c

Pistlar:

22. júlí 2019 kl. 0:51

Guðný Ósk Laxdal (royalicelander.blog.is)

Afmælismyndir Georgs prins

Prins Georg á afmæli í dag, en sem elsta barn Vilhjálms og Katrínar, hertogahjónanna af Cambridge, er hann þriðji í erfðaröðinni að bresku krúnunni.

Prins Georg er í dag 6 ára, og eins og konunglegar hefðir segja til um voru opinberar myndir af honum gefnar út í tilefni dagsins. Í ár voru gefnar út þrjár myndir af prinsinum en allar myndirnar voru teknar af móður hans, Katrínu og er því frekar persónulegar. Georg prins hefur virst feiminn við opinber tilefni undanfarin ár og er gaman að fá myndir af honum þar sem hann er augljóslega mjög ánægður í sínu umhverfi.

Ein myndin er af prinsinum í fjölskyldufríi og má því áætla að myndin sé mjög nýleg þar sem Cambridge fjölskyldan er þessa daganna að hafa það gott í sumarfríi á einkaeyjunni Mustique í Karabíska hafinu. Þau munu síðan koma aftur til Bretlands í ágúst og verja tíma með fleiri meðlimum konungsfjölskyldunnar í Balmoral, einum af kastala Elísabetar drottningar í Skotlandi.


Hinar tvær myndirnar eru hinsvegar teknar í garði fjölskyldunnar við Kensington-höll og má sjá að prinsinn er byrjaður að missa barnatennurnar. Á myndunum er Georg klæddur í landsliðstreyju fótboltaliðs Englands, og er treyjan einnig merkt Nike. Cambridge krakkarnir sjást sjaldan í merktum klæðnaði eða í þekktum vörumerkjum, og er því nýtt fyrir almenning að sjá prinsinn svona klæddann. Augljóslega er hann samt mikill áhugamaður um fótbolta og gaman er að pæla í því að ungi prinsinn sé á opinberi mynd að sýna sinn stuðning við lið Englands fram yfir önnur landslið innan Bretlands. Einn daginn mun hann verða konungur Bretlands, sem telur England, Wales, Skotland og Norður-Írland, og frekar óvenjulegt að sjá meðlim konungsfjölskyldunnar taka svona afstöðu á opinberan hátt. Auðvelt er þó að benda á að Bretland á ekki fótboltalið og því eðlilegast fyrir prinsinn að velja það lið sem hann er búsettur í, England.


Opinberar myndir konungsfjölskyldunnar eru ennþá vinsælar þó svo að til sé endalaust af myndum af meðlimum hennar, en opinberar myndir eru hugsaðar sem leið til að styrkja samband konungsfjölskyldunnar við almenning. Undanfarin ár hafa myndirnar af Cambridge krökkunum verið teknar af móður þeirra og því persónulegri en ef þær væru teknar af opinberum konunglegum ljósmyndurum. Einnig eru þær í dag fyrst birtar á samfélagsmiðlum og fara því beint til almennings í staðinn fyrir að fara í gegnum fjölmiðla. Hinsvegar eru afmælismyndir, líkt og nýju myndirnar af Georg, vanalega birtar kvöldið fyrir afmælisdaginn til að fjölmiðlar geti notað myndirnar á deginum sjálfum. Skemmtilegt er líka að sjá að allar afmælismyndir Cambridge krakkanna í ár eru teknar úti í náttúrunni, en Lúðvík og Karlotta áttu afmæli í apríl og maí. Eitt af góðgerðarátökum Katrínar í ár er að hvetja fjölskyldur og krakka að vera úti í náttúrunni. Má því segja að myndirnar séu liður í átaki konungsfjölskyldunnar í að vera fyrirmynd bresku þjóðarinnar.

Guðný Ósk Laxdal

Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Meira