c

Pistlar:

17. apríl 2018 kl. 16:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóttinn úr ríki sósíalismans

Flóttamannastraumurinn frá Venesúela er nú áætlaður vera um 5000 manns á dag samkvæmt tölum sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér. Það er mesti straumur flóttamanna sem hefur sést í latnesku Ameríku í áratugi, ef þá finnast sambærileg dæmi. Á meðan heimurinn fylgist með straumi flóttamanna frá Sýrlandi og Myanmar er Flóttamannahjálp SÞ með fangið fullt af vandamálum í Venesúela og nágranalöndum. Stærsti straumurinn liggur inn í Kólumbíu og Brasilíu sem eiga í megnustu vandræðum með að taka við flóttamönnunum. Nú eru taldir vera um 600.000 flóttamenn frá Venesúela í Kólombíu, helmingi fleiri en í fyrra. Flóttamenn eru teknir að streyma til fleiri landa og hefur Perú til að mynda orðið að taka við 40.000 flóttamönnum. Önnur lönd í nágreninu hafa einnig orðið fyrir barðinu á flóttamannastrauminum. Ef heldur áfram sem horfir er talið að 1,8 milljón manna flýi Venesúela á árinu eða sem svarar 5 prósent af íbúafjölda landsins. Rauði krossinn og Flóttamannahjálpin hafa sent út ákall en ástandið er mjög viðkvæmt en meðfylgjandi línurit sýnir fjölgun flóttamana.vene2

Sósíalískt hungur

Fólkið er að flýja sósíalistastjórn þá sem ríkt hefur í Venesúela síðan 1999 og hefur tekist að breyta efnahag þessa fyrrum ríkasta lands Suður-Ameríku þannig að landið getur ekki brauðfætt sig. Landsframleiðsla hefur þannig dregist saman um 40 prósent og horfur á að það verði áframhaldandi samdráttur. Um þetta ástandi hefur verið fjallað nokkrum sinnum hér í pistlum.

Það er auðvitað merkilegt út af fyrir sig að sósíalistastjórninni skuli takast að framkalla hungursneið í jafn vel settu landi og Venesúela og það án þess að stríðsátök verði notuð til útskýringar. Það er ekki langt síðan fólk annars staðar að leitaði inn í hið olíuauðuga Venesúela í leit að vinnu þannig að umskiptin eru ótrúleg. Á sínum tíma tók landið við mörgum pólitískum flóttamönnum frá Kólumbíu sem komu ár sinni vel fyrir borð. Þeir eru nú að snúa aftur til Kólumbíu.

Þegar Hugo Chávez tók við völdum kom strax mikil styggð að efnameira fólki sem tók að flýja land af ótta við stefnu hins háværasama Chávez. Áhrif af stefnu hans fóru í raun ekki að koma fram fyrr en í kringum dauða hans árið 2013 og eftirmaðurinn, strætóbílstjórinn Nicolás Maduro, hefur algerlega misst tökin á stjórn landsins. Þess má geta að Maduro var orðin háttsettur í verkalýðshreyfingunni þegar hann var kosinn á þing árið 2000. Sá bakgrunnur hefur ekki hjálpað honum við stjórn landsins en þeim landsmönnum sem berjast við algera örbirgð (e. extreme poverty) fjölgar jafnt og þétt, öfugt við þróunina á heimsvísu. Þetta sést í meðfylgjandi töflu.venes

Það er reyndar svo að það er fyrst og fremst í hinum sósíalísku ríkjum Suður- og Mið-Ameríku sem hefur orðið hungurs vart. Þannig er þekkt að hungurvofan var rétt við dyrnar á Kúbu á tíunda áratug síðustu aldar, rétt eftir fall Sovétríkjanna sem höfðu haldið uppi efnahag Kúbu undir stjórn Fídel Kastró. Það er reyndar vert að vekja athygli á því að nú eru að verða þau tímamót að Kastró-ættarveldið er að líða undir lok á Kúbu, hvaða áhrif svo sem það hefur á hið sósíalíska kerfi sem þar hefur gengið sér til húðar.

Heilbrigðiskerfið hrunið

Og hvað segja tölurnar okkur um ástandið í Venesúela? Þess má geta að breska viðskiptatímaritið Financial Times birti úttekt á vandanum fyrir stuttu og er að hluta til byggt á henni hér. Verðbólgan í Venesúela mælist nú vera um 13.000 prósent á ársgrundvelli. 66 prósent aukning hefur orðið á fósturláti og ungbarnadauði telst nú vera 30 prósent. Um 80 prósent allra spítala í landinu skortir rennandi vatn en algert ófremdarástand ríkir nú í heilbrigðiskerfi landsins. Þegar þessar tölur eru skoðaðar má í raun telja Venesúela til fallinna ríkja, (e. failed state), nánast rétt eins og Sýrland, Afganistan og Írak. Eini munurinn er að í þessum löndum hafa styrjaldir brotist út.

Það er langt síðan alþjóðlegar fréttastofur sýndu umheiminum ástandið á sjúkrahúsum landsins þar sem engin lyf eru fyrir hendi, tækin ónýt og starfsmenn fengu ekki greitt. Í raun hefur verið lengi tilgangslítið eða tilgangslaust að leggja fólk inn á sjúkrahús, það er ekkert hægt að gera fyrir það. Fyrir stuttu birti The British Medical Journal úttekt á skorti á lyfjum og heilbrigðisúrræðum í landinu. Þeirra niðurstaða var að landið hefði færst áratugi aftur í tímann og sjúkdómar, sem talið var að hefði verið útrýmt, hafa látið á sér kræla aftur. Þannig eru mislingar farnir að stinga sér niður og tíðni HIV-smits hefur aukist, meðal annars vegna skorts á getnaðarvörnum. Á sama tíma hefur ríkt fullkominn vöruskortur í landinu sem nú er farin að hafa í för með sér hungur á einstaka svæðum sem gerir fólk aftur viðkvæmara fyrir sjúkdómum.

Fáir eða engir eru í jafn viðkvæmri stöðu og fólk á flótta. Það verður fyrir barðinu á glæpamönnum og pólitískum skæruliðum og því miður virðist sem svo að lögleysan hafi haldið innreið sína í hina sósíalísku paradís sem Hugo Chávez og fylgjendur hans ætluðu að skapa. Á meðan stjórn Maduro þrjóskast við að sitja verða líklega litlar breytingar þar á.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.