c

Pistlar:

21. mars 2018 kl. 13:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Siena - bíllaus miðaldaborg

Þegar dvalist er í ítölskum bæ eins og Siena hér í Toskana-héraði á Ítalíu er ekki hægt annað en að velta fyrir sér byggðamynstrinu og hvernig það mótar bæjarlífið. Sérstaða Toskana hefur löngum verið staðfest af þeim fjölda ferðamanna sem hingað leggja leið sína. Um leið má segja að Heimsminjaskrá UNESCO hafi varðveit annað hvert hús og þó sérstaklega lagt áherslu á að heildaryfirbragðið sé varðveitt. Eru nú sjö staðir í Toskana sem njóta verndar heimsminjaskrárinnar og ekki ólíklegt að þeim fjölgi enn frekar.siena1

Toskana-héraðið er öllum kunnugt sem hafa áhuga á mat og víni. Fyrir tíma Rómverja bjuggu hér Etrúar sem blönduðust Rómverjum smátt og smátt. Í miðju héraðsins er Flórens, drottning endurreisnarinnar en einnig heimkynni Medici-fjölskyldunnar sem í krafti fjármálaveldis síns stýrði Ítalíu og keypti sér páfa eftir hentugleika. En áhrifa frá Frakklandi og Spáni gæti líka en í kraðaki síðmiðalda var stundum erfitt að sjá hver var í raun við stjórn. Á meðan reyndi venjulegt fólk að lifa af og byggði um leið upp bæi sem við nútímamennirnir elskum að ráfa um.

Bíllaus miðaldaborg!

Siena er í röskri klukkustundar akstursfjarlægð suður af Flórens. Hér búa hátt í 60 þúsund manns í þéttri byggð sem hefur verið að mótast eins lengi og Ísland hefur verið í byggð. Sjálfur gisti ég í 600 gömlu húsi sem hefur verið nútímavætt að innan. Hér er fólki frjálst að gera breytingar innandyra eins og þarf en ytra yfirbragðið látið halda sér. Byggðin var þróuð meðan menn notuðust við hesta, asna og kerrur. Götur eru því þröngar og erfiðar nútíma farartækjum enda var Siena fyrst borga Ítalíu að banna bíla, strax árið 1965. Vitaskuld er talsvert um bíla hér í bænum en almenn umferð er bönnuð. Ef þú þarft að koma töskum á hótelið þitt máttu gera það en svo verður þú að leggja fyrir utan bæinn. Það skiptir kannski ekki miklu þar sem ekki er nema 10 mínútna gangur frá bílastæðunum inn í bæinn. Vespur eru vinsæll ferðamáti en hjól síður. Mikið er um brekkur og má vera að það dragi úr áhuga manna á að hjóla. En flestir eru einfaldlega fótgangandi, þéttleiki byggðarinnar er slíkur að allt er innan seilingar.

Sögulega er Siena útfærð eins og miðaldaborg. Í gegnum aldirnar áttu íbúar hennar í samkeppni við nágranna sína í Flórens og Písa en þessar borgir deila þó ákveðinni grunnhugsun í skipulagi. Siena hefur tekist að varðveita gotneskt útlit sem þróaðist að mestu á milli 12. og 15. aldar. Segja má að þá hafi gullöld Siena ríkt en þegar Svarti dauði birtist 1348 og drap einn þriðju hluta íbúanna voru þeir um 50 þúsund talsins og höfðu aldrei verið fleiri. Á þessu tímabili hafa verk Duccio, Lorenzetti bræðranna og Simone Martini haft mest áhrif á þróun ítalskrar og um leið evrópskrar listar. Siena-búar segja að borgin hafi frá upphafi verið hugsuð sem listaverk sem sem samlagast landslaginu í kring. Svei mér þá ef ekki er hægt að taka undir það og sumstaðar er eins og hann renni út í Toskana-landslagið sem meðal annars er mótað af sýprus-trjám (e.cypress).siena2

60 þúsund manns í Viðey!

Eins og margir bæir í Toskana þróaðist Siena út frá hæðóttu landslaginu. Þrjár slíkar hæðir móta Siena en hún er tengd saman af þremur stærstu götum sem mynda nokkurskonar Y-form og snertast í dalverpi sem varð Piazza del Campo, skálarlaga torg sem myndar miðju bæjarins. Bærinn dreyfist yfir 170 hektara svæði sem umlukið er með sjö kílómetra löngum víggirtum vegg. Þetta samsvarar nokkurn veginn stærð Viðeyjar!

Vöktuð hlið voru við mikilvægustu leiðir inn í Siena og voru þau gjarnan höfð tvöföld til að anna betur umferð. Þar má nefna Porta Camollia, sem snýr til norðurs á leiðinni til Flórens. Í vestri faðma virkisveggirnir Fort Santa Barbara sem var endurbyggð af Medici-ættinni á árunum 1560 til 1580. Innan veggjanna reyndu menn að verja turnhús, hallir, kirkjur og önnur trúarleg mannvirki. Eitt það merkilegasta við Siena er vatnsveitukerfi sem var lagt af stórhuga mönnum á 13. öld. Kerfið er verkfræðilegt afrek og færir vatn inn í borgina um 15 kílómetra leið. Vatn hefur því verið nægt í borginni í gegnum tíðina og þegar fór að fyrnast yfir afrekið héldu margir bæjarbúar notuðust við neðanjarðará, sem meira að segja fékk heitið Diana. Enn eru upprunaleg göng að veita vatni til Siena.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.

Ath. Leiðrétting var gerð á fjölda íbúa þegar Svarti dauði reið yfir.