c

Pistlar:

7. apríl 2018 kl. 16:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bragðmikil ítölsk pólitík

 


Ítalía er margbrotið land og á það ekki síður við í pólitíkinni. Fyrir norðan Róm eru ríkustu héruð landsins og stórborgirnar á Pó-slettunni státa af miklum iðnaði og þróuðu atvinnulífi. Fyrir sunnan Róm er landbúnaður og fábrotnara atvinnulíf og sumir segjast ekki vita á hverju íbúar Napólí lifa. - Og segjast ekki vilja vita af því. En almennt kjósa norðan menn meira til hægri og þar er sterkari krafa um aðgerðir sem geti stutt við efnahag landsins. Sem stendur eru skuldir allt of miklar og atvinnuleysi mælist í tveggja stafa tölu. Mesti vandinn tengist bankakerfi landsins sem var fjallað um hér fyrir stuttu. Fylgir hér með mynd af Banca Monte dei Paschi di Siena S.p.A. (BMPS) rekur upphaf sitt allt aftur til ársins 1472, eða fyrir 546 árum síðan. bankise

Ítalir gengu til þingkosninga fyrir rúmum mánuði og satt best að segja voru þær ekki til þess að einfalda málin. Matteo Renzi, formaður ítalska demókrataflokksins (Democratic Party (PD)), tilkynnti strax daginn eftir kosningar um afsögn sína sem leiðtogi og var afsögnin samþykkt á þingi flokksins 12. mars. PD fór fyrir bandalagi miðju- og vinstriflokka sem fór með stjórnina á síðasta kjörtímabili. Bandalagið galt afhroð í þingkosningunum.

Löggjafaþing Ítala skiptist í tvennt. Annars vegar er það einhverskonar fulltrúaþing (chambers of deputies) og eru þar 630 sæti í boði. Hins vegar er það öldungadeild (senate) þar sem eru 315 sæti. Báðar þingdeildir þurfa að vinna saman til að koma nýjum lögum í gegn.

Túristar og verkamenn

Matteo Renzi er frá Toskana en höfuðborgin þar, Flórens, er meira vígi verkamanna en þeir túristar, sem þangað koma í leit að fagurri list og góðum mat, gætu haldið. Norðvestur af borginni er þétt belti verksmiðja og er þar fyrirferðamest Coverciano úthverfið. Þar má sjá mikið af ódýrum og íburðarlitlum íbúðablokkum - flestar voru byggðar á uppgangstíma ítalsks efnahags á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þarna er heimurinn dálítið frábrugðin því sem sjá má í Flórens. Eina safnið í Coverciano er helgað knattspyrnu. Félagsheimilið er skýrt í höfuðið á skæruliða kommúnista sem skotin var af nasistum á stríðsárunum. Flestir á þessu svæði kusu demókrataflokk Matteo Renzi sem vann stöðugt að því að breyta áherslum flokksins þann tíma sem hann var við völd. Í upphafi studdu flestir íbúa Coverciano Renzi en eins og oft gerist í pólitík - þegar hann komst til valda breyttust áherslurnar. Sumir töldu meira að segja að hann hefði tekið að sér að gera það sem hægri mönnum tókst ekki að gera. Eftirlaunaaldurinn var hækkaður og teknar voru til baka endurbætur sem áttu að tryggja launamönnum aukin réttindi við uppsögn. Matteo Renzi útskýrði báðar þessar ákvarðanir með því að óhjákvæmilegt væri að takast á við hinar gríðarlegu skuldir sem hvíldu á ítalska ríkinu. Að sama skapi væri mikilvægt að skapa ný störf fyrir ungt fólk en atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur verið gríðarlegt á Ítalíu með ýmsum alvarlegum félagslegum afleiðingum.

Norðurbandalagið og Toni Iwobi

En það eru ekki bara efnahagsmálin sem brenna á ítölskum kjósendum. Innflæði flóttamanna hefur verið mörgum áhyggjuefni og í sumum tilfellum skerpt hina pólitísku umræðu. Kjósendum Renzi í verkamannahverfunum fyrir utan Flórens fannst hann lítið gera til að takast á við þann vanda. Um 600.000 þúsund manns hefur skolað upp á strendur Ítalíu undanfarin ár. Frá gamalli tíð hefur mátt finna talsverða kynþáttahyggju á Ítalíu þó hún sé ekki eins áberandi og í balknesku löndunum hinum megin við Adríahafið. Þess má reyndar geta að fyrsti blökkumaðurinn í sögunni var kosinn á ítalska senatið núna. Það var Toni Iwobi, sem hefur verið meðlimur í Norðurbandalaginu í 25 ár, en hann er af nígerískum uppruna. Mörgum kann að koma það spánskt fyrir sjónir þar sem Norðurbandalagið er mjög hart í andstöðu sinni gegn ólöglegum innflytjendum og hefur því sætt gagnrýni fyrir rasisma. Toni Iwobi var í framboði í Brescia í Lombardí en þar er Norðurbandalagið sterkt en að afloknum kosningum nú er flokkurinn sá næst stærsti á Ítalíu. Segja má að ástandið vegna innflytjenda sé spennuþrungið víða og komið hefur til átaka á einstaka stöðum. Ólíklegt er að kosning Iwobi ein og sér muni slá á þá spennu en hann hefur talsvert komið að því að móta stefnu flokksins í innflytjendamálum.

Frjálsir og jafnir til leiks

PD varð til upp úr bræðslupotti sem tekið hefur hugmyndir frá verkamannaflokkum með kommúnískar áherslur en einnig frá millistéttarsjónarmiðum sem sótt eru til Kristilega demókrataflokksins sem í eina tíð réði öllu á Ítalíu. Þrátt fyrir að vera í minnihluta hefur PD leitt þrjár síðustu ríkisstjórnir Ítalíu. En þessi ólíku öfl sem að flokknum koma hafa reynt á samtakamátt flokksins. Segja má að Matteo Renzi hefi reynt að sameina hófleg sósíaldemókrataísk sjónarmið sem horfa með ákveðinni velvild til viðskipta- og efnahagslífsins og harðari línu vinstri manna sem vilja rótækari lausnir í þágu þeirra sem minna meiga sín. Þetta hafði þau áhrif að vinstra megin við PD klofnaði frá hópur sem bauð fram undir nafninu Frjálsir og jafnir (Free and Equal). Útkoma úr stjórnarmyndunarviðræðum getur enn frekar haft áhrif á framhald PD. En er talið að Renzi hafi um það bil helming þingmanna flokksins á bak við sig. Hann hefur ekki viljað hefja viðræður um samsteypustjórn með þátttöku Fimmstjörnubandalagsins né hægri mönnum. Frekar hefur hann talað fyrir því að PD taki sér stöðu í stjórnarandstöðu. Nýr formaður PD, Maurizio Martina, sem verður reyndar ekki við völd nema þangað til flokkurinn kýs nýjan leiðtoga eftir 6 mánuði er sammála þessu. Báðir segja þeir að ábyrgð á myndun nýrrar ríkisstjórnar liggi hjá Lugi Di Maio, leiðtoga Fimmstjörnubandalagsins, og Matteo Salvini, sem stýrir Norðurbandalaginu (Northern League). Norðurbandalagið birtist sem ráðandi afl á hægri vængnum eftir kosningarnar eins og áður sagði og tók þar forystuna af Forza Italía, flokki ólíkindatólsins Silvio Berlusconi.italia

Hugsanleg endurkoma Silvio Berlusconi rændi allri athygli síðasta sumar í ítalskri pólitík. Silvio varð 81 árs í september síðastliðnum og er þrátt fyrir allt sá forsætisráðherra sem hefur setið lengst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Ekki er beinlínis hægt að segja að hann sé stöðugleikinn holdi klæddur þó hann sé vissulega nokkuð stöðugur í útliti! Silvio var vikið frá völdum 2011 og var dæmdur fyrir skattsvik tveimur árum síðar. Dómurinn hafði meðal annars þær afleiðingar að hann getur ekki sest í opinbert embætti fyrr en á næsta ári, árið 2019. En hanga yfir honum dómsmál en segja má að allan hans pólitíska feril hafi rannsakendur verið ofan í öllum hans pottum og kirnum. Endurkoma Silvio virðist ekki hafa einfaldað línur í ítölskum stjórnmálum en hann tók fylgi bæði af hægri og vinstri kanntinum. Þó án þess að geta haft afgerandi áhrif á stjórnarmyndunarviðræður.

Fimmstjörnu grín

Síðan grínistinn Beppe Grillo stofnaði Fimmstjörnuhreyfinguna (M5S) hefur hennar helsta baráttumál verið að berjast gegn spillingu. „Grillini”, stuðningsmenn M5S, eru kallaðir eftir stofnandanum og þykja nokkuð óhefðbundnir en líklega má finna ákveðna samsvörun með flokknum og pírötum. Fimmstjörnubandalagið hefur ekki gert mikið til að einfalda ítölsk stjórnmál. Flokkurinn rekur upphaf sitt til baráttunnar gegn spillingu og tilvera hans byggist að hluta til á því að allir aðrir séu spilltir og ómögulegir. Því er eðlilegt að menn séu ekki spenntir fyrir því að ganga til liðs við þá. En eftir því sem ábyrgð og völd hafa fallið í hendur M5S hefur komið í ljós að það getur verið erfitt að halda í hinn pólitíska meydóm.

Fyrir ári síðan beindist athyglin að tveimur glæsilegum fulltrúum flokksins sem höfðu tekið að sér borgarstjórn í tveimur af helstu borgum Ítalíu. Annars vegar var það Virginia Raggi sem stýrði Róm og hins vegar Chara Appendino sem stýrði Tórínó. Raggi lenti fljótlega í rannsókn sérstaks saksóknara vegna gruns um að hún hefði misfarið með vald sitt og falsað gögn. Hún hefur setið það af sér til þessa. Appendino hefur gengið betur en ýmsir fylgismenn M5S telja þó að hún hafi svikið hugsjónir flokksins og sé fyrst og fremst gluggaskraut valdaelítunnar í Tórínó en þar mun víst vera að finna fleiri Ferrari bíla en annars staðar á Ítalíu! Borgin er full af gömlum peningum og Chara Appendino hefur litlu breytt þar um.

Matteo Salvini hóf stjórnarmyndunarþreyfingar með því að krefjast forsætisráðherrastólsins en hefur orðið lítið ágengt til þessa. Stjórn með þátttöku Norðurbandalagsins, Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Forza Italía væri líklega það sem Evrópusambandið vildi síst því innan allra þessara hreyfinga er talsverð andstaða við ESB, jafnvel svo að sumir tala fyrir úrsögn. Enn virðast menn vera frekar að útiloka samstarfsaðila en tala fyrir raunverulegu stjórnarsamstarfi. Því er óvíst hvenær sér til lands með nýja ríkisstjórn á Ítalíu. En verkefnin bíða.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.