c

Pistlar:

19. október 2021 kl. 12:44

Sara Pálsdóttir (sarapalsdottir.blog.is)

Hvernig kem ég í veg fyrir kulnun?

Það er grundvallaratriði fyrir góð lífsgæði, góða líðan og góða heilsu að líða vel í vinnunni og vera ánægður. Við eyðum að meðaltali 200 dögum á ári í vinnunni sem eru u.þ.b. 1.600 klst miðað við 8 klst vinnudag. Í áratugi, mest allt lífið, eftir að við verðum unglingar eða fullorðin. Þannig eyðum við stórum hluta lífsins í vinnunni. Líðan í vinnu hefur síðan mikil áhrif á líf og líðan utan vinnu. Hver hefur ekki upplifað það að streitumikill vinnudagur hafi áhrif á kvöldið, jafnvel alla helgina?

En hvað er það eiginlega sem stýrir líðan okkar á vinnustað? Er það það sama og stýrir líðan okkar utan vinnu eða er það eitthvað annað? 

Svarið er einfalt. Það er það nákvæmlega sama sem stýrir líðan okkar í vinnu og sem stýrir líðan okkar utan vinnu: hvernig við hugsum, eða eigið viðhorf.

Í Biblíunni segir ,,As a man thinks in his heart, so is he“ Proverbs 23:7

Búdda sagði ,,The mind is everything. What you think, you become“.

Mahatma Gandhi sagði ,,A man is but the product of his thoughts, what he thinks, he becomes“

Sumir telja að það séu ytri aðstæður sem stýra líðan okkar, sem stýra heilsu okkar. T.d. að við þurfum hærri laun, betri yfirmann eða betri vinnuaðstæður til að geta liðið vel í vinnu. En sannleikurinn er sá að ytri aðstæður hafa lítið sem ekkert með þetta að gera, heldur það hvernig við sjáum og hugsum um okkar ytri aðstæður.* Hugurinn er allt, það sem við hugsum, erum við og verðum við og okkur líður, eins og við hugsum.

*(Hér er auðvitað ekki átt við aðstæður þar sem ofbeldi, einelti eða þvíumlíkt á sér stað á vinnustað – slíkt þarf alltaf að takast á við með utanaðkomandi aðstoð og í samræmi við lög og verkferla). 

Þú getur verið með tvo einstaklinga í sama starfi, með sömu menntun, sömu laun, sömu vinnuaðstæður, annar fer í kulnun, veikist og fer í leyfi en hinum gengur vel, líður vel og blómstrar í lífi og starfi.  Hvernig má það vera?

Svarið liggur í því hvernig viðkomandi hugsar og hvert viðhorf hans er. M.ö.o. hvað hann velur að fókusa á dag frá degi. Tökum dæmi um starfsmanninn sem fer í kulnun/veikindaleyfi. Á leið til vinnu hugsar hann t.d. svona:

,,Enn einn erfiður vinnudagurinn. Ég sem svaf svo illa í nótt, ég er að drepast úr þreytu. Ohhhh, yfirmaðurinn er svo leiðinlegur, það er svo mikið að gera og ég hef ekkert þrek til að takast á við þetta allt saman. Endalausir fundir, ég get þetta ekki, ég er alveg úrvinda, ég er að bugast“.

Hvernig ætli þessum einstaklingi líði í vinnu? Hann er reiður, dapur, þreyttur, orkulaus, kvíðinn, stressaður o.s.frv. Ef viðkomandi myndi hugsa svona dag eftir dag, jafnvel ár eftir ár, er nánast óhjákvæmilegt að viðkomandi endi í kulnun og/eða veikindum – enda skapar svona viðhorf viðvarandi streituástand sem brýtur niður varnir ónæmiskerfisins.

Tökum dæmi um hamingjusama starfsmanninn, hvað ætli hann sé að hugsa daglega, á leið til vinnu?

,,En dásamlegur dagur! Ég get ekki beðið eftir að mæta í vinnu og takast á við verkefni dagsins. Ég er svo lánsöm/samur að vinna á vinnustað með frábærum vinnufélögum, þar sem ríkir skemmtilegur húmor, samheldni og traust. Ég er ótrúlega þakklát/ur fyrir að geta unnið við það sem ég er menntaður/uð í, og/eða unnið við að hjálpa fólki, unnið þar sem ég get hreyft mig, o.s.frv.“

Hvernig líður þessum einstaklingi í vinnunni? Hann finnur fyrir tilhlökkun, gleði, ánægju, þakklæti, kærleika og jákvæðum krafti – líður vel og er heilbrigður. Honum gengur örugglega líka mjög vel í vinnunni því vellíðan leiðir til velgengni. Þessi starfsmaður er ekki að fara í kulnun né veikindaleyfi.

Við höfum alltaf val, val um það hvað við ætlum að fókusa á, á hverjum degi. Veljum rétt, veljum það sem er heilbrigt, fallegt og lætur okkur líða vel.

Er starfsfólkið þitt í vanlíðan, streitu og/eða neikvæðni? Eða má gera frábæran vinnustað enn betri? Undirrituð býður upp á örnámskeið/fyrirlestra um Vellíðan á vinnustað, nánari upplýsingar má finna hér (eða hafðu samband á sara@lausnir.is):

https://sarapalsdottir.is/namskeid-hopdaleidslur-og-fyrirlestrar/

Undirrituð er dáleiðari, orkuheilari, fyrirlesari og lögmaður.