c

Pistlar:

12. apríl 2018 kl. 17:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátæktariðnaðurinn

Í gærkvöldi var áhugaverður þáttur á dagskrá Ríkissjónvarpsins, Fátækt ehf. (Poverty Inc.) Um var að ræða þriggja ára gamla heimildarmynd um þróunaraðstoð Vesturlanda til þriðja heimsins og vandamálin sem henni geta fylgt, þar sem velviljaðir utanaðkomandi aðilar geta stundum gert aðstæður enn verri, eins og sagði í dagskrárkynningu. Myndin fjallar um fátæktariðnaðinn sem meðal annars hefur í för með sér að viðhalda fátækt með misheppnuðum aðgerðum sem oft á tíðum draga úr sjálfsbjargarviðleitni fólks. Að því leyti dregur myndin fram umdeild sjónarmið en hún byggist meðal annars á viðtölum við yfir 200 manns í 20 löndum. Fátækt ehf. er leikstýrt af Michael Matheson Miller og hefur hún unnið til allmargra verðlauna.inc

Meðal þeirra sem rætt er við er þekkt fólk eins og Herman Chinery-Hesse, Hernando de Soto og nóbelsverðlaunahafann Mohammad Yunus. Einnig er vitnað til manna eins og Bill Clinton og söngvarans Bono. Í myndinni er einmitt sérstaklega fjallað um fátæktardekur fræga fólksins en reglulega erum við minnt á að sumar af stjörnum nútímans hafa helgað sig einhverjum tilteknum málefnum í viðleitni til að auðga eigin líf og væntanlega koma góðu til leiðar. Það var reyndar sláandi að hlusta á nokkra af íbúum Afríku rifja upp með hryllingi textann við smellinn fræga frá 1984; „Do They Know It's Christmas?" eftir þá Bob Geldof og Midge Ure. Lagið var sett saman í tilefni hörmunga í Eþíópíu árið á undan. Viðmælendum í þættinum fannst augljóslega lagið ýta undir klisjur, alhæfingar og staðalímyndir. Getum við ekki séð ýmislegt af þessu í umræðu dagsins hér heima á Íslandi þar sem þar sem pistlahöfundar eins og Logi Bergmann þurfa að þola mjög óvægna persónulega gagnrýni fyrir það eitt að segja að það hafi alltaf verið erfitt að eignast sína fyrstu íbúð á Íslandi?

Aðstoð verður að iðnaði

Áður en lengra er haldið er rétt að minna menn á að munur er á milli neyðaraðstoðar og þróunarhjálpar. Oft þarf að bregðast við þegar hörmungar dynja yfir en það er eftirmálinn sem er harðlega gagnrýndur í myndinni. Aðstoðin verður að iðnaði eins og rakið er rækilega með dæmum frá Haiti. Eins og flestum er kunnugt varð landið að þola mikla jarðskjálfta fyrir nokkrum árum og í kjölfarið var efnt til víðtækrar aðstoðar. Þegar myndin var gerð voru enn um 10.000 hjálparstarfsmenn í landinu og ómögulegt virtist að koma af stað eðlilegri starfsemi innanlands. Á Haiti borðaði fólk í eina tíð hrísgrjón þrisvar í viku sem studdi við bændur sem framleiddu hrísgrjón. Nú flæða ókeypis hrísgrjón inn í landið og vonlaust er fyrir bændur að keppa við ókeypis hrísgrjón. Í þættinum kemur einnig fram að gjafafatnaður frá Vesturlöndum grefur undan innlendum fataiðnaði. Það er erfitt að keppa við það sem er gefið.

Sömuleiðis voru sagðar af fólki sem vildi taka að sér munaðarlaus börn en komst svo að því að börnin áttu í oft foreldra á lífi. Þarna var um að ræða Gauksunga, foreldrarnir sáu að börn þeirra gátu lifað við miklu betri aðstæður á einhverju hinna fjölmörgu munaðarleysingjahæla sem oft rísa í kjölfar hamfara. Í stað þess að reyna að ala önn fyrir þeim sjálfir þá var betra að koma þeim á munaðarleysingjahæli. Þetta var ekki af skort á ást og umhyggju foreldranna, heldur kalt mat á hvað myndi henta börnunum betur.

Aðgang að mörkuðum frekar en aðstoð

Þróunarhjálp hefur oft verið gagnrýnd af markaðssinnum fyrir að vera aðstoð án þróunar. Nær sé að einbeita sér að þróun án aðstoðar. Augljóst var að þátturinn ýtti undir slík sjónarmið og margir þeir íbúar þróunarlanda sem rætt var við sögðust ekki vilja aðstoð, heldur miklu frekar aðgang að mörkuðum. Það er rétt að framleiðsluiðnaður í þróunarlöndunum á ákaflega undir högg að sækja ef ekki er hægt að tryggja markað, að ekki sé talað um ef hann er settur í óeðlilega samkeppni. Að sumu leyti finnst manni eins og þátturinn taki undir sjónarmið eins og þau sem hér hefur verið vitnað til frá Hans Rosling og Matt Ridley. Írinn Daclan Ganley var einn þeirra sem þarna er rætt við en hann hefur annars staðar farið yfir af hverju Írlandi hefur farnast svo vel síðustu áratugi - ekki vegna fátæktarstuðnings ESB heldur vegna þess að þeir fengu aðgang að mörkuðum ESB. Áhugaverð umræða.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir auknum fjármunum til þróunaraðstoðar. Hér hefur áður verið tekið undir mikilvægi þess að við sem rík þjóð tökum þátt í slíku starfi. En myndin sem hér um ræðir minnir á að það er vandasamt að fara inn í ókunn lönd og ætla sér að koma einhverju góðu til leiðar með því einu að ausa fé á báðar hendur.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.