c

Pistlar:

31. janúar 2018 kl. 20:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íbúðamarkaðurinn í sviðsljósinu

Segja má að ástandið á íbúðamarkaðinum sé nú upphaf og endir flestra vangaveltna um íslenskt efnahagslíf næstu misserin. Verðbólga reyndist 2,4% í janúar 2018 og hefur ekki mælst meiri síðan í júlí 2014. Sú verðbólga sem nú er að láta á sér kræla verður helst rakin til verðþróunar íbúða úti á landi en þar hækkar íbúðaverð sem aldrei fyrr. Um leið er ljóst að gríðarlegur húsnæðisskortur er fyrirsjáanlegur á höfuðborgarsvæðinu næstu árin ef skýrsla Íbúðalánasjóðs frá því fyrir skömmu rætist. Það er því ekki nema von að formaður Samtaka iðnaðarins setji fram viðvörunarorð, staðan er grafalvarleg eins og hann hefur sagt. Fyrirsláttur borgarstjórans í fréttum RÚV í kvöld var undarlegur. Að það vanti verktaka og mannskap útskýrir ekki af hverju byggt er í nágranasveitafélögunum af fullum krafti. Borgarstjóri verður að gera betur en þetta.4

Í morgun hélt greiningardeild Arion banka fund þar sem hún birti nýja skýrslu um íbúðamarkaðinn. Í skýrslunni má finna ýmsar upplýsingar sem snúa að þessum mikilvæga markaði, t.d. um eftirspurn, verðþróun, áætlanir um byggingu íbúða og verðspá.
Helstu niðurstöður skýrslu Arion banka eru eftirfarandi:
- Verð hefur hækkað verulega, bæði á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum. Miðborgarálagið hefur lækkað skarpt.
- Hagstæð efnahagsþróun, fólksfjölgun, launahækkanir og lægri vextir hafa stutt við eftirspurnarhliðina og munu gera áfram.
- Framboðshliðin hefur verið sein að bregðast við og útlit fyrir að áfram verði skortur.
- Greiningardeildin gerir ráð fyrir áframhaldandi hækkunum á húsnæðismarkaði en verulega hægi á.
- Gangi spá greiningardeildarinnar eftir mun ákveðin leiðrétting eiga sér stað á húsnæðismarkaði á næstu árum þar sem undirliggjandi þættir munu hækka umfram húsnæðisverð.

Gríðarlegur skortur á íbúðum framundan

Í skýrslu hagdeildar Íbúðalánsjóðs, sem birtist í gær, segir að íbúðum þyrfti að fjölga um samtals 17 þúsund á árunum 2017-2019 til að mæta undirliggjandi þörf og uppsöfnuðum skorti frá árinu 2012. Til samanburðar voru um 1.500 íbúðir byggðar árið 2016. Í skýrslunni segir að þrátt fyrir aukinn kraft í uppbyggingu íbúða um þessar mundir verði að teljast ólíklegt að uppsafnaður skortur frá árinu 2012 hverfi.

Skýrslan afhjúpar að eitt stærsta verkefnið í húsnæðismálum í dag er að tryggja að fjölgun íbúða sé í takt við þörf. Þrátt fyrir aukinn kraft í nýbyggingum á síðustu tveimur árum þyrfti jafnvel að eiga sér stað enn meiri fjölgun íbúða næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf fyrir nýbyggingar. Nú sem áður er mikilvægast að tryggja að uppbygging sé stöðug til að koma í veg fyrir skaðlegar sveiflur á íbúðamarkaði og í byggingariðnaði.

Þarf ríkið að stíga inn?

Hvernig þessu fyrirsjáanlega áfalli á íbúðamarkaði verður mætt er erfitt að segja en ljóst er að ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil en augljóst er að þéttingastefnan dugar ekki til að mæta íbúðaþörf. Hugsanlega verður ríkisvaldið að stíga inní og stuðla að auknu framboði húsnæðis. Þá er ábyrgðaleysi að ýta frá sér bráðabirgðalausnum sem gætu falist í að byggja húsnæði með minni kröfum um stærð og frágang, einhverskonar einingahús eða jafnvel gámahús til skemmri tíma. Við sjáum að í nágarnalöndunum eru slík úrræði. Ríkisvaldið koma að uppbyggingu Breiðholtsins á sínum tíma og gæti unnið út frá líkri nálgun aftur.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.