c

Pistlar:

13. ágúst 2020 kl. 8:52

Sara Pálsdóttir (sarapalsdottir.blog.is)

Hvað er kvíði, hvað veldur honum og hvernig upprætum við hann?

Reynsla mín, bæði persónuleg og í starfi mínu sem dáleiðari og orkuheilari, er sú að rót þess sem plagar okkur er yfirleitt alltaf ein, tvær eða allar af þessum þremur:

  1. Streita
  2. Neikvæð orka sem hefur fests innra með okkur, t.d. neikvæðar tilfinningar eins og kvíði, ótti, hræðsla o.fl. o.fl.
  3. Neikvæð forrit í undirmeðvitundinni okkar, t.d. “ég er ekki nóg, ég þarf að vera þóknanlegur í augum annarra” o.fl. o.fl. 

Oftast samtvinnast þetta allt saman, t.d. er mjög kvíðinn einstaklingur bæði með neikvæðar tilfinningar/orku fasta í líkamanum og neikvæð kvíðatengd forrit í undirmeðvitundinni. Þetta tvennt hefur svo áhrif hvort á annað enda valda kvíðatengd forrit kvíðahugsunum, kvíðahugsanir skapa kvíðatilfinningar, kvíðatilfinningar búa svo aftur til kvíðatengdar hugsanir, o.s.frv. Iðulega skapast svo vítahringur sem erfitt getur reynst að komast út úr. Að vera haldinn langvarandi kvíða skapar svo streituástand innra með okkur. Kvíði er ekkert annað en ótti við að eitthvað slæmt eða hræðilegt muni gerast. Ef við eigum alltaf von á einhverju slæmu skapast streita sem aftur magnar upp kvíðann og getur gert okkur enn veikari. Gríðarlega mikilvægt er að stöðva þennan vítahring og fá lausn frá kvíðanum og streitunni sem honum fylgir, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. 

Ef við tökum dæmi um einstakling sem er haldinn miklum almennum kvíða auk spennu og verkja í öxlum og baki. Mjög oft og nánast alltaf hafa slíkir einstaklingar sem til mín koma a.m.k. tvær, en mjög oft allar þrjár þessar rætur að sínum vanda. 

T.d. hefur einstaklingurinn átt foreldri sem var haldið kvíða. Ómeðvitað sendir foreldrið barni sínu skilaboð um að heimurinn sé hættulegur og að það sé hætta á ferð. Undirmeðvitund barnsins telur sig þurfa að vernda barnið frá “hættunni” og býr í þeim tilgangi til “neikvætt” kvíðaforrit í undirmeðvitund barnsins sem segir barninu að hætta sé á ferð. Að barnið þurfi að vera á varðbergi sífellt. Forrit þetta heldur svo áfram að spila í undirmeðvitund viðkomandi, búa til kvíðatengdar hugsanir og tilfinningar, alla ævi, ef ekkert er að gert.  

Slíkt forrit eitt og sér nægir til að valda einstaklingi kvíða en yfirleitt kemur meira til, þ.e. kvíðatengdar tilfinningar eða orka. Þegar við lendum í aðstæðum sem vekja hjá okkur ótta myndast orka innra með okkur sem er tilfinning. Sú orka starfar á mismunandi tíðni, eftir því hvers konar tilfinningu er um að ræða. Tilfinningin getur líka verið misstór, allt frá því að vera eins og mandarína og upp í stóra melónu. Ef einhverra hluta vegna, við náum ekki að vinna úr tilfinningunni á eðlilegan og heilbrigðan máta, t.d. bælum hana niður, getur hún eða orkan sem býr hana til, fests innra með okkur, t.d. í maganum eða bringunni, og valdið þar usla og einkennum. Neikvæð orka heftir starfsemi og heilbrigt orkuflæði í þeim líkamshlutum sem hún tekur sér bólfestu í. Óútskýrð meltingarvandamál eru klassísk einkenni þess að neikvæð orka sé til staðar í meltingarfærum einstaklings. Neikvæðu tilfinningarnar hafa m.a. þau áhrif að hluti okkar er alltaf að finna fyrir þeim, og þegar við finnum fyrir kvíða hugsum við kvíðatendar hugsanir. Og þegar við hugsum kvíðatengdar hugsanir, finnum við fyrir kvíða. Þannig getur myndast vítahringur krónísks kvíða sem erfitt getur verið að losna úr.

Slíkt kvíðaástand skapar svo streituástand og þetta tvennt saman er eitruð blanda. Einkennin sem skapast geta vegna slíks langvarandi ástands eru af öllum toga. Algengustu einkennin eru síþreyta, neikvæðar hugsanir, lágt sjálfmat, athafnaleysi, þrekleysi, verkir, vöðvaspenna, svefnvandamál, höfuðverkir, útbrot o.fl. o.fl.

Með dáleiðslu og orkuheilun er hægt að finna rót vandans og uppræta hana. Þá eru neikvæðu tilfinningarnar hreinsaðar út úr líkamanum og neikvæðum forritum breytt eða þeim hreinlega eytt, allt eftir því hvað undirmeðvitund hvers og eins leggur til. 

Hægt er að gera þetta sjálfur að hluta til með hugleiðslu. Mæli ég með því að fara á youtube og finna hugleiðslur sem hafa þann tilgang að hreinsa út neikvæða orku. Þá er unnt að endurforrita undirmeðvitundina með endurtekningum, þ.e. breyta neikvæðu forritunum.

Undirmeðvitund okkar er undursamleg, ótrúlega kröftug og vitur. Hún getur losað okkur undan þeim kvillum sem við glímum við, það eina sem þarf er smá tenging, leiðsögn og tækifæri! Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira um hvernig undirmeðvitundin virkar geta gert það hér.

Meiri fróðleik og upplýsingar er hægt að nálgast á facebook síðu undirritaðrar.