c

Pistlar:

18. október 2019 kl. 11:24

Guðný Ósk Laxdal (royalicelander.blog.is)

Formúla sem klikkar ekki fyrir verðandi konung og drottningu

Katrín og Vilhjálmur, hertogahjónin af Cambridge, hafa undanfarna daga verið í konunglegri heimsókn í Pakistan. Pakistan er eitt af þeim löndum sem er hluti af Breska samveldinu og mikilvægt að rækta sambandið milli ríkjanna með konunglegum heimsóknum. Heimsóknin hefur verið frekar óhefðbundin en lítið hefur verið gefið upp um dagskrá hertogahjónanna fyrirfram útaf öryggisástæðum. Einn heimsóknin var í krikketskóla í borginni Lahore og tóku hertogahjónin þar einn leik. Af myndunum að dæma skemmtu hjónin sér konunglega, og er svona heimsókn klassísk fyrir hertogahjónin og klikkar seint. 

Það er skemmtilegt að segja frá því að í næstum hverri konunglegri ferð sem Vilhjálmur og Katrín fara erlendis er einhverskonar íþróttaheimsókn þar sem þau bregða á leik. Þau eru bæði mikið fyrir íþróttir og full af keppnisskapi. Þau njóta sín mikið í íþróttum og í þessum heimsóknum má sjá hvernig formlegheitin í kringum þau verða aðeins minni.

Í raun má segja að íþróttaheimsókn fyrir Vilhjálm og Katrínu sé formúla sem klikkar ekki. Myndirnar eru alltaf skemmtilegar en oft er mikið um góða og skrítna svipi. Það sést að þau eru afslappaðari og eru að skemmta sér. Fólk sér þau sem venjulegt fólk og tengir þar af leiðandi meira við þau. Eins og ég segi, formúla sem klikkar ekki fyrir verðandi konung og drottningu.

Fleiri eftirminnilegar íþróttaheimsóknir eru t.d. hokký heimsókn í Kanada árið 2011. En það var fyrsta konunglega ferðin þeirra eftir að þau giftu sig og urðu hertogahjónin af Cambridge. Árið 2012 heimsóttu þau líka meðal annars Tuvalu og tóku þar nokkur spor með innfæddum. Árið 2014 fóru þau í heimsókn til Nýja Sjálands og spiluðu þar einmitt líka krikket, en þá spilaði hertogaynjan á hælum!


Sama ár heimsóttu þau Frakkland þar sem þau horfðu á ruðningsleik og fyrir leikinn kíktu þau á krakka sem æfa íþróttina og tóku smá þátt.


Árið 2014 fóru þau í stutta heimsókn til Bandaríkjanna og horfðu á körfuboltaleik, en sú heimsókn var líka eftirminnileg en það var þá sem hertogahjónin hittu Beyoncé og Jay-Z. Árið 2016 heimsóttu þau Indland og Bútan, og léku krikket, prófuðu smá fótbolta og í Bútan prófuðu þau einnig bogfimi. Allt tilefni sem hafa verið mjög eftirminnileg og skemmtileg.


Guðný Ósk Laxdal

Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Meira