c

Pistlar:

4. mars 2018 kl. 15:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gróður hindrar svifryksmengun

Nú þegar svifrykstímabilið er að taka við í höfuðborginni er vert að rifja upp að gróður getur verið mikilsverð vörn gegn svifryki. Þetta segja rannsóknir sem Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands hefur framkvæmt. Rannsóknir Þrastar sýna að gróður getur virkað eins og sía á svifryksagnir og virkar best gagnvart minnstu ögnunum, sem eðli málsins samkvæmt eru hættulegastar almenningi. Þannig tekur gróður til sín þessar agnir og svo skolast þær af gróðrinum við rigningu og hafa fyrir vikið reynst mun hættuminni en ella. Gróður dregur þannig úr tilflutningi efnisins og virkar eins og veggur. Þetta bendir til þess að mikilsvert sé að setja gróður við umferðagötur til að fanga svifryksagnir.

Eins og lesendur þessara pistla hafa kannski tekið eftir þá hefur oft verið minnst á mikilvægi þess að tengja skógrækt við baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Gróður er skjótvirkasta aðgerðin til þess að draga úr CO2 í andrúmsloftinu. Væri ánægjulegt ef stjórnvöld tækju myndarlega á þessu og myndu auka skógrækt verulega. Áhrif gróðurs á svifryksmengun ætti enn frekar að ýta undir það.

Tré víkja fyrir nýrri byggð

Gróður hefur breytt ásýnd bæja og borga og bætir mannlífið á margan hátt. Fyrir það fyrsta er fólki nauðsynlegt að hafa aðgang að gróðursvæðum til upplyftingar og útivistar. Og eins og hér kom fram þá getur gróður dregið úr svifryksmengun. Þess vegna er það vonbrigði að undanfarin ár hefur dregið úr skógrækt hér í höfuðborginni og þéttingarstefnan er oftar en ekki á kostnað grænna svæða, jafnvel svo að þurft hefur að fella mikið af trjám til að koma fyrir nýrri byggð. Við sjáum til dæmis í Fossvoginum þar sem ætlunin er að fella hluta af skógi til að koma fyrir nýrri íbúðarbyggð.svifryk

Um leið virðist lítið sem ekkert gert til þess að gróðursetja ný tré. Augljóslega er hægt að auka verulega við trjágróður um alla borg og það ætti að vera markmið borgaryfirvalda að bæta úr því. Meðfylgjandi mynd er tekin í Skeifunni en þar er ein gata sem státar af trjám og þó að það sé fátt yndislegt við þá götumynd þá bæta trén mikið úr. Hafa má í huga að náttúrulegur
trjágróður innan þéttbýlis þarf lítið viðhald þar sem hann vex á náttúrulegum svæðum og getur þannig auðveldað að halda umhverfinu hreinu og búsældarlegu.

Styður við sjálfbærni

Þessu til viðbótar má nefna að rannsóknir hafa sýnt að til þess að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á grænum svæðum í Reykjavík sé æskilegt að auka tegundafjölbreytni á graslendissvæðum og varðveita mólendi þar sem það er að finna. Ekki verður séð að þess sé gætt þó vissulega skorti frekari rannsóknir. Sömu rannsóknir benda til þess að þegar land er tekið undir þéttbýli verður mikil röskun á vistkerfinu og áhrif þeirrar röskunar ná oft langt út fyrir mörk þéttbýlisins. Það eru til rannsóknir sem sýna að viðhald og endurheimt náttúrulegra grænna svæða eru eitt af forgangsatriðunum þegar unnið er að sjálfbærni þéttbýlis.

Þetta finnst mér að hafi skort verulega á í Reykjavík að undanförnu þar sem þéttingin hefur gengið úr hófi á sumum svæðum og skilur því miður lítið andrými eftir fyrir gróður og fólk. Að þessu þyrfti að hyggja og stórefla skógrækt á höfuðborgarsvæðinu, það er einfaldlega svo margt sem mælir með því.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.