c

Pistlar:

16. nóvember 2021 kl. 14:41

Sara Pálsdóttir (sarapalsdottir.blog.is)

Óttinn er versti óvinur mannsins

Hann gerir okkur kvíðin. Hann drepur drauma okkar. Heldur okkur niðri. Brýtur niður sjálfstraustið. Lætur okkur afplána lífið í stað þess að njóta þess. Býr til viðvarandi streituástand sem bitnar á heilsu okkar og líðan. Á endanum lætur eitthvað undan. Bugun kemur. Yfirþyrmandi vanlíðan. Magavandamál, verkjavandamál, síþreyta, jafnvel vefjagigt. Höfuðverkir, sýkingar og jafnvel útbrot. Kulnun. Kvíðinn herjar á þig og jafnvel þína nánustu.

Þú ert í stríði við kvíðann og kvíðinn er að vinna. Óttinn stjórnar lífi þínu og líðan þinni. Þú tekur ákvarðanir um líf þitt byggðar á ótta. Ótta við álit annarra, ótta við að verða þér að fífli, ótta við að vera dæmdur og ótta við að mistakast. Þú lifir ekki þínu eigin lífi lengur og öll orkan fer í að eiga við kvíðann. Óttinn sigrar. Þú tapar.

Að eiga við kvíða er að eiga í stríði. Í hverju stríði eru margar orustur. Þú þarft ekki að sigra allar orusturnar til að sigra stríðið, en þú þarft að sigra flestar. Þú þarft að styrkja þig, efla þig og vopnbúast. Stríðið er háð á vígvelli hugans og orkunnar þinnar því það er þar sem kvíðinn ræðst á þig. Þú færð kvíðatengdar hugsanir og finnur kvíðaorkuna taka yfir líkamann þinn. Sviti, hraður hjartsláttur, jafnvel svimi og höfuðverkur. Þú byrjar að óttast að hið allra versta gerist. Kvíðinn er að ráðast á þig.

Þú hefur val. Þú hefur val um að óttast kvíðann, leggjast niður og leyfa kvíðanum lumbra á þér. Í hvert sinn sem það gerist, styrkist og eflist kvíðinn, versnar. Þú lúffar. Eða þú ríst upp, býður kvíðanum birginn, ræðst gegn honum og brýtur hann á bak aftur. Þú fyllir vopnabúrið þitt af vopnum sem virka gegn kvíðanum og lærir að sigra orustur, veist nákvæmlega hvað þú átt að gera þegar kvíðinn ræðst á þig. Þú hættir að óttast kvíðann og eflist við hverja þá orustu sem þú sigrar. Kvíðinn verður sífellt máttlausari eftir því sem þú eflist og styrkist. Síðasta orustan kemur, þú sigrar og stríðið er unnið.

Kvíðinn er farinn og í staðinn kemur friður, kærleikur, hugrekki, gleði og heilbrigði. Þú ert orðin sú manneskja sem þú vilt vera, sem þér var ætlað að vera og lifir því lífi sem þú vilt lifa. Kvíðinn heldur þér ekki lengur niðri, hann getur ekki snert þig, því þú hefur sigrað hann. Þú færð lífsgæði, vellíðan og velgengni sem erfitt er að lýsa með orðum. Þú lætur drauma þína rætast, ert frábær fyrirmynd fyrir börnin þín/ barnabörnin og nýtur lífsins. Ekkert fær þig stöðvað, nú byrjar lífið!

Framangreind saga er sönn saga af því hvernig maður sigrar kvíðann. Hvað ætlar þú að gera þegar kvíðinn ræðst á þig næst?

Næsta námskeið Frelsi frá kvíða er helgina 20-21. nóvember n.k., skráning fer fram hér.

Einnig er að finna online námskeiðið hér.

Frekari fræðsla og aðstoð í baráttunni gegn kvíða er fáanleg hér.