c

Pistlar:

21. febrúar 2018 kl. 15:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslenskur sjávarútvegur 2017 - nokkrar staðreyndir


Var að glugga í blað sem heitir Sóknarfæri sem barst inn um lúguna hjá mér á föstudaginn, hefur sjálfsagt verið dreift með Morgunblaðinu. Blaðið gefið út af Athygli og er fjármagnað með auglýsingum. Kannski ekki hápunktur blaðamennskunnar en forvitnilegt samt að lesa í gegnum blaðið sem fjallar mikið um tækni og fjárfestingar í sjávarútvegi. Nokkuð sem almennt er ekki mikið í umfjöllun nema í sérritum um sjávarútveg. Í blaðinu er meðal annars viðtal við Víðir Jónsson, skipstjóra á Kleifarbergi RE, sem barst í fréttirnar fyrr í vetur vegna ásakanna um brottkast. Sá ekki betur en að þar væru fréttnæm ummæli.slor

Alla jafna færir Hagstofan okkur áhugaverðar upplýsingar um sjávarútveginn og er hér gripið niður í nokkur atriði sem gætu einkennt síðasta ár. Að sjálfsögðu er hér ekki um að ræða tæmandi úttekt.

Fiskiskipum fækkar: Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 og hafði þeim fækkað um 26 frá árinu áður. Fiskiskip eru flokkuð í þrjá flokka hjá Samgöngustofu, opna báta, togara og vélskip. Vélskip eru öll yfirbyggð skip önnur en skuttogarar, en í þeim flokki eru nokkur skip sem eru stærri en stærstu skuttogararnir.

Vélskipum fækkar en togarar stækka: Vélskip voru alls 735 og samanlögð stærð þeirra um 92.460 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 12 milli ára og stærð flotans minnkaði um 2.046 brúttótonn. Togarar voru alls 44, bættist einn við á milli ára, en nokkur endurnýjun varð í flotanum. Sex nýir togarar voru smíðaðir árið 2017, þar af fjögur systurskip. Heildarstærð togaraflotans var 61.841 brúttótonn í árslok 2017 og hafði aukist um 9.425 tonn frá ársbyrjun. Opnir fiskibátar voru alls 842 og samanlögð stærð þeirra 4.154 brúttótonn. Opnum fiskibátum fækkaði um 15 milli ára og samanlögð stærð þeirra minnkaði um 112 brúttótonn.

70 ný skip í flotann: Á síðustu fimm árum hafa 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann. Átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi og eru þau öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Allir togararnir voru smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn.

24% fiskiskipaflotans með heimahöfn á Vestfjörðum: Í árslok 2017 voru lest fiskiskip með skráða heimahöfn á Vestfjörðum, alls 394 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 290 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,9%. Fæst skip (74) voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi eða 4,6% af heildarfjölda fiskiskipa. Flestir opnir bátar voru á Vestfjörðum (231) og á Vesturlandi (163). Fæstir (22) opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi. Vélskip voru einnig flest (160) á Vestfjörðum en fæst á Höfuðborgarsvæðinu (42). Flestir togarar (11) höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra.
En um útflutning sjávarafurða á síðasta ári höfum við enn sem komið er bara bráðabirgðatölur.

Útflutningur sjávarafurða dregst saman: Frá Íslandi á erlenda markaði fóru sjávarafurðir að verðmæti 197,1 milljarða króna. Samdráttur nam 15,1% miðað við árið 2016, á gengi hvors árs um sig. Þetta hefur verið að þróast á verri veg en útflutningurinn nam 231,1 milljarði króna árið 2016 og 264,7 milljörðum króna árið 2015 en þá nam samdrátturinn 12,4% milli ára.

Hlutfall sjávarafurða í vöruútflutningi dregst saman: Sjávarafurðir voru 38,1% alls vöruútflutnings á síðasta ári og var verðmæti þeirra 15,1% lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á frystum flökum og ferskum fiski. 

Mikil framleiðsluaukning í fiskeldi: Fram­leiðsla í fisk­eldi jókst um 38% á nýliðnu ári, miðað við árið á und­an, og nam 20.776 tonn­um. Mest juk­ust afurðir úr sjókvía­eldi á laxi en hlut­falls­lega mest jókst regn­bogasil­ung­ur úr sjókví­um.

Arnarlax langstærstur: 86% af öll­um laxi sem fram­leidd­ur var hér á landi á síðasta ári kom upp úr kví­un­um hjá einu fyr­ir­tæki. Fram­leidd voru 11.265 tonn af laxi á síðasta ári, þriðjungi meira en árið áður, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Mat­væla­stofn­un. Meg­in­hluti fram­leiðslunn­ar er úr sjókvía­eldi, þar af nærri 10 þúsund tonn frá Arn­ar­laxi.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.