c

Pistlar:

25. september 2020 kl. 19:35

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Ljúffeng Västerbottenbaka með reyktum laxi og karmelliseruðum rauðlauk ásamt hlaðborði af góðgæti

Þessi færsla er í samstarfi við sænska félagið. Þau báðu mig um að búa til uppskrift af Västerbottenböku sem er ómissandi réttur á veisluborði þegar Kräftskiva er haldin. 
 

----


Sænska fé­lagið á Íslandi efn­ir til sinn­ar ár­legu humar­veislu í dag en fé­lagið fagn­ar 65 ára af­mæli í ár. Humar­inn sem notaður er, geng­ur oft­ast und­ir nafn­inu vatnakrabbi (á sænsku: kräfta) og er lít­ill og rauður að lit og minn­ir um margt á humar­inn frá Kan­ada, en þó um­tals­vert minni. 

Þessi krabbi lif­ir í stöðuvötn­um og ám víða um heim og er unnt er að veiða hann í stöðuvötn­um í Svíþjóð. Hann er gjarn­an soðinn í söltu vatni með dilli og þykir einkar bragðgóður. Kräftski­va, sem er sænska nafnið á þess­ari humar­veislu, er hefð sem má finna heim­ild­ir um allt frá sextándu öld. Þar má nefna sænska kon­ung­inn Karl Erik XIV (1560-1568), sem ræktaði vatnakrabba í varn­ars­íkj­um sín­um. Slík síki voru al­geng um­hverf­is sænsk­ar kon­ungs­hall­ir. Vatnakrabb­inn varð mjög vin­sæll í Svíþjóð, svo mjög að hann var ná­lægt út­rým­ingu, en til að stöðva út­rým­ingu hans þurfti að setja regl­ur sem bönnuðu veiði nema í ág­úst. Úr varð að ár­legar krabba­veisl­ur voru ávallt haldn­ar á haust­in og eru það enn þann dag í dag.

Sag­an seg­ir, að í stærri borg­um, hafi borð í þess­um veisl­um verið skreytt með lit­rík­um ljós­um og pappa­disk­um. Með vatnakrabb­an­um var drukkið óhemju mikið af „nubbe“ (brenni­vínssnafs). Við þjóðar­at­kvæðagreiðsluna árið 1922 þar sem kosið var um áfengsi­bann varð vatnakrabb­inn tákn um all­ar nei­kvæðu hliðar­inn­ar á mik­illi áfeng­isneyslu. Rit­höf­und­ur­inn og mynd­list­armaður­inn Al­bert Engström hannaði mynd á serví­ettu með text­an­um: „Vatnakrabb­inn krefst þess­ara drykkja!“

Frá og með 1994 mátti borða vatnakrabb­ann allt árið um kring og hef­ur sænska fé­lagið á Íslandi haldið ár­lega veislu, kräftski­va, á liðnum árum. Þrátt fyr­ir að Covid-19 hafi sett strik í reikn­ing­inn var ákveðið að halda í hefðirn­ar og hugsa í lausn­um. Ákveðið var að búa til „veislupakka“ sem sam­an­stend­ur af 1 kg af vatnakrabba, sænsku hrökk­brauði (knäckebröd), Vä­ster­bottenosti, ljúf­fengri upp­skrift og söngva­hefti. 

Vä­ster­bottenost­urinn er jafn mik­il­væg­ur og sjálf­ur vatnakrabb­inn. Kannski var það áfeng­is­magnið og að vatnakrabb­inn sjálf­ur er ekki sér­stak­lega mat­ar­mik­ill að hús­mæðurn­ar tóku upp á því að bjóða upp á osta­böku áður en veisl­an hófst, en þessi osta­baka er ávallt for­rétt­ur í krabba­veisl­unum.

Lækn­ir­inn í Eld­hús­inu hef­ur gert sér­staka upp­skrift af osta­bök­unni handa sænska fé­lag­inu að þessu sinni. Ragn­ar Freyr Ingvars­son er mik­ill Svía­vin­ur, er sænsk­ur rík­is­borg­ari, og bjó hann sjálf­ur úti í Svíþjóð í fjölda­mörg ár þegar hann var í sér­námi í Lundi. Fé­lagið hef­ur kynnst hon­um gegn­um fyrr­ver­andi sendi­herra Svía á Íslandi, Håk­an Ju­holt. Sænska fé­lagið hafði sam­band við Ragn­ar og bað hann um að gera upp­skrift fyr­ir fé­lagið og brást hann vel við og út­bjó góm­sæta upp­skrift af böku með Vä­ster­bottenosti, reykt­um lax og kara­melliseruðum rauðlauk. 

Upp­skrift­in verður að sjálf­sögðu gef­in út og send viðtak­enda með veislupakk­an­um. 

Vä­ster­bottenost­ur, sem er einkar bragðmik­ill, er nýj­ung á Íslandi en má meðal ann­ars finna í Mela­búðinni, Bón­us og Hag­kaup.
 
Ljúffeng Västerbottenbaka með reyktum laxi og karmelliseruðum rauðlauk
 
Hráefnalisti
 

Deig:
350 ml hveiti
150 g smjör við stofu­hita
1 egg salt

Fyll­ing:
3 egg
350 ml rjómi
1 1/​2 rauðlauk­ur
150 g reykt­ur lax
50 g smjör
350 g Vä­ster­bottenostur

Byrjaðu fyrst á því að búa til deigið með því að blanda saman hveiti, salti og smjöri. Auðveld­ast er að nota mat­vinnslu­vél en auðvitað má líka hnoða með sleif eða hönd­un­um. Endaðu með því að bæta egg­inu við og hrærðu hratt sam­an í slétt og gljá­andi deig.

Svo er að fletja deigið í böku­form (paj­form) og láta það bíða í um það bil 30 mín­út­ur í ís­skáp.

Þá er deigið bakað fyr­ir fram í 10-15 mín­út­ur í 200 gráðu heit­um ofni.

 
Næst er að hakka ostinn í grófa bita. 

 
Næstu skref: Þeyttu egg og rjóma sam­an svo til verði slétt blanda og bættu síðan við gróf­um rifn­um ost­in­um. Skerðu lauk­inn í sneiðar og steiktu hann við væg­an hita þar til hann hef­ur kara­mell­ast, í um það bil 15-20 mín­út­ur.

Skerðu reykta lax­inn í bita og kryddaðu með pip­ar og salti eft­ir smekk.

Leggðu helm­ing­inn af lax­in­um og laukn­um í böku­skel­ina og helltu síðan helm­ingn­um af osta- og rjóma­blönd­unni yfir.

 
Bættu þar næst rest­inni af lax­in­um og laukn­um saman við og endaðu á því að hella af­gang­in­um af osta- og rjóma­blönd­unni í skel­ina.

 
Bakaðu í miðjum ofni, um það bil 25-30 mín­út­ur.

Bak­an er til­bú­in þegar hún hef­ur fengið fal­leg­an lit og eld­húsið ilm­ar af dá­sam­lega bráðnum Vä­ster­botten osti.

 
Leyfðu henni svo að taka sig inn í ísskáp í sólarhring áður en hún er borin fram. 

 
Næst er að skera niður í fallega sneiðar. 
 
 
Þetta bar ég fram með hlaðborði af öðru góðgæti, ostum og skinkum og svo heimagerðri rifs- og bláberjasultu. 


Bar einnig fram þessar ljúffengu innbökuðu kæfur frá Kjötbúðinni - bæði hreindýralifrarkæfu og gæsakæfu. 
 
Þetta var algert sælgæti. 
 
Mikið er gott að fá sér gott í gogginn. 
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa