c

Pistlar:

12. júní 2018 kl. 21:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haust yfir hagkerfinu

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna skýra viðhorfsbreytingu meðal stjórnenda. Svo virðist sem nú hausti að í hagkerfinu. Töluvert færri en áður telja aðstæður vera góðar í atvinnulífinu og væntingar til næstu sex mánaða eru minni en frá upphafi þessara mælinga. Skortur á starfsfólki minnkar stöðugt og því fjölgar mun hægar en undanfarin ár. Stjórnendur búast við 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem eru hærri verðbólguvæntingar en undanfarin ár.bygg

Þetta kom fram á hádegisverðarfundi Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands í dag um samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Á fundinum voru klassísk umræðuefni; hágengi krónunnar, áskoranir á vinnumarkaði, samkeppnismál og regluverk, þróun skattbyrði fyrirtækja, menntastefna fyrir atvinnulífið og leiðir til að gera betur.

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar töluvert og hefur ekki verið lægri síðan árið 2014. 60% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 70% fyrir þremur mánuðum síðan, og 12% telja þær slæmar en 5% töldu svo þá. Innan við helmingur stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni telja aðstæður góðar samanborið við tvo þriðju hluta annarra stjórnenda.

Væntingar stjórnenda þær minnstu í 10 ár

Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði eru minni en þær hafa verið frá upphafi þessara mælinga, þ.e. minni en þær voru í miðju fjármálahruninu fyrir tæpum 10 árum. 40% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 30% í síðustu könnun, og aðeins 7% telja að þær batni. Væntingar stjórnenda um aðstæður eftir 6 mánuði eru áberandi minni í sjávarútvegi, fjármálaþjónustu og ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum. Væntingar stjórnenda á þessu ári hafa breyst mikið frá þeirri bjartsýni sem ríkt hefur undanfarin ár.

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Verðbólguvæntingar hafa verið að aukast undanfarið ár og augljóst að menn óttast verðbólgusamninga á næsta vetri í ljósi yfirlýsinga þeirra nýju og herskáu manna sem eru farnir að tala fyrir hönd verkjalýðsfélaga. Líklegt er að menn gefi að endingu eftir til að forðast verkföll og semji um verðbólgu. Hinir herskáu mættu hafa í huga orð stjórnmálaheimspekingsins Max Webers úr bók hans Starf stjórnmálamannsins. Þar segir Weber:

„Við stefnum ekki inn í sumarblíðuna, heldur nístandi, gaddmyrka heimskautanótt; skiptir þar engu, hverjir ofaná á verða í hinum ytri átökum. Því að þar sem ekkert er eftir til skipta, verður hlutur öreigans jafnrýr og keisarans.”

Það að Ísland hefur undanfarið fallið á lista yfir samkeppnihæfni þjóða virðist skipta litlu. Sú hugmynd að semja eftir skandinavísku vinnumódeli þar sem útflutningsgreinarnar og afkoma þeirra seta viðmiðin og samið sé fyrst og fremst út frá stöðugleika er fyrir bí. Popúlismi hefur haldið innreið sína í verkalýðshreyfinguna sem mun láta spá Webers rætast. Því miður. Fyrir 10 árum gleymdu Íslendingar sér um stundasakir vegna velgengni handboltalandsliðsins á ólympíuleikunum í Bejing. Hugsanlega gerist það aftur.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.