c

Pistlar:

23. mars 2018 kl. 9:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Miðaldaborgaskipulag

Eftir nokkra daga í borg sem skipulögð er eftir lögmálum miðaldanna er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að nútímamanninum hafi ekki tekist sem skyldi að skipuleggja þéttbýli dagsins í dag. Eins og áður hefur komið fram í pistli hér áður er Siena hér í Toskana skipulögð á 12. til 15. öld. Skipulögð, segi ég. Nær væri að segja að hún hafi orðið til eftir því sem íbúum fjölgaði. Ekki skal gert lítið úr verkfræðiþekkingu þeirra tíma, bæði byggingar og önnur mannvirki bera þessum síðmiðaldamönnum fagurt vitni í þeim efnum. Hér verða jarðskjálftar þannig að hús þurfa að þola ýmislegt. Við Piazza del Campo stendur ríflega 100 metra hár turn úr hlöðnu efni sem hefur haldið reisn sinni frá því á 13. öld.agangur

Umferð er þannig háttað hér að bílar eru ekki leyfðir í miðbænum þó með rúmum undantekningum. Þannig er vanalega komin bíll á eftir manni þegar þröngar göturnar eru gengnar en þó aldrei svo að það sé eins og umferð, heldur einn og einn ökumaður að sinna brýnum erindum. Inn á milli þeysist unga fólkið á vespum fram og til baka. Hér er lítið um rafbíla en hef þó séð hleðslustöðvar fyrir rafhjól. En þéttleiki byggðarinnar gerir það að verkum að gangandi maður er fljótur að fara endanna á milli. Líklega tekur það innan við 45 mínútna röskan gang að fara frá einu borgarenda til annars. Því er það svo að fólk gengur til flestra sinna erinda innan borgarmúranna. Já borgarmúranna, hér eru borgarmúrar enda þurftu Sienabúar að verja sig fyrir ágengum nágrönum. Þessi ítölsku borgríki voru alltaf að kljást eitthvað. Ég nefndi það áður að hér búa 60 þúsund manns á reiti sem samsvarar Viðey en í þeirri tölu getur verið skekkja því ekki er ljóst hve margir búa rétt utan múranna en teljast þó til borgarbúa. Líklega fer talan aldrei undir 50 þúsund manns þannig að hér er búið þétt. Húsin eru flest þriggja til fimm hæða, liggja saman og þegar fólk kemur út á morgnanna hittir það nágrana sinn og báðir ganga til sinna verka. Ég bý í 600 ára gömlu húsi með litlu porti, þrjár hæðir og þrjár íbúðir á hverri hæð. Nýting á plássi er góð.

Einföld og skilvirk sorphirða

En þessi þéttleiki gerir líka þjónustu og innviðauppbyggingu ódýrari. Það sést til dæmis á sorphirðu hér í Siena en það virðist vandað til verka. Tók eftir því þegar ég kom út fyrsta morguninn að það var búið að sópa götuna - og þá meina ég sópa! Allt mjög snyrtilegt, hvorki svifryk né venjulegt ryk skilið eftir. Bara öllu sópað í burtu. Og hér kemur sorpbíl daglega sem tekur lífrænan úrgang sem fólk setur út fyrir dyr í svörtum poka. Blandaður úrgangur einnig. Engar tunnur. Og svo tvisvar í viku eru dósir, gler og annað hirt. Í sömu ferð er allur pappírsúrgangur tekin. Virðist nokkuð skilvirkt. Við þetta eru notaðir til þess að gera litlir bílar og þetta virðist ganga hratt fyrir sig. Fólk og fyrirtæki virðast óhikað skilja eftir ýmislegt við útidyrnar sem við Reykvíkingar þurfum að keyra með út í Sorpu. Þar nefni ég stórar pappírsumbúðir og timbur. Sorpbílarnir hér taka þetta bara. Og fólk er meðvitað um umhverfi sitt hér. Hérna sjást búðaeigendur sópa fyrir utan verslanir sínar. Það segir sig sjálft að kostnaður við annað í innviðum er minna þegar búið er þétt, svo sem við gatna- og raflagnakerfi en raflagnir eru hér gjarnan utanáliggjandi, nokkuð sem við getum ekki leyft okkur á Íslandi.

Aðkoma að borginni mótast vitskuld af þessu bíllausa skipulagi. Hitti hér Englending sem var í viðskiptaferð og hafði komið keyrandi til Siena. Hann varð að skilja bílinn eftir í útjaðri borgarinnar og var ekki hress með það að það tók hann klukkustund að komast á hótelið með töskuna í eftirdragi. Sjálfsagt að einhverju leiti ókunnugleiki en hér eru bílastæði í útjaðri borgarinnar eins og sést af meðfylgjandi mynd þar sem fólk á að skilja bílana eftir. Þar eru rútu og lestarstöðvar líka.samgöngur

En er einhver lærdómur af þessu öllu fyrir þá sem hafa áhuga á skipulagsmálum á Íslandi. Jú mannlífið mótast af skipulaginu. Það breytist með nándinni og flestir sækjast eftir því. Á hinn bóginn verður klukkunni ekki snúið við, í dag þurfa skipulagsyfirvöld að taka aðrar ákvarðanir þó grunnþarfirnar séu þær sömu. Þéttingastefna eins og rekin er í Reykjavík á lítið skylt við það mannlíf sem er hér í miðaldabæjum Ítalíu. Ef menn vilja fara þá leið þá verður að gera það af meiri skilningi á þörfum fólks, meðal annars fyrir samgöngum á Íslandi og veðurfarinu þar. Það er hins vegar sjálfsagt að hugsa hlutina í víðara samhengi með það að markmiði að auðga og bæta mannlífið.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.