c

Pistlar:

15. mars 2018 kl. 16:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ný sýn á Sundabraut

Flestum Íslendingum er ákveðin framfaratrú ásköpuð, við vitum að það þurfti vélar og tækniframfarir til að gera landið byggilegt og samgöngur voru einn lykilþáttur þess. Þegar byrjað var að brúa stórfljót og ár í kringum aldamótin 1900 fór fyrst að verða grundvöllur byggðar víða um land. Flutningar margfölduðust og hægt var að hefja nýtingu landsins í sinni fjölbreyttustu mynd. Enn þann dag í dag eru samgöngur nauðsynlegar og í raun forsenda byggðar og mannlífs.

Okkur Íslendingum hefur hins vegar ekki tekist að tengja samgöngur almennilega við umbreytingu, þróun og mótun samfélagsins. Ef rétt er staðið að samgönguverkefnum geta þau stutt við framþróun samfélagsins og skapað verðmæti ein og sér. Við sjáum þetta ágætlega með Hvalfjarðargöngunum, sem hafa fært okkur samfélagslegan ávinning langt umfram þær samgöngubætur sem í mannvirkinu felast. Við sjáum líka að Keflavíkurflugvöllur er að breytast í gríðarlega mikilvægt atvinnusvæði, langt umfram það sem nokkur gat ímyndað sér fyrir 10 árum. Því miður horfðu menn ekki nógu langt fram í tímann þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var byggð og nú er hönnun hennar dragbítur á stækkun og þróun vallarins. Athyglisverðar áskoranir bíða okkar og mig langar að beina athyglinni aftur að Sundabraut sem var hér til umræðu fyrir stuttu.

Dæmi frá Suður-Kóreu

En beinum fyrst augum okkar til Suður-Kóreu. Nýlega skrifaði Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM náms Háskólans í Reykjavík, athyglisverða grein í Viðskiptablaðið. Greinin er skrifuð í tilefni ferðalags Helga til Suður-Kóreu í haust en þar sótti hann heim fimmtu alþjóðlegu rannsóknaráðstefnu Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga (IPMA). Í Suður-Kóreu skoðaði Helgi Incheon-brúna sem tengir saman borgina Incheon og Yengjong eyju, þar sem alþjóðaflugvöllur er staðsettur. Brúin er 21 km að lengd, hún var tekin í notkun 2009 og þá hófst strax gríðarleg uppbygging á svæðinu. Mynd af henni fylgir hér með. Incheon

Helgi bendir á að við fyrstu sýn virðist sem Incheon-brúin sé tiltölulega einfalt framkvæmdaverkefni. Við skoðun sést hins vegar að það hefur mjög marga fleti og við undirbúning og framkvæmd var kappkostað að gæta jafnvægis og passa hagsmuni fólksins sem býr í nærsamfélaginu, og huga að því að öllum umhverfissjónarmiðum væri fullnægt. Í kynningu á þessu verkefni hefur það verið borið saman við hina 16 km löngu Eyrarsundsbrú á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Samanburðurinn er áhugaverður að mati Helga. Byggingartíminn var sambærilegur, kostnaðurinn við Incheon-brúna var 50% af kostnaði við Eyrarsundsbrúna, brúartollurinn er 3,5 evrur á Incheon brúnni en 35 evrur á Eyrarsundsbrúnni. Í grein Helga bendir hann á að áætlaður fjárhagslegur samfélagslegur ávinningur af Incheonbrúnni sé margfalt meiri en af Eyrarsundsbrúnni.

Lærdómur fyrir Sundabraut

En hvað getum við lært af þessu hér á landi, spyr Helgi. Jú hugur hans leitar til Sundabrautar sem verið hefur lengi í umræðunni. Helgi segist trúa því að Sundabrautin sé gott verkefni sem gæti haft mikil áhrif á Íslandi, rétt eins og Incheon-brúin hafði í Suður Kóreu. Um það segir Helgi:

„Vissulega er um að ræða stóra og dýra framkvæmd en hvað með öll möguleg jákvæð áhrif Sundabrautar? Hvað með þjóðhagslegan sparnað af styttingu leiða og öll sóknarfærin sem skapast þegar til verður verðmætt byggingarland við brúarsporðinn, álag minnkar af Vesturlandsvegi og ný tækifæri opnast til uppbyggingar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og allt upp á Kjalarnes? Hvernig væri að taka höndum saman og horfa til framtíðar,” segir Helgi og tekur þannig undir hugleiðingar pistlahöfundar frá því fyrir stuttu um Sundabraut. Hér fylgir mynd sem sýnir hvernig Sundabraut gæti til dæmis legið, yfir Álfsnes, Gunnunes, Geldinganes og skapað ný uppbyggingarsvæði.sundabr

Lífeyrissjóðirnir fjármagni Sundabraut

Fjárfestar Incheon-brúarinnar munu fá ásættanlega ávöxtun í gegnum þátttöku í hinni gríðarlegu uppbyggingu á svæðum sem hafa blómstrað eftir að brúin var tekin í notkun. Er þetta ekki lærdómur fyrir okkur?

Líf­eyr­is­sjóðir og ríkið ættu að skoða betur hvernig nýta má fjár­muni líf­eyr­is­sjóða og rekstr­ar­form fram­taks­sjóða til að fjár­festa í innviðum, sagði Þor­kell Sig­ur­laugs­son, stjórn­ar­for­maður Fram­taks­sjóðs Íslands, í nýlegu viðtali við Morgunblaðið og bætti við:

„Ríkið hef­ur ekki burði til þess að fjár­festa nægi­lega í vega- og raf­orku­kerf­inu ásamt öðrum innviðum, sam­hliða því að greiða niður skuld­ir, nema með stór­auk­inni skatt­heimtu, sem er óskyn­sam­legt,“ sagði Þorkell og benti réttilega á Hval­fjarðargöng­in sem vel­heppnaða fjár­fest­ingu líf­eyr­is­sjóða í innviðum. Það er hægt að taka undir með Þorkeli og Helga og skoða alvarlega samstarf á víðum grunni um upp­bygg­ingu Sunda­braut­ar með samfélagsleg markmið að leiðarljósi. Það tókst vel með Hvalfjarðargöng á sínum tíma. Því ekki að reyna aftur?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.