr pakkningunum. Setjið í pott eða á litla pönnu.

Bakið við 180 gráðu hita. 

 

Hrærið. 

Ég notaði góða jómfrúarolíu á kjötið. Örlitla áður en var grillað og aðeins á eftir líka. 

 

 

Salt og pipar. Grillað á blússheitu grilli þangað til að viðeigandi kjarnhita var náð. 

 

Skreytt með smá graslauk.

 

Kartöflurnar voru bakaðar í 180 gráðum heitum ofni á beði af salti í rúmlega klukkustund. Bornar fram með sýrðrjómasósunni. 

Vilhjálmur sá um salatið. Græn lauf, steiktur haloumi, næfurþunnir tómatar og papríkusneiðar. Góð jómfrúarolía og skvetta af rauðvínsediki. Salt og pipar.

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Masi Corbec er framleitt í Argentínu. Þetta vín er gert úr blöndu af corvína þrúgum sem eru upprunalega frá Norður Ítalíu - en eru núnar ræktaðar í Argentínu og Malbec sem er ráðandi í þarlenskri framleiðsli. Mér finnst þetta vín einstaklega ljúffengt. Ég tel mig líka aðeins ábyrgan fyrir því að þetta vín er flutt inn til Íslands en ég smakkaði það fyrst þegar ég var í heimsókn hjá framleiðandanum í Veróna og óskaði sérstaklega eftir því að það væri í boði á Íslandi. Þetta vín er dökkrúbinrautt í glasi. Ljúfir tónar af ávexti, smá súkkulaði, vanillu og svo eru eikartónar og á tungu. Vínið hefur góða fyllingu og er þægilega mjúkt og með löngu eftirbragði. 

Einstaklega ljúffeng og auðveld máltíð.

Bon appetit!

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa