c

Pistlar:

7. febrúar 2018 kl. 14:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einkavæðing geimsins!

Það var hreint út sagt magnað að fylgjast með Falcon Heavy-geim­flaug SpaceX fyrirtækisins skjótast út í geim í gærkvöldi en henni var skotið á loft kl. 20:45 að íslenskum tíma. Hægt var að fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu og að því loknu höfum við getað fylgst með flauginni mjaka sér út í geiminn í lifandi útsendingu á netinu. Já, svona er heimurinn í dag en geimskotið eitt og sér er gríðarlegur sigur fyrir SpaceX fyrirtækið og ekki síst frumkvöðulinn Elon Musk. Þetta er fyrsta flug Falcon Hea­vy en um til­rauna­skot er að ræða. Ekki er hægt annað en að dáðst að undirbúningnum og kynningarátakinu en Elon Musk, for­stjóri og stofn­andi SpaceX, ákvað að senda eina af Tesla-bif­reiðum sín­um með geim­flaug­inni. Oftast nær eru eld­flaug­ar þyngdar með stál- eða steypukubb­um en Musk þótti það ekki nógu spenn­andi. Því fór bif­reiðin með út í geim með Starman-dúkku við stýrið og undir tónaði Space Oddity lag David Bowie. Hvað er meira viðeigandi?starman

Metnaðarfull áform

Elon Musk stofnaði SpaceX 2002 með það fyrir augum að þróa og smíða eldflaug sem gerði geimferðir ódýrari og en þær ríkisreknu geimflaugar sem við höfðum þekkt fram að þessu. Áður hafði hann gert tilraun til að semja við Rússa um kaup á slíkum flaugum. Eftir viðræður við þá áttaði hann sig á að það væri farsælla að smíða sjálfur flaugarnar. Eftir fyrstu árangursríku geimskotin árið 2016 kynnti Elon Musk hugmyndir fyrirtækisins um flutningskerfi milli reikistjarna, Interplanetary Transport System, sem gæti gert landnám á Mars mögulegt.

Óhætt er að fullyrð að árangur Musk er áfall fyrir geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA. Með geimskotinu í gær þá er allt í einu til valkostur sem gæti þýtt að kaupendur þjónustunnar þurfa ekki að borga nema brot af þeim kostnaði sem áður var. Geimskot SpaceX eru áætluð kosta innan við 100 milljónir Bandaríkjadala á meðan verðskrá NASA er 10 sinnum hærri. Þar með er ljóst að mögulegt er að koma gervihnöttum og geimstöðvum á miklu ódýrari hátt út í geiminn. Því má segja að einkavæðing geimsins sé hafinn. Það er ekki nóg með það heldur má nú fara að skoða af alvöru yfirlýsingar Musk um landnám geimsins og ferðalög til Mars.

Hröð tækniþróun

Árangur SpaceX er í raun ótrúlegur allt frá því félagið varð fyrsta einkafyrirtækið sem sent hefur vökvadrifna eldflaug á braut um jörðu (Falcon 1-flaugin árið 2008), aðeins sex árum eftir stofnun þess. SpaceX var einnig fyrsta einkafyrirtækið sem tekist hefur að senda geimfar á braut um jörðu og endurheimta það (Dragon-geimfarið árið 2010), fyrsta einkafyrirtækið sem sent hefur geimfar til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar (Dragon árið 2012) og fyrsta fyrirtækið sem tekist hefur að lenda og endurnýta eldflaug sem send hefur verið út í geim. Síðan í mars á síðasta ári hefur SpaceX flogið samtals 10 ferðir með farm til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar samkvæmt samningi við NASA. Þeir hjá NASA meiga eiga það að þeir hafa stutt við framtak SpaceX með því að gera samninga við þá. Árið 2016 gerðu þeir samning við SpaceX sem gæti flýtt mjög fyrir Mars-ferð með því að lofa að útvega margvíslegan búnað sem Spacex hefði annars orðið að þróa og smíða frá grunni.

Í dag vinna á sjötta þúsund starfsmenn hjá SpaceX og félagið er metið á ríflega 12 milljarða dal. Líklegt er að árangurinn í gær eigi eftir að hækka markaðsvirði félagsins en í hluthafahópi þess eru félög eins og Google, Fidelity, Draper Fisher Jurvetson, Founders Fund, Valor Equity Partners og Capricorn.spacex

Þegar þróun SpaceX er skoðuð er í raun ótrúlegt hve miklum árangri félagið hefur náð fyrir í raun brot af þeim kostnaði sem NASA hefur varið undanfarna áatugi. SpaceX virðist þegar ráða yfir ótrúlegri tækni og magnað að sjá Falcon-eldflaugarnar snúa við og lenda heilu og höldnu, standandi upp á rönd, tækni sem þeir sýndu fyrst árið 2011. Þetta gerir kleyft að nota flaugarnar aftur og aftur. Ekki gekk þó allt sem skyldi og þriðja flaugin, sem átti að lenda á fjarstýrðum lendingarpalli undan ströndum Flórída, missti sambandið og endaði í sjónum, um 100 metrum frá lendingarpallinum.

En allt þetta ævintýri sýnir getu einstaklinga eins og Musk til að breyta þróun og iðnaði sem við höfum vanist því að láta ríkisvaldið um. Áður hefur verið fjallað um Musk á þessum vettvangi. Eitt af verkefnum hans er Boring-verkefnið sem gæti haft byltingarkenndi áhrif í samgöngum. Í báðum þessum verkefnum stefnir Musk að því að lækka grunnkostnað gríðarlega með nýrri tækni og nýjum verkfræðilegum nálgunum. Ástæða er til að leggja enn frekar við hlustir þegar hann tilkynnir ný verkefni.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.