c

Pistlar:

19. mars 2018 kl. 10:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Allir vegir liggja til Rómar

Nútímamaðurinn er alltaf á ferð og flugi. Pistlahöfundur er þar meðtalinn. Er núna staddur í Siena á Ítalíu og er strax byrjaður að hugsa um samgöngur. Ferðalag frá Reykjavík til Siena tók 20 tíma, frá því maður vaknaði á Langholtsveginum og þangað til komið var að Dimora Storica við Via del Giglio í miðbæ Siena. Þetta er svo miðsvæðis að drengurinn sem keyrði okkur á ofsahraða frá Flórens til Siena gat ómögulega fundið neitt út úr öngstrætum miðaldarborgarinnar og endað á því að labba með okkur drjúgan spöl til að koma okkur upp að húsdyrum, með leiðsögn frá gestgjöfunum í gegnum síman. Breytti litlu þó ökumaðurinn segðist vera heimamaður. Það er því áskorun næstu daga að læra á gatnakerfið hér sem hannað var þegar asnar voru helstu samgöngutæki.

Maður er sem vonlegt er dálítið lúinn eftir svona flandur. Má vera að við getum sjálfum okkur um kennt. Eftir flug til Zurich með Icelandair var ákveðið að freista gæfunnar með lest niður til Flórens og með bíl þaðan til Siena. Hugsanlega hefði verið fljótlegra að ferðast til Flórens með tengiflugi en pistlahöfundur hefur alltaf verið pínulítið spenntur fyrir lestarferðum, allt síðan ég ferðaðist frá Kaupmannahöfn til Aþenu í eina tíð og lenti í ýmsum ævintýrum.

Skilvirkni í Sviss

Samgöngumannvirki í Zurich reyndust yfirþyrmandi, flugstöðin skilvirk og glæsileg og rann saman við lestarstöð sem var neðanjarðar. Komumst þannig á aðallestarstöðina áreynslulítið og hófum þaðan ferðina suður um Alpana. Athygli vakti að gríðarlegar framkvæmdir voru við lestarstöðina þar sem verið var að byggja upp nýtt íbúða- og skrifstofuhverfi. Lestarstöðvar taka mikið pláss, rétt eins og Reykjavíkurflugvöllur og þarna var augljóslega verið að reyna að nýta svæði betur. Engin talaði þó um að lestarstöðin eigi að fara þó hún sé vissulega fyrirferðamikil. Líklega var helmingur ferðarinnar suður Alpana í jarðgöngum þannig að hugmyndin um útsýnisferð féll dálítið um sjálfa sig. Gaman þó að sjá fjallavötnin sem birtust öðru hvoru eins og sést á meðfylgjandi mynd tekin út lestargluggann. Landslagið var ótrúlegt á köflum.vatn

Minni skilvirkni í Mílanó

Við þurftum síðan að skipta um lest í Mílanó og þar byrjaði ferðaáætlunin að riðlast. Eftir að hafa orðið að þola nokkra taugaspennu þar sem stöðugt var verið að skipta um brautarpall og við á hlaupum á milli til að ná nú réttu lestinni settumst við loksins upp í lest sem við töldum að væri á leiðinni til Flórens, og auðvitað með Róm sem endastöð. Á Ítalíu liggja allir vegir til Rómar! Þá þá þegar var orðið nokkur seinkun. Öðru hvoru komu tilkynningar á ítölsku um ástæður tafarinnar og ítölsk kona sem sat á móti okkur skellihló í hvert skipti og hristi höfuðið þegar útskýringar komu í kallkerfið. Aðspurð sagði hún augljóst að þeir vissu ekkert hvað þeir væru að gera. Þegar lokatilkynningin kom sprakk hún úr hlátri og sagði að þessi lest væri ekki að fara neitt. Hún benti okkur á að fara yfir í lest við hliðina og að lokum lagði hún af stað eftir tæplega klukkustunda töf. Við höfðum upp úr krafsinu að geta hreiðrað um okkur á fyrsta farrými en öll sætaskipan virtist riðlast við tafirnar. Eða svo töldum við þar til pelsklædd kona ýtti við okkur. Við færðum okkur aftar í lestinni og fengum sæti sem hæfði betur okkar stétt!

Það var því áliðið þegar við komum til Flórens. Í ofsaakstrinum suður til Síena í rigningarsudda þá gat ég ekki annað en dáðst að umferðamannvirkjunum þó þau sæjust ekki mikið í myrkrinu. Þau björguðu því sem bjargað varð! En nú erum við í suðurhluta Toskana og líklega er best að fara að huga að því að versla smá Brunello rauðvín og fylgjast með Ítölum reyna að mynda ríkisstjórn. Það virðist ætla að verða smá töf á því líka.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.