c

Pistlar:

7. mars 2018 kl. 9:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut er nauðsyn

Það er ein ástæða öðrum fremri þegar kemur að því að rökstyðja lagningu Sundabrautar. Það er almannavá. Eins og ástandið er núna er bara ein leið út úr borginni í austur og norður og það er um Ártúnsbrekkuna. Það er auðvitað ekki viðunandi ef kemur upp hættuástand á höfuðborgarsvæðinu, hvað þá ef leiðin til vesturs myndi loka. Annað sem styður Sundabraut er að hún styttir verulega leiðina vestur á land, upp á Akranes og inn í Grundartangahöfn og auðveldar þannig samgöngur inn og út úr borginni. Um leið styður Sundarnbraut við atvinnuuppbyggingu og myndar stærra og heildstæðara atvinnusvæði. Fyrir Reykjavík sem höfuðborg er mikilsvert að landsmenn eigi greiðan aðgang inn í borgina og að þeim stjórnsýslumiðstöðvum sem hún geymir. Í þriðja lagi þá myndi Sundabraut létta af umferðarálagi í gegnum Mosfellsbæ og á leiðinni til Þingvalla. Í fjórða lagi myndi Sundabraut stytta leiðina niður í bæ úr Grafarvoginum og öðrum hverfum sem kunna að rísa á leið hennar. Sömuleiðis bætir hún tenginguna upp á Kjalarnes.sunda

Um síðustu helgi rifjaði Orri Páll Ormarsson, blaðamaður og íbúi í Kjalarneshreppi, upp umræðu um Sundabraut í ágætri grein í Morgunblaðinu. Þar benti hann á að borgaryfirvöld hefðu talað digurbarkalega um Sundabrautina þegar Kjalarneshreppur sameinaðist Reykjavík fyrir tuttugu árum og þótti Kjalnesingum lítið um efndir. „Á þeim tíma sáu menn fyrir sér að upplagt væri fyrir borgina að nýta hið nýja land við Esjurætur til frekari uppbyggingar borgarsamfélagsins og fasteignaverð myndi í sviphendingu rjúka upp úr öllu valdi,” skrifar Orri.

Ingibjörg Sólrún ætlaði að hefjast framkvæmda í haust!

Orri Páll rifjaði upp að árið 2000 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, um Sundabraut á hverfafundi í Grafarvogi: „…og fljótlega í haust verður tekin ákvörðun um eina lausn og ef allt gengur að óskum ættu framkvæmdir að geta hafist á næsta ári“.

Eins og öllum er ljóst stóðu þær framkvæmdir á sér og áfram var þráttað um málið næstu árin. „Þegar blaðað er í greinasafni Morgunblaðsins kemur til dæmis í ljós að umræðan var lífleg framan af ári 2008. Um haustið hrundi heimurinn hins vegar yfir okkur og Sundabrautin var með því fyrsta sem sópað var út af borðinu. Og núna, áratug síðar, er ekkert sem bendir til þess að hún verði á dagskrá í bráð. Alltént þótti samgönguráðherra, borgarstjóra og fulltrúa Vegagerðarinnar það ekki líklegt á téðum borgarafundi í liðinni viku,” skrifar Orri Páll og virðist búinn að gefast upp á að bíða.

En hugsanlega getur orðið breyting á. Reyndar er ljóst að núverandi meirihluti mun ekki láta verða af þessu. Var staddur á fundi fyrir skömmu þar sem Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, mótmælti Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi sem talaði fyrir ágæti Sundabrautar. Duldist engum að Hjálmar er á móti Sundabraut og nefndi hann til þau rök að með henni myndu skapast umferðartafir á Sæbraut. Kunnuglegur málflutningur; umferðabætur skapa bara nýjar umferðartafir!

Fjármagnað utan samgönguáætlunar

Vega­gerðin og Reykja­vík­ur­borg hafa allt frá ár­inu 1995 lagt mikla vinnu í að rann­saka mögu­lega kosti á legu Sunda­braut­ar. Því miður hafi ekki náðst sam­eig­in­leg niðurstaða um ákveðinn kost. Líklegt er að Sundabraut kosti einhversstaðar á bilinu 20 til 30 milljarðar króna og líklega þarf að fjármagna hana utan samgönguáætlunar. Samgönguráðherra upplýsti á síðasta ári að í til­lögu til þings­álykt­un­ar um sam­göngu­áætlun fyr­ir árin 2015–2026, sem lögð var fyr­ir Alþingi á 145. lög­gjaf­arþingi 2015–2016, var ekki lagt til að veitt verði fé til Sunda­braut­ar. Þess í stað kem­ur fram að „...leitað verði leiða til að fjár­magna Sunda­braut í sam­starfi við einkaaðila“.

Á síðasta ári var einnig upplýst að nokkr­ir fjár­fest­ar hefðu leitað upp­lýs­inga hjá Vega­gerðinni og samgönguráðuneyt­inu um Sunda­braut með það í huga að leggja braut­ina gegn end­ur­greiðslu. At­hug­an­ir þess­ar hafa ekki leitt til frek­ari samn­ingaviðræðna enn sem komið er. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um sem Morg­un­blaðið aflaði sér af þessu tilefni aflað sér er hér um að ræða bæði inn­lenda og er­lenda fjár­festa, meðal annars sjóði. Ljóst er að hægur vandi væri að fjármagna framkvæmdina og ráðast í hana ef pólitískur vilji væri fyrir því. Er það ekki eitthvað sem kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að fá að vita fyrir kosningar?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.