c

Pistlar:

8. maí 2018 kl. 22:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Truman og ófullkomnar kosningaspár

Þessi mynd af Harry S. Truman með forsíðu Chicago Daily Tribune 3. nóvember 1948 er ein af þeim frægari. Ritstjórn blaðsins taldi svo öruggt að Thomas E. Dewey myndi sigra að hún voru búnir að prenta blaðið áður en úrslit lágu fyrir. Dewey Defeats Truman stendur yfir þvera forsíðuna. Þetta var ekki út í bláinn - flestar spár gerðu ráð fyrir sigri Dewey en kosningaspár voru ekki mjög fullkomnar á þessum tíma. Rýnihópur með 50 blaðamönnum var einnig einróma um sigur Dewey!truman

En hvernig mátti þetta vera, að staða sitjandi forseta væri svona veik? Þegar Harry S. Truman tók við forsetaembættinu við dauða Franklin D. Roosevelt í apríl árið 1945 höfðu þeir aðeins hist tvisvar enda aðeins 82 dagar síðan Truman tók við varaforsetaembættinu. Truman var fyrir vikið ekki inni í neinu, hafði til dæmis ekki neina vitneskju um Manhattan-áætlunina um smíði kjarnorkuvopna. Það féll hins vegar í hans skaut að taka ákvörðun um að beita þeim. En í dag er það umdeildasta ákvörðun sem nokkur ráðamaður hefur tekið. Harry S. Truman fæddist 8. maí fyrir 134 árum síðan en hann fékk uppgjöf Þjóðverja í afmælisgjöf á 61 afmælisdegi sínum.

Öflug kosningabarátta

Víkjum aftur að kosningunum 1948. Talið var að Truman ætti litla möguleika á móti Dewey sem var kraftmikill fylkisstjóri í New York og hafði talsvert meiri útgeislun en Truman. Truman sjálfur var slakur ræðumaður, heldur pasturslítill og efasemdir voru um forystuhæfileika hans meðal eigin flokksmanna. Truman var hins vegar ekki á því að gefast upp og náði að fylkja demókrötum að baki sér og hélt eftirminnilega ræðu á landsfundi þeirra þar sem hann kom með öfluga smjörklípu. Kenndi þinginu einfaldlega um að stoppa öll góð mál en þar réðu repúblikanar lögum og lofum. Hann kallaði meira að segja þingið saman um sumarið til að sýna fólki að það gerði ekkert!

Þegar út í forsetabaráttuna var komið hélt Truman af stað í mikla lestarferð og háði öfluga og skipulega baráttu. Hann var vel upplýstur um áherslumál í hverju bæjafélagi fyrir sig og fólk þyrptist að til að sjá forsetann eigin augum. Í návígi var hann viðkunnanlegur og gætti þess vandleg að kynna konu og dóttur fyrir kjósendum sem líkaði það vel. Á sama tíma var Dewey umhugað um að verja forystuna sem hann taldi sig hafa og reyndi umfram allt að vera forsetalegur. Það hafði í för með sér að hann var frekar óspennandi og fyrirsjáanlegur. Þegar Truman gekk of langt í kosningabaráttunni með því að líkja stuðningsmönnum repúblikana við þá sem stóðu að baki Hitler svaraði Dewey engu að ráði nánustu samstarfsmanna. Eftirá var hann ósáttur við að hafa haldið aftur af sér.

Fór að sofa á kosninganóttina

En á kjördag sýndu kannanir að Dewey væri með forystu þó munurinn hefði minnkað verulega. Líklega má gera margvíslegar athugasemdir við framkvæmd kannana á þessum tíma. Truman fór heim til sín í Missouri og fékk sér brauðsneið og mjólkurglas og lagði sig á kosninganóttina! Þegar úrslitin lágu fyrir þá vakti lífvörðurinn Truman og tilkynnti honum að hann væri áfram forseti Bandaríkjanna. Þegar Dewey vaknaði á sínu hóteli tók hann fyrst eftir að lífverðirnir voru horfnir! Þá áttaði hann sig á því að hann hefði tapað baráttunni. Það var ekki fyrr en með sigri Trump á Clinton sem jafn óvænt úrslit urðu í bandarísku forsetakosningunum. En er talað um að berjast eins og Truman þegar menn eru hvatir til að herða róðurinn í kosningabaráttu.

Truman átti stóran þátt í að móta eftirstríðsárin. Hann studdi stofnun Sameinuðu þjóðanna, stóð fyrir Marshall-áætluninni og hóf baráttu gegn kommúnisma með kenningu sem við hann var kennd. Að sumra dómi markaði það upphaf kaldastríðsins.

Á Netflix má finna áhugaverða þáttaröð um spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum og er ástæða til að hvetja áhugamenn um stjórnmál að kynna sér þættina. Þar er meðal annars fjallað um baráttu Dewey og Truman.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.